Skip to main content
Frétt

Það er ekki hægt að lifa á þessu

By 2. júní 2015No Comments

Viðtal við Ellen Calmon í DV í dag um kjör öryrkja og furðar sig á ef skilja á lífeyrisþega eftir. Hér má sjá hluta af viðtalinu, en nánar í DV.

“ Það er alveg ljóst – og það hefur ráðherra viðurkennt á fundi sem við áttum – að það er ekki hægt að lifa á 170–190 þúsund krónum á mánuði á Íslandi í dag,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um þau ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir helgi að ekki standi til að hækka lífeyrisgreiðslur í takt við hækkun lægstu launa á vinnumarkaði með sérstakri ákvörðun.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) sendi frá sér ályktun á fimmtudag þar sem þess er krafist að kjör lífeyrisþega verði leiðrétt og að lífeyrir hækki að lágmarki í samræmi við krónutöluhækkun lægstu launa í yfirstandandi kjarasamningagerð. Ellen furðar sig á því ef skilja á þennan hóp enn lengra eftir en nú þegar hefur verið gert.

Hin dýra aðgerð

Samkvæmt 69. grein laga um almannatryggingar, sem ÖBÍ vísar til í kröfum sínum, á lífeyrir að breytast árlega í takt við launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði fjármálaráðherra á þingi á föstudag hvort ekki þyrfti, í ljósi þeirra hækkana sem væru að verða á lægstu launum í nýjum kjarasamningum, sérstaka ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að láta þær endurspeglast í kjörum lífeyrisþega. Hvort þeir myndu fá 300 þúsund krónur í lok samningstímans eða ekki. Í svari sínu sagði Bjarni að síðasta ríkisstjórn hafi nú ekki litið svo á að bótaflokkar jafngiltu launaflokkum og benti á að bætur taki breytingum samkvæmt lögbundnum hætti og taki mið af þróun verðlags og launa. Ef til stæði að gera breytingar á því fyrirkomulagi þyrfti sérstaka ákvörðun þar um, sem væri afar dýr aðgerð.

En ÖBÍ hefur einmitt bent á að allt frá árinu 2009 hafi lífeyrir hvorki náð að halda í við þróun lægstu launa, verðlags né launavísitölu.

„Fjármálaráðherra virðist ekki túlka 69. grein almannatryggingalaga með sama hætti og forveri hans, Geir H. Haarde, gerði meðal annars á sínum tíma. Það er ljóst að í lögunum kemur fram að lífeyririnn eigi að vera í takt við lágmarkslaun. Okkur finnst alveg ljóst að það eigi að taka mið af launaþróun og við höfum setið eftir í þónokkur ár,“ segir Ellen aðspurð um viðbrögð ráðherra.

Prósent hér og þar skila litlu

„Það er löngu kominn tími til að stjórnvöld leiðrétti þessa kjaragliðnun sem við höfum talað um. Það er líka með ólíkindum þegar fólk talar um að við höfum fengið 3,5 prósenta hækkun hér eða 4 prósenta hækkun þar, en það er ekki hægt að tala um prósentutölur þegar við erum að tala um svona lágar tekjur. Fjögurra prósenta hækkun gerir innan við fimm þúsund króna hækkun á mánuði fyrir hinn venjulega lífeyrisþega og við þurfum að fara að tala um krónutöluhækkun. Alveg eins og gert er í lægstu launum.“

Ellen segir að enginn geti lifað á þeim upphæðum sem lífeyrisþegum er ætlað að gera, það viðurkenni allir. Líka ráðherra.

Hvað á ráðherra við?

Ellen segir óhæfu að tala um að þetta sé í lagi og það eigi ekki að endurskoða kerfið í takt við þær hækkanir sem verið sé að semja um á vinnumarkaði. „Þá er verið að tala gegn lagagreinum. Hann þarf þá kannski bara að kynna sér 69. greinina betur. Hann segir sjálfur að bætur taki breytingum samkvæmt lögbundnu fyrirkomulagi og taki mið af þróun verðlags og launa. Hvernig getur hann þá sagt að lífeyrisþegar eigi ekki að fá 300 þúsund krónur á mánuði? Hvað á hann við, ef hann á ekki við 300 þúsund krónurnar?“ spyr Ellen. „

Nánar í DV í dag 2. júní 2015


Leiðrétt mismæli EC í DV 5 júní:  

Davíð ekki Geir

Ellen Calmon óskaði eftir leiðréttingu á þessari setningu: „Fjármálaráðherra virðist ekki túlka 69. grein almannatryggingalaga með sama hætti og forveri hans, Geir H. Haarde, …“

Það átti að vera Davíð ern ekki Geir H. Haade.