Skip to main content
Frétt

Þröngt í búi íslenskra öryrkja erlendis

By 15. október 2008No Comments
Síðastliðna daga hefur töluvert verið haft samband við starfsfólk ÖBÍ af íslenskum öryrkjum sem búa erlendis. Þeir bera sig illa þar sem í mörgum tilfella hafa greiðslur frá TR ekki borist þeim enn.

Allir örorkulífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis eru háðir því að hægt sé að millifæra greiðslur Tryggingastofnunar, því bætur frá TR eru greiddar inn á bankareikning viðkomandi í bankastofnun hérlendis. Sú bankastofnun hefur svo fyrirgreiðslu um að koma greiðslunni á sínu gengi til bankastofnunar í því landi sem öryrkinn býr í og hefur viðskipti við.

Í einu tilfella sem ÖBÍ fékk fregnir af var aðilinn búsettur í Svíþjóð og búinn að fá sína greiðslu. Þar höfðu 50.000 íslenskar krónur verið um 5.000 kr. sænskar fyrir hrun en nú hafði sá aðili í höndum rétt rúmar 2.800 sænskar krónur og sá ekki hvernig næðist að framfleyta sér.

Á heimasíðu TR má finna upplýsingar um að 484 öryrkjar séu skráðir erlendis að langmestu leyti í Skandinavíu. Íslenskir öryrkjar sem búa í þeim löndum, munu í mörgum tilfellum eiga möguleika á að leita sér aðstoðar í félagslega kerfinu þar.