Skip to main content
Frétt

Þögn ráðherra

By 10. mars 2014No Comments

Formaður ÖBÍ, Ellen Calmon átti fund með heilbrigðisráðherra í lok janúar, varðandi hækkanir á verði fyrir heilbrigðisþjónustu, engin lausn hefur borist enn. 

Í Reykjavík vikublað 22. febrúar síðastliðinn

er rætt við Ellen Calmon, formann ÖBÍ, Bryndísi Snæbjörndóttur formann Þroskahjálpar, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, formann Landssambands eldri borgara og Henný Hinz, hagfræðing hjá Alþýðusambandinu.  Sjá grein þeirra hér fyrir neðan

Kjarabótin þurrkuð út

„Okkur finnst þetta alvarlegt mál. Margir hafa bara strípaðar almannatryggingar og hækkunin á þeim um áramót er bara étin upp,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Með nýjum reglugerðum sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, skrifaði undir í desember er verulega dregið úr ýmsum niðurgreiðslum hjá sjúkum, fötluðum og öldruðum; svo mjög segir Þroskahjálp, að allar kjarabætur hverfa. Töluvert hefur verið fjallað um hækkanir á verði fyrir heilbrigðisþjónustu, sem eru í mörgum tilvikum langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda um annað. Þessu hefur því verið mótmælt, en lítið ef nokkuð hefur verið fjallað um minnkandi aðstoð við fólk.

Verulega dregið úr niðurgreiðslum

Alþýðusamband Íslands bendir á að verulega hafi verið dregið úr niðurgreiðslum vegna gervihluta, t. d. vegna brjóstamissis, auk þess sem niðurgreiðslu hafi verið hætt vegna ýmissa nauðsynja sem auðvelda fötluðum, öldruðum og sjúkum daglegt líf, svo sem vegna tannhirðu, hand- og fótsnyrtingar og niðurgreiðslu hjálpartækja sem auðvelda matargerð, uppþvott og borðhald. Þá hafi t.d. kostnaður sjúklings af hjálpartæki vegna kæfisvefns aukist um 77 prósent; úr 18 þúsundum í hátt í 32 þúsund.

Viðkvæm mál

Bryndís Snæbjörnsdóttir hjá Þroskahjálp bendir einnig á að hætt hafi verið að niðurgreiða að fullu bleyjur fyrir sjúka, aldraða og þroskahamlaða. Kostnaðurinn geti numið 4-5000 krónum á mánuði, tugum þúsunda á ári, sem áður var niðurgreiddur af sjúkratryggingum. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum á fólk nú að greiða einn tíunda af þessum kostnaði.

„Það er erfitt fyrir fólk að koma fram og ræða mál af þessu tagi,“ segir Bryndís. „Fólk er ekki að bera á torg að það þurfi að nota bleyjur eða aðstandendur þeirra. Þetta eru viðkvæm mál,“ bætir hún við.

Loforð ráðherra

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir í samtali við Reykjavík vikublað að samkvæmt reglugerðinni sé nú greitt minna fyrir öryggishnappa, auk þess sem fólk þurfi nú að kaupa ýmsan mikilvægan búnað, sem fólk hafi getað fengið að láni hjá Sjúkratryggingum, líkt og stóla í bað og sturtu.

Sjúkratryggingar nefna þessu til viðbótar stafi, hækjur, stuðnings handrið og stoðir á heimilum. Allt eru þetta hjálpartæki sem gera til dæmis öldruðum kleift að búa á eigin heimili lengur en ella. Jóna Valgerður segir við blaðið að hún hafi ásamt fleirum hitt heilbrigðisráðherra að máli í vikunni og hann hafi tekið vel í mál samtakanna og viljað endurskoða reglugerðina.

Þögn ráðherra

Fulltrúar Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins heyra hins vegar lítið í ráðherra. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að þessar breytingar á reglugerðinni hafi veruleg áhrif á tilveru fólks og lífsgæði „möguleika á bata og sjálfstæðu lífi og þátttöku í samfélaginu almennt.“ Hún átti fund með heilbrigðisráðherra í lok janúar, þar sem óskað hafi verið eftir viðbrögðum og lausnum, „en ekki hefur formlegt svar borist.“ Bryndís Snæbjörnsdóttir segir ennfremur að Þroskahjálp hafi engin við brögð fengið við erindi sínu til ráðherra.

Samkvæmt upplýsingum úr heilbrigðisráðuneytinu verða allar ábendingar vegna reglugerðanna skoðaðar, en ekki hafi verið teknar neinar ákvarðanir um að endurskoða þær. Stefnt sé að því að halda útgjöldum innan ramma fjárlaga.

Eykur misskiptingu

„Aukin greiðsluþátttaka fólks í heilbrigðisþjónustu veldur áhyggjum,“ segir Henný Hinz hagfræðingur hjá Alþýðusambandinu. „Þetta leggist þungt á sjúklinga og tekjulágt fólk og er til þess fallið að hindra aðgengi að heilbrigðisþjónustu og auka misskiptingu.“