Skip to main content
Frétt

Tillögur um nýtt örorkumat og aukinn stuðning til atvinnuþátttöku

By 6. mars 2007No Comments
Örorkumatsnefnd forsætisráðherra skilaði áliti sínu til ríkisstjórnar í morgun. Í álitinu eru gerðar tillögur um margvíslegar breytingar á fyrirkomulagi örorkumats sem ætlað er að styðja fólk til atvinnuþátttöku með öflugri starfsendurhæfingu og stoðþjónustu.

Það byggir á sveigjanlegra örorkumati sem á að taka betur mið af breytilegum aðstæðum öryrkja. Nefndarálitið gerir ráð fyrir tvískiptu mati. Annarsvegar læknisfræðilegu örorkumati sem veiti rétt til hjálpartækja, stoðþjónustu og endurhæfingar og hinsvegar mati á vinnufærni sem veiti rétt til framfærslutrygginga og stuðningi til vinnu. Nánar í nefndaráliti Örorkumatsnefndar.

Ragnar Gunnar Þórhallsson fulltrúi ÖBÍ í nefndinni hefur lagt mikla áherslu á að skilið sé á milli rétts til framfærslu annarsvegar og hinsvegar rétts til stoðtækja og þjónustu og er það niðurstaða nefndarinnar. Í sérstakri bókun fulltrúa ÖBÍ kemur fram að bandalagið lítur svo á að verið sé að auka réttindi fatlaðra með breytingunni en á engan hátt verði réttur þeirra skertur. Nánar í bókun fulltrúa ÖBÍ.

Óskað hefur verið eftir áframhaldandi þátttöku fulltrúa ÖBÍ í framkvæmdahópi sem ætlað er að semja lög á grunni álitsins.