Skip to main content
Frétt

Vefur Seltjarnarnesbæjar aðgengilegasti sveitarfélagavefurinn

By 5. maí 2006No Comments
Vefur Seltjarnarnesbæjar, www.seltjarnarnes.is, fékk á dögunum vottun vefráðgjafarfyrirtækisins Sjá og Öryrkjabandalags Íslands um að standast kröfur um aðgengi fyrir fatlaða.

Vefurinn hlýtur vottun bæði fyrir forgang 1 og 2 og er fyrsti vefurinn á vegum ríkis eða sveitarfélaga til að ná þeim áfanga. Forgangur 1 er lágmarkskrafa um aðgengi fatlaðra að vef en til að fá forgang 2 þarf að uppfylla mun fleiri og ýtarlegri skilyrði. Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, opnaði vefinn formlega og Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, skýrði við það tækifæri frá þeim aðgerðum sem Seltjarnarnesbær hefur ráðist í til að gera sveitarfélagið aðgengilegt öllum. Einnig fór Jóhanna Símonardóttir, framkvæmdastjóri Sjá, yfir hvað felst í vottuninni.

Haustið 2003 samþykkti bæjarstjórn tillögu meirihluta Sjálfstæðisflokks um að gerð yrði úttekt á ferlimálum fatlaðra og þjónustu bæjarins við hópinn. Á sama tíma var hafin vinna við nýjan vef sveitarfélagsins og var við hönnun hans og val á vefkerfi hugað að þörfum fatlaðra. Vefur Seltjarnarness hefur þannig verið byggður upp með þarfir lesblindra, heyrnarlausra, hreyfihamlaðra, blindra og alvarlega sjónskertra í huga. Nú geta blindir og sjónskertir notað talgervla og sérhönnuð lyklaborð með síðunni eða stækkað letrið. Lesblindir geta breytt um bakgrunnslit og hreyfihamlaðir geta vafrað án þess að nota músina.

Vottun vefráðgjafarfyrirtækisins Sjá byggist á gátlistanum WAI (Web Accessibility Initiative) sem er alþjóðlegur staðall fyrir aðgengi á Netinu. Sjá hefur í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands sniðið listann að íslenskum aðstæðum og hefur hann verið prófaður af notendum með margs konar fötlun.

Engar reglur eru í gildi hérlendis um aðgengi að heimasíðum en í nágrannalöndum okkar er komið í lög að heimasíður opinberra stofnana sem og flestra fyrirtækja eigi að vera aðgengilegar öllum notendum, óháð fötlun eða getu. Níu af hverjum tíu vefjum eru óaðgengilegir hluta manna og tíu til tólf prósent þjóðarinnar eiga við einhvers konar fötlun að stríða. Sá hópur hefur jafnvel meiri not af heimasíðum en aðrir.

Nánari upplýsingar veita Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness í síma 595-9100 og Jóhanna Símonardóttir hjá Sjá ehf. í síma 511-3110.