Skip to main content
Frétt

Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar 

By 26. júní 2012No Comments

Þekkingarmiðstöðin veitir fólki með hreyfihamlanir og aðstandendum þeirra  upplýsingar um rétt þess samkvæmt íslenskum lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna.

Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar tók til starfa 8. júní síðastliðinn. Miðstöðin er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra og Sjálfsbjargarheimilisins. Starfsemi miðstöðvarinnar byggir á hugmyndafræðinni um hið félagslega sjónarhorn á fötlun sem felst í því að samfélagslegar hindranir, svo sem lélegt aðgengi, neikvætt viðhorf og fordómar, eigi stóran þátt í að skapa fötlun einstaklingsins.

Þekkingarmiðstöðin veitir fólki með hreyfihamlanir og aðstandendum þeirra upplýsingar um rétt þess samkvæmt íslenskum lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna. Einnig verður Þekkingarmiðstöðin með yfirsýn yfir þjónustu og aðstoð sem auðveldar hreyfi­hömluðu fólki að lifa sjálfstæðu lífi og taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Hlutleysi er undirstaðan í starfi Þekkingarmiðstöðvarinnar og mun starfsfólk hennar því ekki blanda sér í hagsmuna- og réttindabaráttu fólks með  hreyfihamlanir.

Markmið Þekkingarmiðstöðvarinnar

Markmið eru meðal annarra:Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, forstöðumaður Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar fagnar opnun þjónustunnar

  • Að veita fötluðu fólki og aðstandendum þeirra upplýsingar og stuðning á þeirra eigin forsendum
  • Að standa fyrir námskeiðum og jafningjafræðslu
  • Að tryggja hlutlausar upplýsingar um aðgang að fagfólki og ráðgjöf
  • Að efla þekkingu á málefnum hreyfihamlaðs fólks og vinna að hugarfarsbreytingu í samfélaginu
  • Að halda kostnaði við þjónustuna í lágmarki fyrir viðskiptavini

Forstöðumaður miðstöðvarinnar er Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir.

Miðstöðin er til húsa í Sjálfsbjargarhúsinu, Hátúni 12 og verður opin á virkum dögum frá kl. 10 til 16.  Sími 550 0118,  netfang thm@sjalfsbjorg.is

Heimsíða www.thekkingarmidstod.is