Skip to main content
Frétt

Tryggjum öllum hlutverk

By 5. júní 2007No Comments
Tryggjum öllum hlutverk. Þetta eru einkunnarorðin sem birtast á forsíðu, vefs Hlutverks. Nafn samtakanna endurspeglar það sem þetta snýst allt um; nefnilega það að hafa hlutverk í tilverunni, sagði Sigursteinn Másson formaður ÖBÍ, í erindi sem hann hélt á aðalfundi Hlutverks, 1. júní síðast liðinn. Hér fer á eftir erind hans í heild sinni. 

Tryggjum öllum hlutverk. Þetta eru einkunnarorðin sem birtast á forsíðu, vefs Hlutverks. Nafn samtakanna endurspeglar það sem þetta snýst allt um; nefnilega það að hafa hlutverk í tilverunni.

Í störfum mínum að málefnum geðsjúkra í sjö ár og nú á vettvangi Öryrkjabandalagsins hefur mér orðið það ljóst að ef eitthvað stendur upp úr þegar mannleg endurreisn er annars vegar, sjálfsmynd og sjálfstæði þá er það þörfin fyrir það að hafa hlutverk í lífinu. Án þess glötum við sjálfum okkur, hver við erum, hvert við ætlum og tilganginum með lífi okkar. En það skiptir máli hvert hlutverkið er, að það sé krefjandi, skapandi og fullnægi persónulegri færni og metnaði. Að öðrum kosti þarf að finna nýtt hlutverk. Það skiptir máli hvort hlutverkið er markvisst þróað áfram og lengra eða hvort það er aðeins hluti af stöðnuðum hversdagslegum veruleika. Einhver kynni að segja að veruleiki margra fatlaðra, sérstaklega þá þeirra sem eru fjölfatlaðir og með miklar þroskaskerðingar, leyfi ekki framþróun og metnað. Fyrir liggur að fatlaðir umfram ófatlaðir þurfa að hafa hlutina í mjög föstum skorðum. En er það þá svo að fólk með þroskaskerðingar eigi best heima á vernduðum vinnustöðum þar sem þeir sinni sömu eða samskonar iðju dag eftir dag og ár eftir ár?

Íslenskukennarinn

Ég vil nefna til sögunnar pilt sem ég kalla hér Gunnar. Hann var heilbrigt barn. Átta ára varð hann fyrir bíl. Honum var vart hugað líf eftir slysið en hann hlaut alvarlegan framheila skaða auk hreyfihömlunar. Lengst af var Gunnar með marga liðveitendur í sinni þjónustu. Það gerði það m.a. að verkum að þegar hann komst á unglingsár var hann uppstökkur og erfiður. Ferðaþjónustan gafst upp á honum, skólinn gafst upp á honum, allir gáfust meira og minna upp á honum. Hann treysti fáum og virti engin mörk.

Árið 2001 gerðist dálítið merkilegt. Þýsk stúlka tók við sem liðveitandi hans og starfaði með Gunnari samfellt í tvö ár. Á þessu tímabili róaðist Gunnar mjög og það sem meira er, hann öðlaðist hlutverk. Hlutverkið fólst í því að kenna hinni þýsku stúlku íslensku. Þegar kom að íslensku kennslunni sýndi Gunnar mikla þolinmæði. Hann vílaði ekki fyrir sér að endurtaka sömu setningarnar margsinnis þangað til að framburðinum hafði verið fullkomlega náð og hann leiðrétti beygingarvillur jafn harðan. Þessi leiðréttingar árátta er hluti fötlunar hans. Síðla árs 2005 þegar annar útlenskur liðveitandi byrjaði að vinna með Gunnari endurtók sagan sig. Gunnar leiðrétti og endurtók af mikilli þolinmæði hvert orð og hefur til þessa dags litið á sig sem einskonar íslenskukennara. Þannig er hinn fatlaði drengur ekki fyrst og fremst í hlutverki þiggjanda þjónustu heldur og ekki síður þess sem veitir mikilvæga þjónustu. Hann lítur reyndar alls ekki á sig sem fatlaðan og bregst ókvæða við þegar einhver segir hann vera fatlaðan. Þótt það hafi alls ekki alltaf verið auðvelt hafa hinir erlendu liðveitendur Gunnars notið samstarfsins og uppskorið ríkulega, ekki sérstaklega í launum heldur færni til að tala lýtalausa íslensku og hreinni málfræði en margir Íslendingar gera.

Hvað kennir þetta okkur?

