Skip to main content
Frétt

Umsögn ÖBÍ um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar

By 19. nóvember 2010No Comments
ÖBÍ hefur skilað umsögn til Heilbrigðisráðuneytisins varðandi drög að skýrslu vinnuhóps um ofangreint efni.

Í inngangi umsagnar Öryrkjabandalagsins er því fagnað að drög að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi séu komið út. Ánægjulegt sé að sérstakt viðmið verði fyrir elli- og örorkulífeyrisþega eins og fram kemur í tillögum 1 og 2. Tillaga 3 komi hins vegar ekki til greina að mati ÖBÍ. Ljóst sé að kerfið verði mun einfaldara og að greiðsla fylgi sjúklingum en ekki lyfjum, þannig ríki jafnræði meðal fólks, óháð sjúkdómum.

Hinsvegar bendir ÖBÍ á að ekki sé ráðgert að setja aukið fjármagn inn í nýtt kerfi heldur munu fjölmargir sjúklingar greiða meira en áður fyrir lyf sín til að fjármagna aukna niðurgreiðslu hjá öðrum sjúklingum. Slíkt fyrirkomulag kemur sér vel fyrir þá sem eru með verulegan lyfjakostnað þar sem ekkert þak er á því hversu hár lyfjakostnaður getur orðið. En fyrirhuguð breyting kemur niður á þeim sjúklingum sem í dag greiða lægra gjald.

Einnig vekur ÖBÍ athygli á að kostnaður margra sjúklinga komi einnig fram í hjálpartækjum við lyfjatöku. Því verði að skoða þau útgjöld samhliða breytingum á kerfinu þar sem lyfjakostnaður sé aðeins hluti af heildarútgjöldum sumra sjúklinga. Nauðsynlegt sé að fá heildarsýn yfir stöðu mála.

Athugasemdir ÖBÍ við ýmis atriði skýrslunnar

ÖBÍ telur mjög gott að tekið verður á fjöllyfjanotkun skv. skýrslunni. Hins vegar þurfi að huga að því að þegar fólk greinist með sjúkdóma hefjist, í mörgum tilvikum, leitun að rétta lyfinu þar sem að hagkvæmustu lyfin henta ekki öllum. ÖBÍ leggur áherslu á að heimild til notkunar annarra lyfja sé virt, m.a. vegna aukaverkana og öryggis, og því sé sveigjanleiki lyfjaskírteina nauðsynlegur. Þegar lyf séu tekin fyrirvaralaust úr greiðsluþátttöku þurfa að vera skýr og gegnsæ rök fyrir því sem öllum eru aðgengileg.

Einnig er vakin athygli á afgreiðslu á mjög stórum skömmtum lyfja við upphaf lyfjameðferða. Lyfja sem oft henti ekki einstaklingnum, svigrúm á stærð lyfjaskammta þurfi að vera til staðar sem auki jafnvel á sparnað í lyfjakostnaði.

Kallað er eftir að kynningar verði fyrir sjúklingafélög bandalagsins þeirra sem hafa hagsmuna að gæta, en þar hafi verið skortur á.

ÖBÍ telur mikilvægt að sá gagnagrunnur sem notaður verður til að halda utan um upplýsingar verði mjög vel varinn og ekki ætlaður til að setja inn aðrar upplýsingar en upphaflegur tilgangur segir til um. Og gerð verði úttekt á kerfinu í byrjun, svo hægt sé að gera sér grein fyrir virkni þess, og önnur að ári liðnu.

Skýrsludrögin um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar (2 mb)

Umsögn ÖBÍ við skýrsludrögunum (0,7 mb)