Skip to main content
Frétt

Synjað um örorkulífeyri því móðirin undirritaði umsóknina

By 3. júlí 2012No Comments

Einstaklingurinn var ófær um að undirrita gögn sjálfur vegna fötlunar TR synjaði honum um bætur. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hnekkti þeirri synjun.

Í kæru, A, til Úrskurðarnefndar almannatrygginga er greint frá því að vegna fötlunar sinnar geti kærandi hvorki skrifað undir sjálfur né viti um hvað málið snúist. Móðir kæranda, B, hafði sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur fyrir kæranda, sbr. 18. gr. almannatryggingalaga fyrir hans hönd þegar hann var 17 ára og hún enn forsjáraðili hans. Þá lá einnig fyrir afrit af samningi um persónulegan talsmann fyrir kæranda. Samkvæmt þeim samningi veitti kærandi móður sinni umboð til þess að vera persónulegur talsmaður sinn.

Tryggingastofnun ríkisins taldi undirritun á umsókn kæranda um örorkulífeyri ekki uppfylla formkröfur þar sem hann hafði ekki sjálfur undirritað umsóknina og vísaði henni því frá.

Niðurstaða úrskurðarnefndar

Í niðurstöðum Úrskurðarnefndar almanntrygginga segir meðal annars. „Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ófær um undirritun vegna fötlunar sinnar og undirritaði móðir hans því umsóknina fyrir hans hönd. Þegar umsóknin var undirrituð var kærandi ólögráða fyrir æsku sakir og móðir hans sótti því um sem forsjáraðili hans.

Þá liggur fyrir í málinu afrit af samningi um persónulegan talsmann fyrir kæranda, dags. 5. mars 2012. Samkvæmt þeim samningi veitir kærandi móður sinni, B, umboð til þess að vera persónulegur talsmaður sinn samkvæmt 7. – 9. gr. laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Þar með er talsmanninum veitt heimild til að koma fram hönd kæranda í málum sem varða hann.“   …

„Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga með hliðsjón af framangreindu að umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur hafi uppfyllt formskilyrði varðandi undirritun. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um frávísun er hrundið og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til efnislegrar meðferðar.“

Úrskurðurinn í heild