Skip to main content
Frétt

VARÚÐ – hér er fátækt leidd í lög

By 13. nóvember 2012No Comments

Táknrænn gjörningur Öryrkjabandalagsins hófst fyrir framan Alþingishúsið 16.00 vegna svikinna loforða um leiðréttingu á kjörum lífeyrisþega. Formaður ÖBÍ las og afhenti síðan  forsætis- og atvinnuvegaráðherra stefnu bandalagsins.

Í stefnunni kom meðal annars fram að lífeyrisþegar á Íslandi krefjast þess að lífeyrir þeirra verði leiðréttur afturvirkt til ársins 2008, líkt og gert var við laun æðstu embættismanna ríkisins hjá kjararáði í október 2011.  Allt frá efnahagshruninu 2008, hafa stjórnvöld numið árlega úr gildi 69. grein laga um bætur almannatrygginga, sem á að tryggja að lífeyrisgreiðslur haldi verðgildi sínu. Sú grein var leidd í lög til að fyrirbyggja að bætur almanntrygginga yrðu skertar á erfiðleika tímum. Það var hinsvegar ein fyrsta sparnaðarleiðin Gjörningur ÖBÍ fyrir framan Alþingishúsið, formaður ÖBÍ, Guðmundur Magnússon afhendir Steingrími J. Sigfússyni, atvinnuvegaráðherra stefnu og kröfu bandalagsinssem stjórnvöld gripu til í hruninu 2008.

Svikin loforð

Lífeyrisþegar voru þeir fyrstu sem urðu fyrir kjaraskerðingu við bankahrunið 2008. Þá var því lofað sérstaklega að þeir fengju fyrstir leiðréttingar sinna mála þegar fjárhagsstaða ríkissjóðs batnaði. Þá var talað um 3ja ára tímabil sem nú er liðið. Ekkert bólar á leiðréttingum í þeim efnum af hálfu stjórnvalda þrátt fyrir yfirlýsingar um að hagur ríkisins sé að vænkast og kjör annarra hópa eins og þingmanna, ráðherra og annarra sem heyra undir kjararáð hafi verið leiðrétt.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, afhenti í lok gjörningsins Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, stefnuna og er hún svohljóðandi:

Nr. 1 lagt fram á Alþingi Íslendinga, Reykjavík 13. nóvember 2012

Stefna

Lífeyrisþegar á Íslandi, um allt land

Gjöra kunnugt:

Að lífeyrisþegar höfða mál fyrir Alþingi Íslendinga á hendur stjórnvöldum Íslands fyrir að virða ekki lög sem tryggja að lífeyrisgreiðslur haldi verðgildi sínu og hneppa þar með hóp Íslendinga í fjötra fátæktar.

Fyrirsvar

Öryrkjabandalag Íslands fer með þetta mál fyrir hönd stefnanda.

Dómkröfur

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

  1. Lagagrein nr. 69 í lögum um almannatryggingar, sem kveður á um að lífeyrir skuli hækka til samræmis við almennar launahækkanir eða vísitölu verðlags, eða þá vísitölu sem er hærri í tengslum við fjárlög á hverju ári, verði framfylgt, afturvirkt til ársins 2008, líkt og gert var við laun æðstu embættismanna hjá kjararáði í október 2011.
  2. Allar skerðingar á réttindum lífeyrisþega sem framkvæmdar hafa verið frá 2008 til dagsins í dag verði afturkallaðar, afturvirkt.

Málsatvik

Stjórnvöld hafa skert kjör lífeyrisþega frá því að kreppan hófst, kjör sem voru ekki viðunandi fyrir þann tíma. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað í samræmi við 69. grein laga um almannatryggingar frá 1. janúar 2009 þar sem lögin hafa verið tekin úr sambandi með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum (bandormi), lög sem sett voru til að vernda lífeyrisþega fyrir aðstæðum eins og skapast hafa í kreppunni. Með því að fylgja ekki þessu lagaákvæði hafa bæturnar rýrnað að verðgildi á sama tíma og greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu hefur stóraukist. Minna má á að í 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna aðildarríkin rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífsskilyrða.

Lífeyrisþegar urðu fyrir enn meiri skerðingum þegar tekjutengingar jukust umtalsvert um mitt ár 2009 sem skertu kjör lífeyrisþega til muna og hafa þær ekki verið dregnar til baka þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Öryrkjabandalagsins og fleiri hagsmunaaðila. Miklar tekjutengingar gera fólki ókleift að bæta fjárhagslega stöðu sína og halda fólki í fátæktargildru.

