Skip to main content
Frétt

Vaxandi ójöfnuður á Íslandi

By 7. maí 2007No Comments
Í vorskýrslu ASÍ 2007 sem ber heitið: Aukin misskipting í góðæri, kemur m.a. fram að þrátt fyrir mikla verðmæta aukningu síðustu ára hafi ójöfnuður aukist. Aukinn ójöfnuður sé í skatta og tekjuskiptingu en einnig vaxandi skuldir hjá heimilunum. Ráðstöfunartekjur einstaklinga yfir 67 ára aldri hafa dregist mest aftur úr. Staða einstæðra foreldra hefur einnig versnað til muna.

Spurt er í skýrslunni hvað valdi vaxandi ójöfnuði? Niðurstaða ASÍ er að ójöfnuður hafi farið vaxandi á tímabilinu 1990-2005 vegna vaxandi fjármagnstekna og breytinga á skattkerfinu sem komu tekjuhæstu framteljendunum best. Dregið var á sama tímabili úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins með afnámi hátekjuskatts og hlutfallslegri lækkun barnabóta og persónuafsláttar. Þetta ásamt fleiru sem getið er í skýrslunni ýtir undir aukin ójöfnuð ráðstöfunartekna.

Skýrsla ASÍ styður mjög við þær niðurstöður sem Stefán Ólafsson prófessor setti fram í skýrslu sinni: Örorka og velferð, sem hann vann fyrir ÖBÍ árið 2005.