Skip to main content
Frétt

Umsögn ÖBÍ við frumvarp um ný almannatryggingarlög

By 23. janúar 2015No Comments

Öryrkjabandalag Íslands hefur sent Velferðarnefnd Alþingis ítarlega umsögn sína við lagafrumvarpið.

Í umsögn ÖBÍ kemur fram að uppsetning nýju laganna sé með mun skýrari kaflaskiptum en í núgildandi lögum, fyrirsögn sé við hverja lagagrein og markmiðsgrein verði sett í lögin sem er nýmæli. ÖBÍ hefur margoft bent á mikilvægi þess að í lögum um almannatryggingar sé skilgreint markmið með þeim. Hinsvegar er bent á að bæta þurfi orðalag í frumvarpinu, en þar segir í markmiðsgrein frumvarpsins  „…skal stuðlað að því að einstaklingum sem lögin taka til sé gert kleift að framfleyta sér og lifa sjálfstæðu lífi.“

ÖBÍ leggur til eftirfarandi:  „Markmið laga þessara er að tryggja öllum rétt til viðunandi framfærslu og sjálfstæðs lífs.“ Bendir bandalagið á að miklar tekjutengingar dragi úr möguleikum fólks til að lifa sjálfstæðu lífi, stunda vinnu, byggja upp varasjóð og stofna fjölskyldu. Jafnframt er bent á hve lágt framfærsluviðmiðið er.

Samráð við gerð frumvarpsins ábótavant

ÖBÍ geri alvarlegar athugsemdir við skort á samráði og segir í umsögninni meðal annars „Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið eru taldir upp aðilar sem haft var samráð við þegar frumvarpið var samið. ÖBÍ, heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, er ekki þar á meðal. ÖBÍ leggur þunga áherslu á að framvegis verði samráð haft við heildarsamtök fatlaðs fólks. Ekki er tilviljun að skv. 3. tl. 4. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er lögð sú skylda á aðildarríki að hafa náið samráð við undirbúning löggjafar er varðar fatlað fólk. Í ljósi framangreindrar skyldu er einnig lagt til að samráð verði haft við ÖBÍ í hvert sinn sem unnið er að setningu reglugerða á grundvelli laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Því verði eftirfarandi bætt við reglugerðarheimildarákvæði laganna „að fenginni umsögn heildarsamtaka fatlaðs fólks.“

Ýmislegt til bóta en annað neikvætt í lagafrumvarpinu

ÖBÍ vekur athygli á að sumar breytingar séu jákvæðar í lagafrumvarpinu, en því miður eru þar innanum fleiri atriði sem eru síst til bóta og sum til skerðingar á stöðu öryrkja í dag. Því eru gerðar athugasemdir og/eða lagðar fram tillögur að breytingum í eftirtöldum atriðum:

  • tryggingavernd
  • kærufrestur til stjórnsýslu og birtingu úrskurða
  • aðfararhæfi vegna ofgreiddra bóta
  • ákvæði um  hvaða bætur fari saman verði skýrara
  • kallað eftir breytingum á eðli greiðslna ráðstöfunarfés (áður vasapeninga)
  • réttarstöðu sambýlisfólks
  • greiðslu til 3ja aðila
  • greiðslur til fanga með örorkumat
  • milliríkasamninga- skörun bóta og skerðingarákvæði
  • víxlverkun lífeyrisgreiðslna.

Umsögn ÖBÍ í heild. Þar sem sjá má rök og tillögur ÖBÍ við frumvarpinu.


Tengill á umsagnir ÖBÍ til Alþingis 2014