Skip to main content
Frétt

Tillögur Tryggva Þórs Herbertssonar um aðgerðir til að draga úr fjölgun öryrkja

By 3. janúar 2006No Comments
Úr skýrslunni Fjölgun öryrkja á Íslandi – Orsakir og afleiðingar (Útgefin af Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, vorið 2005)
Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar segir í byrjun að ástæður fjölgunar öryrkja sem vart hafi orðið í OECD-ríkjunum á undanförnum áratugum séu lítt kunnar, en helst sé horft til “hvernig fólk sé metið inn á örorku og hve ríflegar bæturnar eru.” (bls. 3). Í skýrslunni er beitt því sjónarhorni sem kallað er “hagfræði örorku”, en af umfjöllun í henni og heimildum er ljóst að einkum er gengið út frá sjónarhorni bandarískrar velferðarstefnu.

Forsenda þessa sjónarhorns er m.a. sú, að örorkulífeyrir verði alltaf að vera umtalsvert lægri en lægstu laun á vinnumarkaði, annars verði til hvati fyrir fullfrískt láglaunafólk til að sækja inn í örorkulífeyriskerfið. Af því hljótist það sem í frjálshyggjuhagfræði er kallað “siðferðisvandi” eða “freistnivandi” (e: moral hazard) (sjá einnig á bls. 34-35 í skýrslu TÞH). Forsendan hér er sú, að flestir vilji frekar eyða lífi sínu í iðjuleysi en að stunda launaða vinnu og að mjög auðvelt sé að fá örorkumat. Í framkvæmd eru afleiðingar þessa sjónarhorns þær, að öryrkjar og aðrir lífeyrisþegar sem ekki hafa aðra lífsbjörg, eru dæmdir til að festast í mestu fátækt samfélagsins. Þessi stefna er almennt ekki ríkjandi í Skandinavíu. Þar er markmiðið að tryggja öryrkjum jafnrétti og tekjur sem eru sambærilegar við meðaltekjur samfélagsins.

Á bls. 4 í skýrslu Tryggva segir eftirfarandi: “Til að halda samfélagslegri bjögun í lágmarki ríður á að gaumgæfa hvort ekki megi hverfa af þeirri braut sem mörkuð er af síauknum fjárhagslegum stuðningi við öryrkja.”

Á bls. 5 segir eftirfarandi: “Í 3. kafla kemur í ljós að mikill fjárhagslegur hvati er fyrir láglaunafólk að leita eftir örorkumati, enda getur það hækkað laun sín umtalsvert með því móti.”

Í niðurstöðum hinna samandregnu niðurstaðna eru svo settar fram tillögur um hvernig stjórnvöld eigi að stemma stigu við fjölgun öryrkja. Tillögur TÞH eru í þremur liðum (bls. 10):

  1. “Sennilega er áhrifamesta aðgerðin til að hvetja öryrkja til að fara út á vinnumarkaðinn, og letja fólk til að sækja um örorkumat, sú að draga úr fjárhagslegum ávinningi af því að vera á örorkubótum, nema þegar um algjört neyðarbrauð er að ræða.” Í skýrslunni er því mælt með að kjör öryrkja séu rýrð frá því sem nú er.
  2.  “að herða reglur um hvernig örorka einstaklinga er metin.”  Vísað er til þess að nýr örorkumatsstaðall hafi verið innleiddur 1999 og gefið í skyn að auðveldara sé nú en áður að fá örorkumat. Það er þó ekki sannað í skýrslunni.
  3. Aðgerðir til að koma öryrkjum aftur út á vinnumarkað: “Þessar aðgerðir gætu falist í mun meiri eftirfylgni og endurmati (á örorku) en nú tíðkast, auk þess sem fjölga mætti möguleikum til endurmenntunar og starfsþjálfunar.”

Spyrja má hvort Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, eða ríkisstjórnin, geri þessar tillögur að sínum?