Lífeyrisþegar urðu fyrstir fyrir skerðingum þegar bankahrunið varð og var lofað að þeir fengju fyrstir leiðréttingar sinna mála þegar fjárhagsstaða ríkissjóðs batnaði. Þá var talað um þriggja ára tímabil sem er liðið. Ekkert bólar á leiðréttingum í þeim efnum af hálfu stjórnvalda þrátt fyrir yfirlýsingar um að hagur ríkisins sé að vænkast og leiðréttingar á kjörum annarra hópa hafa þegar komið til framkvæmda eins og hjá þingmönnum, ráðherrum og öðrum þeim sem heyra undir kjararáð.

Við gerð kjarasamninga 2011 var því lofað að lífeyrisþegar fengju sömu hækkun og lægstu laun. Þetta var gert með eingreiðslu og síðan 8,1% hækkun á örorkulífeyrisgreiðslum, en um síðustu árGjörningur ÖBÍ fyrir framan Alþingishúsiðamót var aðeins hækkað sem svaraði almennri launahækkun, meðan lægstu laun hækkuðu meira í formi ákveðinnar krónutölu. Um næstu áramót er útlit fyrir að bætur hækki minna en lægstu laun á vinnumarkaði.

ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber og að örorkubætur hækki 1. janúar 2013 að lágmarki til samræmis við lög um almannatryggingar miðað við hvernig vísitala neysluverðs hefur hækkað frá janúar 2008, enda eiga stjórnvöld að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa að treysta á velferðarkerfið.

Ekkert um okkur án okkar!


Kröfur ÖBÍ

Jafnframt lagði Öryrkjabandalag Íslands fram eftirfarandi kröfu:

Austurvelli 13. nóvember 2012

Kröfur Öryrkjabandalags ÍslandsSkilti sem á stendur, varúð hér er fátækt örykja leidd í lög

ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld leiðrétti afturvirkt sem fyrst þær skerðingar sem öryrkjar urðu fyrir í kjölfar efnahagshrunsins.

1. Leiðréttingar verði gerðar á lífeyrisgreiðslum afturvirkt til ársins 2008 til samræmis við lagagrein nr. 69 í lögum um almannatryggingar. Lagagreinin kveður á um að lífeyrir skuli hækka til samræmis við almennar launahækkanir eða vísitölu verðlags, eða þá vísitölu sem er hærri í tengslum við fjárlög á hverju ári. Farið er fram á leiðréttingar líkt og gert var við laun æðstu embættismanna hjá kjararáði í október 2011.

2. Allar skerðingar á réttindum lífeyrisþega sem framkvæmdar hafa verið frá 2008 til dagsins í dag verði afturkallaðar, afturvirkt.

Stjórnvöld hafa skert kjör lífeyrisþega frá því að kreppan hófst. Bætur almannatrygginga hafa ekki hækkað í samræmi við 69. grein laga um almannatryggingar frá 1. janúar 2009 þar sem lögin hafa verið tekin úr sambandi með fjárlögum fjögur ár í röð. Lagagreinin var sett árið 1998 til að vernda lífeyrisþega frá aðstæðum eins og skapast hafa í kreppunni. Með því að fylgja ekki þessu lagaákvæði hafa bæturnar rýrnað að verðgildi á sama tíma og greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu hefur stóraukist.

Lífeyrisþegar urðu fyrir enn meiri skerðingum þegar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu jukust umtalsvert um mitt ár 2009 á þann hátt að bætur skertust meira og fyrr en áður og margir öryrkjar misstu ákveðin réttindi af þeim sökum. Þær skerðingar hafa ekki verið dregnar til baka þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Öryrkjabandalagsins og fleiri hagsmunaaðila. Miklar tekjutengingar gera fólki ókleift að bæta fjárhagslega stöðu sína og halda fólki í fátæktargildru.

Minnt er á að í 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna aðildarríkin rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífsskilyrða.

EKKERT UM OKKUR ÁN OKKAR


Fréttir í fjölmiðlum í tengslum við gjörninginn:

 

ÖBÍ „stefnir“ stjórnvöldum   (mbl.is 13. nóv. 2012)

Krefjast sömu leiðréttinga og ráðamenn  (visir.is 13. nóv. 2012)

Eðlilegt að fólk velti kostnaðinum fyrir sér  (visir.is 14. nóv. 2012)

Alþingishúsið innsiglað    (RUV-sjö fréttir 13. nóv. 2012)

Berjast fyrir bættum kjörum  (Stöd2 13. nóv. 2012)