Skip to main content
Frétt

Þarf að bæta ímynd ÖBÍ segir formaður

By 23. október 2013No Comments

„Við vitum að ímynd ÖBÍ hefur beðið hnekki og það nýtur ekki þeirrar virðingar og hefur ekki þann sess sem það á að hafa í samfélaginu,“ segir Ellen Calmon, sem var kjörin formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) á aðalfundi bandalagsins síðastliðinn laugardag.

Á fundinum bættust þrjú félög við bandalagið svo nú eru alls 37 félög innan þess og hátt í 9% Íslendinga eru í aðildarfélögum bandalagsins. „Ég tel nauðsynlegt að vinna í þessum ímyndarmálum og að við fáum almenning með okkur. Við viljum að almenningur sé meðvitaðri um þennan stóra hóp sem er innan bandalagsins. Þetta eru mörg ólík félög með ólíkar þarfir. Innan bandalagsins eru meðal annars öryrkjar, fatlaðir, sjúkir og aðstandendur.“ 

Ellen segist fyrst og fremst standa fyrir meiri samræðu og samvinnu sem formaður og telur að formaður ÖBÍ eigi að stuðla að samvinnu aðildarfélaga og vera leiðandi út á við. „Ég tel mjög mikilvægt að ÖBÍ öðlist aftur þann sess og þá virðingu í samfélaginu sem það hefur áður haft,“ segir Ellen. 

Meðal baráttumála sem hún setur á oddinn eru samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismál, og þá ekki síst varðandi aðgengi að upplýsingatækni, flutningur málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna og málefni heilbrigðisþjónustunnar. „Þar hefur þjónustustigið lækkað á síðustu árum og aukinn kostnaður leggst þungt á okkar félaga,“ segir Ellen. 

Hún vill auka samstarf við atvinnulífið í því skyni að minnka fordóma og gera fötluðum og sjúkum kleift að stunda vinnu sína. Til þess þurfa atvinnurekendur að koma til móts við þá. Að auki vill Ellen standa fyrir breyttum baráttuaðferðum. „Ég sagði í ræðu minni á aðalfundinum að ef þú öskraðir í hvert sinn sem þú opnar munninn þá hættir fólk að hlusta. Þetta er ekki bara spurning um ályktanir og mótmæli, heldur líka samvinnu.“ 

Verkefni Ellenar er gríðarstórt. „Mitt fyrsta verk verður að hitta formenn og framkvæmdastjóra hvers félags og heyra hvernig hjartað slær. Þá er spurning hvernig ÖBÍ getur stutt við félögin. Ekki endilega með beinum fjárútlátum heldur stutt við þau svo þau fái að blómstra sjálf.“ 

Ellen vann nauma kosningu um formannssætið en hún fékk 50 atkvæði, Guðmundur Magnússon fráfarandi formaður fékk 46 atkvæði og tvö atkvæði voru auð. „Ég þarf að sannfæra fólk um ég sé verðugur málsvari og þetta er sigur sem ber að fara mjög vel með,“ segir Ellen.