Skip to main content
Frétt

Tímamótasamkomulag um réttindi fatlaðra

By 29. ágúst 2006No Comments
Öryrkjabandalag Íslands fagnar samkomulagsdrögum að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og hvetur stjórnvöld til að eiga samvinnu við heildarsamtök fatlaðra á Íslandi um það að koma markmiðum þessum að fullu í framkvæmd.

Samkomulagið náðist föstudaginn 25. ágúst og varðar réttindi fatlaðra sem telja 650 milljónir jarðarbúa. Samkomulagið verður tekið fyrir til staðfestingar á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í september en unnið hefur verið að því á vettvangi heildarsamtaka fatlaðra, mannréttindahreyfinga og stjórnvalda í á annað hundrað ríkja síðastliðinn fimm ár. Í því felst bann við mismunun á grundvelli fötlunar t.a.m. hvað varðar borgaraleg réttindi, aðgang að réttarríkinu, heilbrigðis- og menntakerfi sem og að samgöngum. Gert er ráð fyrir að sáttmálinn verði staðfestur og lögfestur í aðildarríkjum SÞ innan þriggja ára. Talið er að sáttmálinn muni hafa mestu breytingarnar í för með sér í þróunarríkjunum en þó er ljóst að hann mun einnig hafa umtalsverð áhrif á vesturlöndum þar sem aðgengis- og jafnréttismál eru víða í ólagi.