Skip to main content
Frétt

Vantar þig notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)?

By 9. ágúst 2012No Comments
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar auglýsir eftir þátttakendum í sérstakt
þróunar- og tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á
þjónustusvæði Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar.

Boðið er upp á NPA til reynslu til samræmis við framtíðarsýn borgarinnar í þjónustu við fatlað fólk en þar er lögð áhersla á að borgarbúar sem þurfa aðstoð í daglegu lífi hafi val um hvernig þeirri aðstoð sé háttað. Með því að gera samning um NPA fær notandi greiðslur í stað þjónustu, velur aðstoðarfólk, er verkstjórnandi, ákveður sjálfur hvað hann vill gera og hvernig aðstoðarfólk nýtist.

Unnið er að gerð reglna um tilraunaverkefnið og verða umsóknir afgreiddar þegar þær reglur hafa verið samþykktar og tekið gildi. Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða verður horft til fjölbreytni í vali á þátttakendum í verkefnið.

Í tilraunaverkefninu geta tekið þátt þeir sem eiga lögheimili í Reykjavík eða á Seltjarnarnesi og falla undir lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992 með síðari breytingum, eru á aldrinum 18-66 ára og þurfa daglega aðstoð. Foreldrar fatlaðra barna sem þurfa daglega aðstoð geta sótt um fyrir hönd barna sinna.

Vakin er athygli á því að:

  • Um sérstakt þróunarverkefni er að ræða en gert er ráð fyrir lögfestingu þess árið 2014.
  • Afgreiðsla umsókna getur tekið allt að sex mánuði.
  • Grundvallarskilyrði fyrir samningi um NPA er að velferðarþjónusta og félagsleg heimaþjónusta sem veitt er á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga fellur niður, enda kemur NPA í stað þessara þjónustuþátta.

Þjónustumiðstöðvar borgarinnar taka á móti umsóknum og veita upplýsingar og ráðgjöf um ferli umsókna. Samvinna er höfð við umsækjendur við mat á stuðningsþörf, gerð samkomulags og samnings um NPA. Umsækjendur eiga rétt á að tilnefna sér talsmann vegna umsóknarferilsins sé þess óskað. Umsóknarfrestur er til og með 10. september næstkomandi.

Auglýsingin ásamt ítarefni á heimasíðu Reykjavíkurborgar

Notendastýrð persónuleg aðstoð gefur aukið vald – frétt um verkefnið