Skip to main content
Frétt

Tekjuviðmið vegna frekari uppbótar á lífeyri hækkar um 12,5%

By 23. desember 2014No Comments

Hækkun úr 200.000 kr. á mánuði í 225.070 krónur.

Frá 1. janúar næstkomandi, hækkar tekjuviðmiðið (heildartekjur fyrir skatta) úr 200.000 kr. á mánuði í 225.070 kr. og verður þar með jafn hátt framfærsluviðmiði þeirra sem búa einir. Þeir sem eiga 4.000.000 í peningum eða verðbréfum munu þó ekki fá leiðréttingu þar sem eiganmörkin munu ekki breytast. Samkvæmt reglugerðinni sem ráðherra hefur undirritað og birt verður á vef Stjórnartíðinda fyrir áramót eru dæmi um útgjöld sem uppbótin nær til þessi:

  1. Umönnunarkostnaðar, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki.
  2. Sjúkra- eða lyfjakostnaðar og kostnaðar vegna kaupa á heyrnartæki, sem sjúkratryggingar greiða ekki.
  3. Húsaleigukostnaðar, sem fellur utan húsaleigubóta.
  4. Vistunarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum, sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi.
  5. Rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíunotkunar.

Fréttin í heild á heimasíðu velferðarráðuneytisins

Árið 2014 fengu 68% færri uppbót en árið 2009

Ítrekað hefur ÖBÍ bent á þá skekkju sem hefur verið að myndast á liðnum árum eða allt frá 2009 þar sem æ færri haf notið þessarar uppbótar. Þann 1. febrúar  2014 fengu 2.318 færri lífeyrisþegar uppbætur á lífeyri en í janúar 2009, eða 68% hópsins.

Í töflunni hér að neðan má sjá fækkun þeirra sem njóta uppbótinnar frá janúar 2009 til 1.febúar 2014.

  Fjöldi lífeyrisþega með frekari uppbætur* Breyting frá fyrra ári Breyting í %.
01.01.2009 3.393    
01.01.2010 2.916 – 477 – 14%
01.01.2011 2.158 – 758 – 26%
01.01.2012 1.730 – 428 – 20%
01.01.2013 1.525 – 205 – 12%
01.02.2014 1.075 – 405 – 26,5%
Samtals fækkun 2.318    

*Um er að ræða fjölda kennitala. Sami einstaklingur getur verið að missa fleiri en einn uppbótaflokk, t.d. uppbætur vegna læknis- og lyfjakostnaðar og uppbætur vegna umönnunar.

ÖBÍ fagnar því að uppbótin sé nú framreiknuð en ljóst er að hún fylgir ekki verðlagsþróun. Það kemur meðal annars glöggt fram í svari Eyglóar Harðardóttur við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur á Alþingi. Þá hefði viðmiðið þurft að hækka í um 240.000 krónur til að ná fullu verðgildi ársins 2009.

ÖBÍ hvetur fólk til að vera vakandi fyrirréttindum sínum og sækja um uppbætur þar sem það á við.