Skip to main content
Frétt

Verðmætin í sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks

By 15. janúar 2013No Comments

Í nafni NPA miðstöðvarinnar, samvinnufélags fatlaðs fólks um sjálfstætt líf og NPA, vekja þær Freyja Haraldsdóttir og Embla Ágústsdóttir athygli á eftirfarandi atriðum í grein á visir.is.

Í breytingum á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 53/1992 sem voru samþykktar 1. janúar 2011 í kjölfar yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga var kveðið á um í bráðabirgðaákvæði að hefja tilraunaverkefni um NPA og bæri verkefnisstjórn skipuð af velferðarráðherra ábyrgð á mótun ramma. Verkefnið, sem er valfrjálst fyrir sveitarfélög að taka þátt í, á að standa til lok árs 2014 en þá skal NPA vera lögfest sem ein af meginþjónustuleiðum við fatlað fólk á Íslandi. Tók áðurnefnd verkefnisstjórn til starfa á vormánuðum 2011 og skilaði af sér handbók á opinni ráðstefnu í febrúar 2012 sem myndar ramma um verkefnið, sem skyldi hefjast 1. apríl, þ.e. að þá myndu sveitarfélög opna fyrir umsóknir fyrir fatlað fólk. Mörg sveitarfélög ákváðu að taka þátt í verkefninu, t.d. Reykjavík en seint gengið að ljúka starfsreglum um NPA.

Fyrir hönd NPA hvetja þær sveitarfélög, m.a. Reykjavíkurborg, til að ljúka við regluverkið á grunni mannréttinda og hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf og gera fullnægjandi NPA samninga við fólkið sem bíður og sýna í verki að sinnu- og afskiptaleysi gagnvart þessum hópi sé lokið. Þær ljúka grein sinni á eftirfarandi:

„Hver dagur í bið er bara venjulegur vinnudagur fyrir starfsfólk sveitarfélaga, stjórnmála- og embættismenn sem fer heim seinnipartinn og lifir sínu sjálfstæða lífi. Hver dagur í bið fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess er áframhaldandi útilokun, valdaleysi, kvíði og skerðing á frelsi, sjálfstæði og öryggi. Hver dagur í bið fyrir samfélagið er sóun á fjármagni, hæfileikum, þátttöku, þekkingu og áhrifum frá fötluðum Íslendingum.

Látum biðina enda strax og höldum áfram saman!

Fyrir hönd NPA miðstöðvarinnar,
Embla Ágústsdóttir stjórnarformaður
Freyja Haraldsdóttir framkvæmdastýra