Vissulega er um að ræða einstakling með fötlun sem gerir það að verkum að hann mun mögulega aldrei sinna hefðbundnu starfi með hefðbundnum hætti. Hann mun ekki passa inn í fyrirfram smíðaðan kassa með stimpilklukku og fastmótaða vinnulýsingu. En hann hefur þegar sannað það að hann er frábær starfsmaður. Með rétta einstaklingnum er hann sennilega einn besti og þolinmóðasti íslenskukennari sem völ er á á öllu landinu. Þannig er hægt að slá margar flugur í einu höggi. Skapa störf fyrir liðveitendur og veita þeim fyrsta flokks kennslu í leiðinni og veita fötluðum ný spennandi hlutverk. Þegar við hugsum um hlutverk og þátttöku fatlaðra þá þurfum við að brjótast úr viðjum forms og fyrri hugmynda um takmarkanir og vangetu fatlaðra. Við þurfum að finna færnina, leita hana uppi. Hún liggur ekki alltaf í augum uppi en hún er þarna.

Allir búa yfir færni til einhverskonar þátttöku í okkar samfélagi.

Sú grundvallarhugsun sem býr að baki starfi örorkumatsnefndar forsætisráðherra um að meta færnina, hvað fólk getur gert umfram það sem fólk ekki getur gert, felur í sér frelsandi afstöðu til framtíðarinnar. Trú á framtíð hvers og eins og tækifærin. Í þeim miklu breytingum sem fram undan eru munu starfsþjálfunarstöðvar sem miðstöðvar starfsendurhæfingar og hæfingar til þátttöku í samfélaginu gegna lykilhlutverki að mínu mati. Gríðarleg reynsla og þekking er til staðar á vinnustöðum fatlaðra og metnaður til að þróa starfsemina lengra. Þetta hef ég orðið var við í vinnustaða heimsóknum mínum. 

Hvernig fjallar nýi mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðra til atvinnuþátttöku?

Utanríkisráðuneytið er að leggja lokahönd á þýðingu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en fjallað er nokkuð ítarlega um rétt fatlaðra til atvinnu í 27. grein sáttmálans. Í honum er kveðið á um bann við hverskyns mismunun gagnvart fötluðum til atvinnuþátttöku. Skapa á fötluðum greiðan aðgang að vinnumarkaði með því að hvetja til ráðninga fatlaðra á almennum vinnumarkaði sem og hjá hinu opinbera.  Einnig með því að skapa vinnumarkað sem uppfyllir strangar kröfur um aðgengismál.  Í 26. grein Sáttmálans er fjallað um hæfingu og endurhæfingu. Hér er lögð ástæða á markmiðið um fullt sjálfstæði einstaklinganna og fulla þátttöku fólks með fötlun á öllum sviðum samfélagsins. Ríki skulu styrkja og víkka út verkefni á sviði hæfingar og endurhæfingar og sérstaklega hvað varðar  heilbrigðisþjónustu, atvinnumál, menntun og félagslega þjónustu þannig að verkefnin:

  • a) hefjist eins snemma og mögulegt er og séu byggð á margþættu einstaklingsmati á þörfum og færni.
  • b) styðji undir þátttöku og aðlögun að samfélaginu og öllum þáttum þjóðfélagsins, séu valkvæð og aðgengileg fötluðum í nærsamfélagi þeirra eins og kostur er þ. m.t. í dreifbýli.

(Lausleg þýðing úr 26. grein sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra)

Um allan heim er samhljómur um að leggja megin áherslu á markmiðið um fulla samfélagslega þátttöku fatlaðra og þá er atvinnuþátttakan ofarlega á blaði.

Brýnt er að fundnar séu leiðir til að ná sérstaklega til þess ungs fólks sem nú dansar á þunnri línu örorkuþegans og launþegans, milli þess að dæmast til fátæktar og félagslegrar einangrunar eða þátttöku í samfélaginu. Þetta eru ekki einhverjir hópar fatlaðra eða öryrkja sem hér er fjallað um heldur einstaklingar með ólíkar skerðingar en umfram allt færni og væntingar. Okkar verk er að finna leiðir til að þjálfa og endurhæfa fólk til þátttöku ekki vegna þess að fólk eigi ekki að þiggja lífeyri heldur vegna þess að eina leiðin til jafnréttis er með þátttökunni. Það er engin önnur fær leið.

Þátttaka úti í samfélaginu og mitt inni í margbreytileika þess. Er það flóknara en að safna fötluðum fyrir á einn stað og fela þeim einföld verkefni? Já, auðvitað. Miklu flóknara, en það er bara hið rétta og þess vegna gerum við það. Ég trúi því að Íslendingar geti verið til fyrirmyndar í þessum efnum á næstu árum. Með hinni miklu atvinnuþátttöku sem hér er, háa menntunarstigi og velmegun, öflugri aðkomu aðila vinnumarkaðarins, frumkvæði félagasamtaka og einstaklinga og skýrri sýn á verkefni morgundagsins er ég þess fullviss að markmiðið um eitt samfélag fyrir alla mun nást og það fyrr en nokkurn grunar.

Sigursteinn Másson