Skip to main content
Frétt

Útreikningur búsetuhlutfalls TR stóðst ekki lög að mati Úrskurðarnefndar almannatrygginga

By 17. desember 2009No Comments
Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur úrskurðað í máli einstaklings sem varð fyrir því að greiðsla hans á örorkulífeyri frá TR var lækkuð úr 98% í 20,37% í maí sl. Ástæða breytinganna var að TR tók að túlka lög um útreikning búsetuhlutfalls á annan hátt. Úrskurðarnefnd hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að TR hafi ekki haft lagastoð til að til að breyta útreikningum þar sem engar breytingar hefðu orðið á lögum.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi, sem búið hefur á Íslandi frá 28. mars 2001, sótti með umsókn, dags. 11. mars 2004, um örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnunar ríkisins. Umsókn hans var samþykkt og hefur kærandi fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 1. október 2003 að telja. Vegna búsetu kæranda erlendis var honum upphaflega greidd 98% lífeyrisgreiðslna, en í greiðsluáætlun 2009, dags. 19. maí 2009, var greiðsluhlutfallið lækkað í 20,37%.

Breytt réttarframkvæmd og lögskýring af hálfu Tryggingastofnunar fær að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga ekki beina stoð í orðalagi 18. gr. almannatryggingalaga. Úrskurðarnefndin bendir einnig á að engar lagabreytingar hafa átt sér stað sem kalla á hina nýju framkvæmd Tryggingastofnunar.

Loks segir í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga að; „Sú breytta framkvæmd sem Tryggingastofnun hefur tekið upp er verulega íþyngjandi fyrir bótaþega og kolvarpar væntingum bótaþega um greiðslur.  Telur úrskurðarnefndin ekki málefnalegt án skýrra lagafyrirmæla að breyta með svo íþyngjandi hætti þeirri framkvæmd á greiðslu örorkulífeyris, sem ríkt hefur um langt árabil.

Með vísan til alls þess sem að framan er rekið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. maí og 26. ágúst 2009 er varða búsetuhlutfall við útreikning á fjárhæð lífeyrisgreiðslna til handa kæranda skuli hnekkt.“

Málinu er vísað til Tryggingastofnunar að nýju til ákvörðunar á lífeyrisrétti kæranda.