Skip to main content
Frétt

Tilnefningar undirbúningsnefndar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2010

By 18. nóvember 2010No Comments
Þrír eru tilnefndir í hverjum flokkanna þriggja sem eru; einstaklings, fyrirtækis/stofnunar og umfjöllunar/kynningar.

Á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember nk. verða Hvatningarverðlaun ÖBÍ veitt  í fjórða sinn. Þá verðlaunar Öryrkjabandalag Íslands þá sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Megin tilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu helsta baráttumáli ÖBÍ, einu samfélagi fyrir alla.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: flokki einstaklinga, flokki fyrirtækis/stofnunar og flokki umfjöllunar/kynningar. Verndari verðlaunanna er Hr. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Hönnuður þeirra er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.

Undirbúningsnefnd hefur tilnefnt eftirfarandi í hverjum flokki:

Í flokki einstaklinga:

  • Auður Guðjónsdóttir, fyrir ötula baráttu við að finna lækningu við mænuskaða.
  • Harpa Dís Harðardóttir, fyrir metnaðarfullt starf við gerð orlofshúss með góðu aðgengi fyrir fatlað fólk og áralanga baráttu fyrir réttindum þess.
  • Jón Gunnar Benjamínsson, fyrir vinnu að bættu aðgengi fatlaðs fólks um hálendi Íslands.

Í flokki fyrirtækja/stofnana:

  • Blindrabókasafn Íslands, fyrir frábæra þjónustu við þá sem geta ekki nýtt sér hefðbundið prentletur vegna einhvers konar hömlunar.
  • Leikskólinn Múlaborg, fyrir frumkvöðlastarf í sameiginlegu uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna þar sem allir eru metnir að eigin verðleikum.
  • Reykjadalur, fyrir ötult starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna með rekstri sumarbúða og helgardvalar að vetri.

Í flokki umfjöllunar/kynningar:

  • Hugarafl, fyrir kynningu og réttindabaráttu þeirra sem glíma við geðsjúkdóma og vinna að eigin bata og annarra.
  • Margrét Dagmar Ericsdóttir, fyrir myndina Sólskinsdrengurinn, sem aukið hefur skilning almennings á margbreytileika einhverfu.
  • Öryrki.is, fyrir skemmtilegt framtak þar sem unnið er gegn fordómum ófatlaðra á nýstárlegan máta.

Dómnenfd hefur valið einn í hverju flokki og kunngert verður um niðurstöðuna við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi 3. desember nk. húsið opnar kl. 14.00.