Skip to main content
Frétt

Tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ

By 3. desember 2007No Comments
Í dag, 3. desember verða í fyrsta sinn veitt Hvatningarverðlaun Öryrkjabandlags Íslands til þeirra sem með jákvæðum hætti hafa stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Veitt verða þrenn verðlaun: til fyrirtækis, stofnunar og einstaklings, sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu.

Leitað var til allra 32 aðildarfélaga ÖBÍ með tilnefningar. Undirbúningsnefnd valdi sex tilnefningar í hverjum flokki sem sérstök dómnefnd tekur endanlega afstöðu til. Tilnefningar eru sem hér segir:

Stofnanir

 • Heilsugæsla Garðabæjar, Glæsibæjar, Sala og Vinnumálastofnun fyrir frumkvöðlastarf í þróun heildstæðs starfsendurhæfingarverkefnis.
 • ÍTR fyrir verkefni Hins hússins í starfi með fötluðum á jafningjagrunni og fyrir verkefni Vinnuskólans í unglingastarfi með heyrnarlausum.
 • KHÍ fyrir frumkvöðlastarf að diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun.
 • Orkuveita Reykjavíkur fyrir jákvæð viðhorf til einstaklinga sem veikjast og þarfnast sveigjanleika í starfi.
 • Fjölbrautaskólinn í Breiðholti – starfsbraut fyrir öflugt starf kennara starfsbrautar með fötluðum nemendum þar sem áhersla er lögð á þátttöku og hreyfingu.
 • Starfsendurhæfing Norðurlands fyrir uppbyggingu starfsendurhæfingar sem byggir á samstarfi ólíkra starfsstétta og öflugu samfélagslegu tengslaneti.

Fyrirtæki:

 • Kastljós fyrir vandaða og ábyrga umfjöllun um málefni fatlaðra.
 • Krónan fyrir áherslu á bætt aðgengi fyrir fatlaða í verslunum sínum að Fiskislóð, Bíldshöfða og Háholti.
 • Landsbanki Íslands fyrir verkefnið Leggðu góðu málefni lið.
 • Línuhönnun fyrir metnað í að koma til móts við þarfir fatlaðra starfsmanna á vinnustað.
 • Móðir náttúra fyrir mikilvægt starf til aukinnar atvinnuþátttöku fatlaðra.
 • Tryggingamiðstöðin fyrir vefsíðu, sem er afar aðgengileg fötluðum, og fyrsti vefur á Íslandi með vottun þriðja stigs aðgengis.

Einstaklingur:

 • Edda Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur fyrir vandaða vinnu og mikla reynslu við umönnum og aðstoð við stómaþega.
 • Elín Ebba Ásmundsdóttir og Auður Axelsdóttir fyrir frumkvöðlastörf að málefnum geðfatlaðra.
 • Guðjón Sigurðsson fyrir starf sitt og Evalds Krogs í að breyta afstöðu Íslendinga til möguleika fatlaðra til sjálfstæðs lífs.
 • Freyja Haraldsdóttir fyrir áhrif sín í að breyta viðhorfi fólks til fatlaðra og fyrir að vera frumkvöðull í að koma á fót notendastýrðri þjónustu.
 • Sif Vígþórsdóttir fyrir frumkvöðlastarf í uppbyggingu einstaklingsmiðaðs náms í Norðlingaskóla.
 • Þór Ingi Daníelsson fyrir tengslanetið Miðgarður, vefsíðu fyrir fólk með þroskahömlun, þar sem færi gefst á að kynnast öðrum og starfa í öðru landi.

Dómnefnd skipuðu Ólöf Ríkarðsdóttir fyrrverandi formaður ÖBÍ, Kristín Rós Hákonardóttir afrekskona í sundi, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ, Styrmir Gunnarsson ritstjóri og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari Hvatningarverðlauna ÖBÍ og mun hann afhenda verðlaunin.

Verðlaunin verða veitt við formlega athöfn þann 3. desember kl. 18.00-20.00 í Þjóðminjasafni Íslands.

Verðlaunin og hönnuður þeirra

Þórunn Árnadóttir hannaði verðlaunin. Þórunn útskrifaðist af vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor og var í starfsnámi hjá Tomoko Azumi í London síðastliðið sumar. Hún starfar sem hönnuður í Coventry og býr jafnframt þar. Þórunn tók þátt í Kviku, hönnunarsýningu sem sett var upp á Kjarvalsstöðum og stóð í vor og sumar. Þórunn er fædd 1982 og í hópi margra ungra íslenskra hönnuða sem eru að hasla sér völl hér heima og erlendis. Fyrir skemmstu hlaut hún tilnefningu af hönnunarblaðinu Forum AID, sem einn af 10 áhugaverðustu útskriftarnemum í hönnun/arkitektúr á Norðurlöndunum.

Við hönnun verðlaunagripsins hefur Þórunn samfélagið í huga. Fólkið er byggingareiningar eða púsl þess. Verkið er gert úr fjöldi skífa úr marglitu plexígleri allar nema ein sem er stálskífa. Skífurnar úr plexíglerinu eru allar jafn þykkar að undanskilinn einni sem er dálítið öðruvísi, það gerir henni erfitt að falla inn í púslið. Silfurskífan er eina skífan sem hefur tengingu við þá skífu en einnig hinar skífurnar. Silfurskífan er tákn verðlaunahafans sem er burðarpúslið, tenging á milli þeirra sem á einhvern hátt eru öðruvísi og hinna sem eru eins. Spegilskífan er um leið heiðursviðurkenning til verðlaunahafans, sem speglast þar í, hann á heiðurinn skilinn.

Með orðum Þórunnar eru skilaboðin þau, að „við eigum að opna fyrir alla tengimöguleika, ekki vera svo þröngsýn að við gerum ráð fyrir því að allir séu eins og passi í sama farið. Þetta á við um allt aðgengi að þátttöku í samfélaginu, hvort sem við erum að tala um samgöngur, samskipti eða viðskipti ..”