Skip to main content
Frétt

Telur TR hafa snuðað hundruð öryrkja um bætur

By 1. október 2014No Comments

Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður ÖBÍ telur Tryggingastofnun hafa praktíserað lögin með röngum hætti.

Öryrkjabandalagið leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd þroskaskertrar konu um þrítugt vegna úrskurðar Úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um að konan ætti rétt til örorkulífeyris frá þeim tíma sem hún sótti um en ekki tvö ár aftur í tímann eins og lögin heimila.

Umboðsmaður ósammála TR og úrskurðarnefndinni

Umboðsmaður Alþingis er ósammála túlkun Tryggingastofnunar og síðar úrskurðarnefndarinnar og hefur nú birt niðurstöður í áliti nr. 7851/2014 á heimasíðu sinni. Hann segir kröfunni hafa verið hafnað á þeim forsendum að læknisfræðileg gögn málsins hafi ekki talið bera ótvírætt með sér að hún hafi uppfyllt læknisfræðileg skilyrði örorku áður en greining sérfræðings fór fram. Umboðsmaður segir læknisfræðileg gögn málsins hafa borið með sér að ástand konunnar hafi ekki breyst í gegnum tíðina heldur hafi þau þvert á móti bent til þess að ástand hennar væri meðfætt. Það hefði átt að gefa henni kost á að leggja fram frekari gögn ef álitið hafi verið að ekki hafi verið sýnt fram á ástand konunnar með nægilega skýrum hætti segir hann.  

Daníel Isebarn ÁgústssonTelur TR hafa praktíserað lögin með röngum hætti

Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður ÖBÍ segir um þessar niðurstöður umboðsmanns að Tryggingastofnun hafi praktíserað lögin með röngum hætti og snuðað jafnvel hundruð öryrkja um afturvirkar greiðslur. „Öryrkjabandalagið er búið að benda á þetta í mörg ár en Tryggingastofnun hefur þráast við og barið hausnum við steininn. Núna fá þeir loksins álit frá umboðsmanni og þá ætla ég rétt að vona að þeir uppfylli þá skýru lagaskyldu sína að kafa ofan í öll mál sem hefur verið hafnað á þessum forsendum og endurupptaka þau öll,“ segir Daníel.

TR fær skammir frá umboðsmanni

Að sögn Daníels er það sérstakt fagnaðarefni fyrir Öryrkjabandalagið að í áliti umboðsmanns sé fjallað um almenna verklagsreglu hjá Tryggingastofnun. Tekið sé á tveimur meginatriðum varðandi heimildina til að ákvarða bótarétt aftur í tímann. Fyrra atriðið sé óhemju harðar kröfur um að sýnt sé fram á ótvíræðan bótarétt. Fyrir það fái þeir skammir hjá umboðsmanni. Seinna atriðið sé ekki síður mikilvægt.

„Við þá sem ná þó að sýna fram á að þeir ættu að eiga bótarétt aftur í tímann er sagt að Tryggingastofnun telji ekki vera „sérstakar aðstæður“ í þeirra máli, algerlega án frekari rökstuðnings og án stoðar í lögum,“ segir Daníel.

Krafan um „sérstakar aðstæður“ eigi sér ekki stoð í lögunum

Umboðsmaður Alþingis segir að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi uppfylli skilyrði til bótanna en þó ekki lengra en tvö ár aftur í tímann. Krafa Tryggingastofnunar um „sérstakar aðstæður“ eigi sér ekki stoð í lögunum.

Daníel segir lagaregluna um bætur aftur í tímann ekki hafa verið framkvæmda í samræmi við orðanna hljóðan.

„Hugsunin er sú að ef fólk kemur í örorkumat séu allar líkur á að það sé búið að uppfylla skilyrðin í einhvern tíma áður en það fer í mat. Þess vegna er gert ráð fyrir að hægt sé ákvarða bætur aftur í tímann,“ segir lögmaður Öryrkjabandalagsins.

 

TR hefur úrskurðað fleiri mál á forsendum „sérstakra aðstæðna“

Umboðsmaður tekur fram að það hefði vakið athygli hans að svör og afgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins í málum þar sem sótt hefði verið um að bætur yrðu ákvarðaðar tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn og nauðsynleg gögn lágu fyrir hefðu ekki verið að öllu leyti í samræmi við efni lagagreinarinnar. Nánar tiltekið ætti krafa tryggingastofnunar um að „sérstakar aðstæður“ þyrfti til að bætur yrðu ákvarðaðar afturvirkt sér ekki stoð í lögum og væri ekki í samræmi við orðalag laga um almannatryggingar. 
 
Í fréttasafni ÖBÍ er að finna frétt um úrskurð sem varðar að TR hafi synjað lífeyrisþega um afturvirkar greiðslur barnalífeyris á þeim forsendum að „sérstakar aðstæður“ þyrfti til.