Skip to main content
Frétt

Uppbót vegna reksturs bifreiða í engu samræmi við rekstrarkostnað

By 12. apríl 2011No Comments

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir og Guðríður Ólafsdóttir höfundar greinar.

Uppbót vegna reksturs bifreiða í engu samræmi við rekstrarkostnað

Kostnaður við rekstur bifreiða hefur stóraukist síðustu ár, sem kemur sér sérlega illa fyrir hreyfihamlaða. Frá janúar 2007 til janúar 2011 hækkaði heildarrekstrarkostnaður bifreiða á ári, samkvæmt tölum frá FÍB, úr kr. 822.743 í kr. 1.281.275 eða um tæp 56%, ef tekið er mið af nýrri meðalbifreið, sem eyðir 9 lítrum á 100 km og er keyrð 15.000 km á ári.

Á sama tíma hefur uppbót vegna reksturs bifreiða fyrir hreyfihamlaða lítið sem ekkert hækkað.

Uppbót vegna reksturs bifreiða

Heimild er í lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 að veita hreyfihömluðum uppbót vegna reksturs bifreiða. Uppbótin er til að mæta kostnaði við rekstur bifreiða ef bótaþega er nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt er að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Uppbótin hefur lækkað mikið að raungildi, en hún á að taka breytingum með sama hætti og aðrar bætur samkvæmt lögunum. Uppbót vegna reksturs bifreiðar hefur ekki hækkað frá því í byrjun árs 2009. Frá 2007 hækkaði uppbótin úr kr. 9.902 á mánuði fyrir skatt í 10.828 eða um rúm 9%. Dreginn er tekjuskattur af uppbótinni. Á sama tíma hækkaði heildarrekstrarkostnaður eins og áður segir um rúm 56%.

Hversu margir bensínlítrar fást fyrir uppbótina?

Bensínkostnaður er einn liður af mörgum í rekstri bifreiða. Verð á bensínlítra hefur hækkað um tæp 90% frá janúar 2007 til janúar 2011 eða úr 116,8 kr. pr. lítra í 220 kr. Í janúar 2007 gat fólk keypt 50 bensínlítra fyrir uppbót vegna reksturs bifreiða, en í janúar 2011 er talan komin niður í 30 lítra. Í apríl er meðalverð á bensínlítra komin í um 235 kr., sem er hækkun um tæp 7% frá því í janúar.

Fjöldi bensínlítra sem fást fyrir uppbót vegna reksturs bifreiðar á árunum 2007-2011

Ár – janúar 

Uppbót eftir skatt 

(kr. á mánuði)

Meðalverð á bensín kr. /lítri *

Fjöldi bensínlítra

 

2007 5.845 116,8 50,04
2008 6.109 139,5 43,79
2009 6.800 144 47,22
2010 6.798 200 33,99
2011 6.799 220 30,90

* Tölur frá FÍB.

Samanburður við hækkanir á akstursgjaldi ríkisstarfsmanna

Til samanburðar hefur akstursgjald ríkisstarfsmanna frá 1. desember 2006 til 1. apríl 2011 hækkað frá 68 kr. pr. km. í 104 kr. pr. km (miðað við almennt gjald fyrstu 10.000 km) eða um 53%. Akstursgjald ríkisstarfsmanna hefur frá því það var 68 kr. pr. km í desember 2006 verið hækkað sjö sinnum.

Á grundvelli grunns fyrir útreikning akstursgjalds ríkisstarfsmanna, sem ferðakostnaðarnefnd ákvað, var reiknaður út rekstrarkostnaður bifreiðar á heilu ári miðað við 15.000 kílómetra. Grunnur akstursgjaldsins skiptist í fastan kostnað og breytilegan kostnað. Núgildandi fyrirkomulag byggist á framreikningi grunnupphæðar með verðbreytingum einstakra kostnaðarliða. Grunnur útreiknings fyrir rekstrarkostnað bifreiða og þar með hækkanir á akstursgjaldinu tekur í dag mið af neysluverðsvísitölu Hagstofu Íslands. 

Hækkun í % á tímabilinu 2007 til apríl 2011

Akstursgjald  ríkisstarfsmanna Uppbót vegna reksturs bifreiða
53% 9%

Akstursgjald ríkisstarfsmanna er hækkað í samræmi við hækkanir á rekstrarkostnaði bifreiða. Uppbót vegna reksturs bifreiða hins vegar er í engu samræmi við rekstrarkostnað. Að auki geta hreyfihamlaðir sem fá uppbótina ekki talið fram kostnað á móti henni á skattframtali sínu eins og starfsmenn, sem fá greitt akstursgjald frá vinnuveitanda sínum.

Krafa ÖBÍ

Löngu tímabært er að endurskoða reglur um uppbót vegna reksturs bifreiða, sem hreyfihamlaðir eiga kost á að fá, ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði. Krafa ÖBÍ er að reglur um þennan bótaflokk verði breytt þannig að þær séu í samræmi við raunkostnað og að upphæðin verði hækkuð sem því nemur.

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ

Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi ÖBÍ