Skip to main content
Frétt

Þeir sem neyðast til að eiga bíl

By 4. september 2012No Comments

Hvernig er öryrkjum ætlað að lifa í þessu landi? spyr Þorbera Fjölnisdóttir meðal annars í grein sinni sem birtist í Morgunblaðinu 4. september síðastliðinn.

Undanfarin misseri hafa slagorðin „Allir með strætó“ og „Hjólað í vinnuna“ verið áberandi. Með hækkandi bifreiða- og bensínverði hafa fjölmargir valið þann kost að leggja bílnum og nýta sér aðrar aðferðir til að komast á milli staða. Það er þó ákveðinn hópur fólks sem hefur ekkert val í þessum efnum. Almenningssamgöngur eru ekki aðgengilegar hreyfihömluðum og er bifreið þeim því nauðsynlegt hjálpartæki.

Mikil rýrnun styrkja

Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt hreyfihömluðum uppbætur til að koma til móts við þennan kostnað en nú er svo komið að upphæðirnar eru orðnar smánarlega lágar ef litið er til hækkana bifreiðaverðs og rekstrarkostnaðar bifreiða, ekki síst bensínverðs, undanfarin ár.

Sem dæmi má nefna að bensínstyrkur sem í janúar 2007 dugði fyrir kaupum á 50 lítrum af bensíni á mánuði nægir einungis fyrir 30 lítrum í ágúst 2012. Hér er miðað við upphæðina eftir skatt, því styrkurinn er skattskyldur.

Hreyfihamlaðir geta einnig sótt um uppbót vegna bifreiðakaupa. Við kaup á fyrstu bifreið er upphæðin 600.000 kr. en ef viðkomandi hefur einhvern tíma á ævinni áður átt bifreið, er upphæðin 300.000 kr., jafnvel þó að langt sé síðan viðkomandi átti bifreið. Það er augljóst að þessar upphæðir duga mjög skammt og bótaflokkurinn þjónar því illa tilgangi sínum.

Hið sama á við um styrk til kaupa á bifreið sem hjólastóla- og hækjunotendur geta sótt um. Upphæðin hefur einungis hækkað um 20% á sama tíma og verð á bifreiðum hefur hækkað um 60%. Hjólastólanotendur geta ekki keypt minnstu bílana á markaðnum, því þeir rúma einfaldlega ekki stólana og neyðast því til að kaupa stærri bifreiðar sem kosta meira og eru dýrari í rekstri.

Mjög þrengt að öryrkjum

Það er ekki nóg með að áðurnefndar uppbætur og styrkir hafi rýrnað mjög að verðgildi undanfarin ár, svo margir hreyfihamlaðir eru að kikna undan því að reka bifreið sem þeir þó geta ekki verið án, heldur hafa örorkubætur ekki fylgt lögbundnum hækkunum síðan 2008.

Hvernig er öryrkjum ætlað að lifa í þessu landi?

Þorbera Fjölnisdóttir

Höfundur er í Kjarahópi ÖBÍ.