Skip to main content
Frétt

Tryggingastofnun hunsar niðurstöðu Úrskurðarnefndar almannatrygginga

By 11. júlí 2013No Comments

TR neitar að endurskoða búsetuhlutfallsútreikninga þrátt fyrir úrskurð þar að lútandi

Tryggingastofnun ríkisins (TR) hefur í bréfi sínu til Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) dags. 31. maí 2013 hafnað öllum kröfum ÖBÍ um afturvirka leiðréttingu allra lífeyrisþega vegna búsetu erlendis í samræmi við úrskurð Úrskurðarnefndar almannatrygginga í kærumáli nr. 287/2012. Í bréfi TR kemur fram að stofnunin telji úrskurðinn byggðan á misskilningi og að fundað verði með nefndinni til að fara frekar yfir gildandi reglur og framkvæmd stofnunarinnar.

TR reiknar út búsetuhlutfall örorkulífeyrisþega, sem fyrir upphaf örorku- eða endurhæfingarlífeyrismat hafa verið búsettir erlendis. Bætur almannatrygginga eru greiddar í samræmi við búsetuhlutfallið og því skiptir það miklu máli fyrir lífeyrisþega, hvert búsetuhlutfallið er.

Um úrskurðinn

Úrskurður nr. 287/2012 snýr að útreikningi búsetuhlutfalls. Kærð var ákvörðun TR um lækkun búsetuhlutfalls kærenda. Í máli kæranda, sem hafði verið búsettur í landi innan EES-svæðisins, var tímanum frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs skipt á milli Íslands og hins búsetulandsins. Nánar tiltekið var búsetutími kæranda frá örorkumati fram að 67 ára aldri reiknaður út í sama hlutfalli og búsetutími frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er sú að við útreikning búsetutíma skuli reikna tímann frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri að fullu sem búsetutíma hér á landi.

Í úrskurðinum er bent á að sú stjórnsýsluframkvæmd, sem TR  beitir í máli kæranda, þ.e. að reikna búsetutíma kæranda frá örorkumati til 67 ára aldurs á sama hátt og búsetutíma frá 16 ára aldri til upphafs örorkumats, eigi ekki stoð í lögum og sé einnig í ósamræmi við eldri framkvæmd stofnunarinnar. Er þannig ljóst að Tryggingastofnun hefur breytt túlkun og framkvæmd sinni án þess að lagabreytingar hafi átt sér stað. Hin nýja framkvæmd stofnunarinnar er mjög íþyngjandi fyrir bótaþega. Eins og áður segir hefur úrskurðarnefndin nú kveðið á um að nýja framkvæmdin sé ólögmæt og stofnuninni beri að hætta henni.

Lítill hluti fær greiðslur frá fyrra búseturíki á móti skerðingunni   

Í bréfi TR segir ennfremur að kæranda hafi verið bent á að sækja um greiðslur til fyrra búsetulands á móti skerðingunni. Í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um búsetuland og greiðslur almannatrygginga til örorkulífeyrisþega kemur fram að 472 örorkulífeyrisþegar höfðu áður verið búsettir í löndum innan EES, en milliríkjasamningur er í gildi á milli Íslands og þessara ríkja. Af þeim fengu 78% (367 einstaklingar) engar greiðslur frá fyrra búsetulandi.

Stærsti hluti örorkulífeyrisþega, sem fær skertar greiðslur vegna búsetu erlendis er ekki með neinar greiðslur erlendis frá og að auki í þeirri stöðu að framreikningnum (tímanum frá örorkumati til 67 ára aldurs) er hlutfallsskipt á milli Íslands og fyrra búsetulands, samkvæmt útreikningsreglu TR, sem ekki á stoð í lögum.  

Framkoma TR gagnvart úrskurðarnefnd almannatrygginga

Úrskurðarnefnd almannatrygginga er æðra sett stjórnvald gagnvart TR og TR ber að hlíta og fara eftir úrskurðum nefndarinnar. TR hefur ekkert val um það hvort eða hvernig hún bregst við úrskurðum nefndarinnar, stofnuninni ber einfaldlega að fara eftir þeim. TR hefur nú lýst yfir þeirri ótrúlegu afstöðu að hún muni ekki fara eftir ofangreindum úrskurði nefndarinnar. Auk þess ætlar stofnunin að funda með nefndinni til þess að „fara yfir“ gildandi reglur eins og stofnunin telur þær vera. Slíkur fundur er í hæsta máta óviðeigandi og vekur upp spurningar um meðferð TR á úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga í öðrum málum.

Frétt RÚV um málið 9. júlí 2013.