Skip to main content
Frétt

Tilnefndir til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2013

By 27. nóvember 2013No Comments

Alls bárust 48 tilnefningar um 39 aðila.

Á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember næstkomandi veitir Öryrkjabandalag Íslands Hvatningarverðlaun sín, í sjöunda sinn. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa stuðlaða að einu samfélagi fyrir alla. Verndari verðlaunanna er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hönnuður verðlauna er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, flokki einstaklinga, flokki fyrirtækja/stofnana og flokki umfjöllunar/kynningar. Eftirtaldir hlutu tilnefningu:

Í flokki einstaklinga:Hvatningarverðlaun ÖBÍ_grænn

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, fyrir að hvetja fatlað fólk til að stunda fjölbreyttar íþróttir.

Margrét M. Norðdahl, fyrir að tengja saman listsköpun fatlaðra og ófatlaðra með listahátíðinni List án landamæra. 

Sigurður H. Hallvarðsson, fyrir einstakt æðruleysi og afrek með göngu sinni frá Hveragerði til Reykjavíkur í því skyni að safna áheitum fyrir Ljósið.

Í flokki fyrirtækis/stofnunar:

Ásgarður, handverkshús, fyrir að virkja sköpunarkraft einstaklinga við úrlausnir á fjölbreytilegum verkefnum.

GÆS, kaffihús, fyrir að koma á fót og standa fyrir rekstri eigin kaffihúss og brjóta múra í vinnumálum þroskahamlaðra.

Orkuveita Reykjavíkur, fyrir þá stefnu að vera alltaf með fólk í vinnu sem gæti ekki starfað á almennum vinnumarkaði án sérstaks búnaðar eða stuðnings sökum fötlunar. 

Í flokki umfjöllunar/kynningar:

Fötlun og menning: Íslandssagan í öðru ljósi, fyrir að varpa ljósi á flóknar birtingarmyndir fötlunar í íslenskri menningu.

Regnbogabörn fyrir verkefnið sitt, www.fyrirlestrar.is, sem opnar nýjar leiðir við fræðslu með yfirgripsmikilli upplýsingamiðlun til almennings.

Sendiherraverkefni, fyrir markvissa kynningu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á vernduðum vinnustöðum, í framhaldsskólum og í félagsþjónustu um allt land.

Dómnefnd hefur nú lokið störfum og Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2013 verð afhent við hátíðlega athöfn í Silfurbergi, Hörpu á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember.