Skip to main content
Frétt

Varnarsigur ÖBÍ í lífeyrissjóðsmáli

By 4. júlí 2008No Comments
Dómur var felldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í svokölluðu lífeyrissjóðsmáli í dag. Gildi lífeyrissjóði var óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefnanda, Margrétar Ingibjargar Marelsdóttur, þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins.

ÖBÍ stefndi Gildi lífeyrissjóði fyrir hönd Margrétar, eins þeirra lífeyrisþega sem fengu bréf um „lækkun eða niðurfellingu“ örorkulífeyrisgreiðsla í ágúst 2007. Alls var þar um að ræða um 1.600 einstaklinga sem fengu slík bréf frá 9 lífeyrissjóðum.

Fyrr í dag var dómur kveðinn upp í prófmáli ÖBÍ f.h. Margrétar gegn Gildi. Dómsorð voru þessi:

„Stefnda, Lífeyrissjóðnum Gildi, er óheimilt að draga frá örorkulífeyri stefnanda, Margrétar Ingibjargar Marelsdóttur, þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins. Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.“
 

Í dómnum kemur meðal annars fram að ráðuneytisstjóri hafi verið vanhæfur að staðfesta breytingar á samþykktum lífeyrissjóðanna vegna setu í stjórn Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og þar með allir hans undirmenn í ráðuneytinu. Eða eins og segir í dómnum; 

„Vegna stöðu sinnar sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda var Baldur Guðlaugsson vanhæfur til að fjalla um efnislega sambærilegar breytingar og gerðar voru á samþykktum Söfnunarsjóðsins hjá öðrum lífeyrissjóðum, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1995. Á sama hátt voru allir undirmenn hans í ráðuneytinu vanhæfir til meðferðar málsins, sbr. 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna.“

Á þessari stundu er ekki vitað hvort Gildi lífeyrissjóður muni áfrýja málinu en til þess hefur hann rétt innan þriggja mánaða frá deginum í dag. Verði dómnum ekki áfrýjað ber Gildi að leiðrétta greiðslur til þeirra örorkulífeyrisþega sem fengu skerðingu eða niðurfellingu á rétti sínum hjá þeim. Sama á við um aðra þá lífeyrissjóði sem sendu samskonar bréf um skerðingu eða niðurfellingu örorkulífeyrisgreiðslna til sinna sjóðsfélaga.

Dómurinn kemst þó ekki að því að samþykktum lífeyrisþega megi ekki breyta héðan í frá. Orðrétt segir,

„Hann (dómurinn útsk.ÖBÍ) tekur ekki til þeirra atburða er síðar munu gerast og þeirra breytinga er síðar kunna að taka gildi á samþykktum stefnda eða lagareglum.“


Lögmaður ÖBÍ í þessu máli var Ragnar Aðalsteinsson.