Skip to main content
Frétt

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar í velferðarmálum

By 21. maí 2007No Comments

Hugleiðingar formanns ÖBÍ

Að öllum líkindum er sterk ríkisstjórn á Íslandi í burðarliðnum. Sterk í þeim skilningi að hún mun hafa þingstyrk til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegri uppstokkun á velferðarkerfinu og tilheyrandi kerfisbreytingum sem fyrir löngu eru orðnar tímabærar. Til þess þarf þó að byrja á stjórnarráðinu sjálfu en þar eru ráðuneyti og verkaskipting á milli ráðuneyta úrelt og gamaldags.

Líkur eru á að þrjú ráðuneyti verði sameinuð undir einu atvinnuvegaráðuneyti og einnig hafa verið uppi hugmyndir um innanríkisráðuneyti. Með lögum um vinnumarkaðsaðgerðir frá því í maí 2006 er gert ráð fyrir að atvinnumál fatlaðra flytjist að mestu leyti undir Vinnumálastofnun eins og önnur atvinnumál. Gera má ráð fyrir að með tilkomu nýs atvinnuvegaráðuneytis flytjist Vinnumálastofnun frá félagsmálaráðuneyti yfir í nýtt sameinað ráðuneyti. Með nauðsynlegri uppstokkun á Tryggingastofnun ríkisins og breyttu hlutverki stofnunarinnar er hægt að sjá fyrir sér sameiningu félagsmála- og heilbrigðisráðuneytis í velferðarráðuneyti enda hafi tilflutningur á verkefnum þá átt sér stað. Á kjörtímabilinu vona ég að við sjáum sjö ráðuneyti verða að veruleika í stað tólf nú með tilheyrandi einföldun, skýrari ábyrgð og aukinni skilvirkni. Núverandi ástand er óviðunandi að mínu mati og óvíst hvenær betra tækifæri gefst til uppstokkunar.

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur lögðu áherslu á það í kosningabaráttunni að fyrstu verkefni nýrrar ríkisstjórnar mundu snúa að velferðarkerfinu. Fyrir liggur sameiginleg málefnaskrá ÖBÍ, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Landssambands eldri borgara sem sérstök ástæða er til að vekja athygli á. Megin kröfurnar snúast um það að hækka grunnlífeyri og gera hann ótekjutengdan til að bæta stöðu þeirra sem verst standa um leið og hvati sé skapaður til atvinnuþátttöku.

Undirbúningur að breyttu örorkumati sem miðast við færni fólks fremur en vangetu og að skapa grundvöll til aukinnar atvinnuþátttöku öryrkja heldur áfram og er brýnt að til þess verks verði vandað mjög. Um leið þarf að setja af stað mikla vinnu við endurhönnun almannatryggingakerfisins og endurskipulagningu TR. Þetta þarf allt að vinna samhliða hvert með öðru. Eftir höfðinu dansa limirnir og þegar að ráðuneytin eru jafn gölluð og aðgreind ráðuneyti félags- og heilbrigðismála hafa verið þá er ekki von á góðu. Hver höndin hefur verið uppi á móti annarri og ábyrgð kastað á milli eins og heitri kartöflu líkt og fjölmörg aðildarfélög ÖBÍ hafa mátt kynnast. Þessu verður nú að linna.

Skortur á samráði hefur verið tilfinnanlegur í velferðarmálunum bæði gagnvart öldruðum og fötluðum. Með því hafa stjórnvöld kallað yfir sig deilur og átök sem vel hefði mátt komast hjá. Nú er lag að koma reglubundnu samráði í formlegan farveg.

Formaður ÖBÍ hefur óskað eftir því að forsætisráðuneytið stjórni innleyðingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Þar með gefst tækifæri til að þróa nýtt fötlunarráð annaðhvort undir forsætisráðuneytinu eða beint undir Alþingi eins og dæmi er um í Danmörku. Lífsgæði fatlaðra hafa aukist á síðustu misserum. Engu að síður eru stór verkefni framundan í kjaramálum, húsnæðismálum, atvinnumálum, aðgengismálum, menntamálum og endurhæfingu. Fyrstu skref nýrarr ríkisstjórnar munu gefa tóninn um það sem koma skal.

Sigursteinn Másson,
formaður ÖBÍ