Skip to main content
Frétt

Tuttugu manna nefnd mótar stefnu á vinnumarkaði

By 23. september 2014No Comments

Í nefndinni sitja fulltrúar Öryrkjabandalagsins

Félagsmálaráðherra hefur skipað nefnd um vinnumarkaðsstefnu, sem á að skila tillögum fyrir árslok.

                                                                                                                    Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur skipað tuttugu manna nefnd sem á að móta tillögur að vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála. Nefndin á að skila niðurstöðum fyrir lok ársins.

Matthías Imsland, aðstoðarmaður ráðherra, er formaður nefndarinnar og í henni sitja líka fulltrúar fjögurra ráðuneyta, Vinnumálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, BSRB og BHM, fulltrúar þingflokka og fulltrúar Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og Geðhjálpar.

Nefndinni er ætlað að stuðla að velferð fólks á vinnumarkaði og tryggja virka þátttöku flestra á vinnumarkaði til að auka samkeppnishæfni Íslands. Henni er ætlað að hafa hliðsjón af tillögum verkefnastjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld. Nefndin á jafnframt að skoða þörf fyrir sértækar aðgerðir til að skapa störf í samræmi við menntun og skoða aðgerðir til að laða sérhæft vinnuafl til starfa.