Skip to main content
Frétt

Verðlaunahafar Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2008

By 4. desember 2008No Comments
Guðjón Sigurðsson hlaut í gær Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2008 í flokki einstaklinga, Tónstofa Valgerðar í flokki fyrirtækja og Akureyrarbær – búsetudeild, í flokki stofnana.

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands voru nú veitt öðru sinni á alþjóðadegi fatlaðra, til þeirra sem með jákvæðum hætti hafa stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Þrenn verðlaun voru veitt til fyrirtækis, stofnunar og einstaklings, sem skarað hafa fram úr og endurspegla nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu.

Verðlaunahafar eru:

Í flokki stofnana:

  • Akureyrarbær – búsetudeild, fyrir frumkvöðlastarf í útfærslu á “Independent living”, notendastýrðri þjónustu fyrir fatlaða.

Í flokki fyrirtækja:

  • Tónstofa Valgerðar, fyrir frumkvöðlastarf í þá veru að nemendur með sérþarfir njóti forgangs til tónlistarnáms.

Í flokki einstaklinga:

  • Guðjón Sigurðsson, fyrir sýnileika, dugnað og árangur í málefnum fatlaðra.

Leitað var til aðildarfélaga ÖBÍ, fulltrúa ÖBÍ í svæðiráðum um málefni fatlaðra og ýmissa annarra aðila sem vinna að málefnum fatlaðra um tilnefningar. Undirbúningsnefnd valdi þrjár tilnefningar úr hverjum flokki sem sérstök dómnefnd tók endanlega afstöðu til. Þeim aðilum voru veitt viðurkenningarskjöl við sömu athöfn.

Dómnefnd skipuðu Ólöf Ríkarðsdóttir fyrrverandi formaður ÖBÍ, Kristín Rós Hákonardóttir afrekskona í sundi, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ, Sigmundur Ernir Rúnarsson, forstöðumaður fréttasviðs Stöðvar 2 og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR.

Verndari verðlaunanna er Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og afhenti hann verðlaunin við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi.