Skip to main content
Frétt

Verja stjórnvöld kjör lífeyrisþega?

By 15. desember 2011No Comments

er ein margra spurninga sem Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi  og Guðríður Ólafsdóttir félagsmálafulltrúi ÖBÍ setja fram í grein sem birt var í Fréttablaðinu 5. desember. Þar sýna þær einnig fram á galdurinn við framfærsluuppbótina og hve margir njóta hennar til fulls.

Í umfjöllun um hækkanir bóta almannatrygginga með fjárlögum 2012 hefur því verið haldið fram að stjórnvöld hafi varið lægstu kjör lífeyrisþega með hækkunum á framfærsluviðmiði almannatrygginga. En hvað er átt við með framfærsluviðmiði? Hversu stór hluti örorkulífeyrisþega hefur notið góðs af þessum hækkunum? Eru hækkanir síðustu ára á greiðslum almannatrygginga í samræmi við ákvæði um árlegar breytingar í lögum um almannatryggingar? Í 69. gr. laganna segir að bætur almannatrygginga skulu breytast árlega og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. 

Framfærsluviðmið og sérstök framfærsluuppbót.

Í september 2008 var sérstök uppbót til framfærslu innleidd, sem var ætlað að tryggja lífeyrisþegum ákveðna lágmarksframfærslu á mánuði. Ef allar skattskyldar tekjur lífeyrisþega, að meðtöldum tekjum frá TR, eru undir framfærsluviðmiði fær lífeyrisþegi mismuninn greiddan sem sérstaka uppbót til framfærslu. Hugsunin með uppbótinni að tryggja lífeyrisþegum ákveðna lágmarksframfærslu á mánuði er jákvæð. Hins vegar er uppbótin útfærð á þann hátt að allar staðgreiðsluskyldar greiðslur skerða hana, krónu á móti krónu. Eftir mikla gagnrýni ÖBÍ eru nokkrir bótaflokkar, sem greiddir eru til að mæta umframkostnaði vegna fötlunar eða sjúkdóma, undanskildir því að skerða sérstöku framfærsluuppbótina frá árinu 2011. Allt árið 2010 og fram til júní 2011 voru einu hækkanir á bótum almannatrygginga hækkun sérstakrar framfærsluuppbótar um 2,5% í byrjun árs 2011.

Fjöldi öryrkja með sérstaka framfærsluuppbót á árunum 2009-2011.

  Fjöldi 2009 % Fjöldi 2010 % Fjöldi 2011 %
Öryrkjar með greiðslur frá TR 14.507   14.714   15.178  
Öryrkjar með sérstaka framfærsluuppbót   3.759 25,91%   3.626 24,64%   4.689 29,83%
Öryrkjar með óskerta framfærsluuppbót   2.363 16,34%     328  2,22% 273  1,80%

Fjöldatölur frá  2009 og 2010 eru úr staðtölum TR og miðast við desember ár hvert. Tölur um fjölda öryrkja með óskerta framfærsluuppbót eru frá TR og miðast við september ár hvert og er hlutfallið einnig reiknað út miðað við heildarfjölda öryrkja á sama tíma. 

Fjöldatölur fyrir 2011 eru einnig frá TR og miðast allar við september 2011.

Eins og sjá má á töflunni hér að ofan fær minna en þriðjungur öryrkja greidda sérstaka framfærsluuppbót. Hækkanir sérstakrar framfærsluuppbótar skila sér því ekki til rúmlega 70% örorkulífeyrisþega. Mjög lítill hópur eða í kringum 2% fær greidda óskerta/fulla framfærsluuppbót. Þó var talan fyrir árið 2009 mun hærri eða 16%. Sérstök framfærsluuppbót er ekki greidd úr landi og því skila hækkanir hennar sér ekki til lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis.

Hækkanir stjórnvalda síðustu ár hafa því aðeins náð til lítils hóps öryrkja, með þeirri undantekningu að bætur almennt voru hækkaðar um 8,1% frá 1. júní 2011 (4,73% hækkun á ársgrundvelli) og um 9,6% í janúar 2009. Þess má geta að bætur almannatrygginga almennt hefðu þurft að hækka um 19,9% í janúar 2009 til að mæta vísitöluhækkunum, en aðeins framfærsluuppbótin var hækkuð um þá tölu. Við bætist frysting allra bóta almannatrygginga allt árið 2010.

Dæmi um samspil sérstakrar framfærsluuppbótar við aðrar tekjur/greiðslur.

Meðal tekna sem skerða sérstaka uppbót til framfærslu eru mæðra-/feðralaun, sem eru greiðslur til einstæðra foreldra með tvö börn eða fleiri. Mæðra-/feðralaun skerða sérstöku framfærsluuppbótina krónu og móti krónu og eru einstæðir foreldrar, sem einnig eru öryrkjar með sömu heildartekjur og barnlausir öryrkjar. Stuðningur vegna barna verður því að engu.

Galdurinn við framfærsluuppbótina.

Lágar bætur almannatrygginga og reglur um sérstaka framfærsluuppbót hafa það í för með sér að bótaþegar sem fá uppbótina eru í raun fastir í fátæktargildru þrátt fyrir að hafa burði til að afla sér tekna að einhverju marki og reyna að vega þannig upp á móti lágum bótum. Fjárhagslegur stuðningur eða viðbótartekjur skerða eða eyða út framfærsluuppbótinni og bótaþegi er í sömu sporum fjárhagslega og án þeirra. Aukin réttindi bótaþega til að afla sér tekna eða nýta sér fjárhagsstuðning til viðbótar við bætur almannatrygginga, án þess að þær skerði bætur þeirra, myndi auka virkni og bæta lífsskilyrði þeirra.

Þrátt fyrir að framfærsluuppbótin hafi hækkað hlutfallslega meira en aðrar greiðslur almannatrygginga þá hafa hækkanir örorkulífeyrisgreiðslna ekki verið í samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar, ef undan eru skilin hækkanir á sérstakri  framfærsluuppbót á árinu 2009 og 2011,sem mjög lítill hluti öryrkja fær greidda.

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir félagsráðgjafi ÖBÍ

Guðríður Ólafsdóttir félagsmálafulltrúi ÖBÍ