Skip to main content
Frétt

Vilji stjórnvalda þarf að vera fyrir hendi til að búa fötluðu fólki samfélag mannréttinda.

By 7. febrúar 2015No Comments

Viðtal við Ellen Calmon formann ÖBÍ í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær vegna atviksins þegar 18 ára þroskaskert stúlka gleymdist í einum vagni ferðaþjónustunnar í fyrradag. 

Málefni ferðaþjónustu fatlaðra hafa verið ofarlega á baugi undanfarið. Það sem fyllti mælinn var að 18 ára þroskaskert stúlka gleymdist í einum vagni ferðaþjónustunnar. Stúlkan gleymdist í bíl bílstjórans og sat þar klukkustundum saman fyrir utan heimili hans.

Tekið var viðtal við Ellen vegna þessa máls. 

„Þetta hefur verið með ólíkindum, það hefur ekki verið nægilegt samráð við fatlað fólk og það fólk sem þekkir þjónustuna og veit hvernig henni ætti að vera helst háttað. Þetta atvik í gær var eitthvað sem algjörlega fyllti mælinn,“ segir Ellen.

Ellen var spurð um hvort stjórnvöld eða þeir sem hafa með þennan málflokk að gera hafi verið treg í taumi og svaraði Ellen: 

„Það sem einkennir málaflokk fatlaðs fólks og hvernig hann er höndlaður af ríki og sveitarfélögum er ákveðin forræðishyggja og það er eins og það sé ekki borin sama virðing fyrir fötluðu fólki, skoðunum þeirra og ábendingum eins og öðrum og mér þykir það verulega miður. Við höfum sent inn ábendingar vegna breytingu á ferðaþjónustunni og það var unnið að þessu strax í maí í fyrra og lagt til að ekki væri farið af stað með þessa þjónustu fyrr en að sumartíma þegar lítið væri um að vera. En bókhaldið er tekið fram yfir mannfólkið og þá hentar betur að byrja svona þjónustu á nýju ári. Þá er farið af stað á kolröngum tíma, samfélagið er allt komið á fullt skrið, fólk þarf að komast í vinnu, skóla o.s.frv.. Það hefur ekki verið hlustað á þær ábendingar sem við og okkar aðildarfélög höfum komið með.“

Þá var Ellen spurð um hvort ekki mætti taka víða til í kerfinu hvað málefni fatlaðs fólks varðar. 

„Jú það er harrétt. Við hér hjá Öryrkjabandalaginu erum alltaf að berjast fyrir því að almenningur geri sér grein fyrir réttindum fatlaðs fólks. Eitt af okkar stóru baráttumálum er það að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé lögfestur hér á landi. Hann var undirritaður hér á landi 2007 og við erum eitt af aðeins fjórum Evrópulöndum sem eigum eftir að lögfesta hann. Það er víða pottur brotinn þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk og sumt jaðrar við mannréttindarbrotum, það er bara þannig,“ svaraði Ellen. 

Vilji er allt sem þarf

Hvers vegna er þetta svona hæggengt hér á landi hvað varðar málefni fatlaðs fólks var hún að lokum spurð um?

Við mælum með að fólk hlusti á viðtalið í heild og heyri svör hennar því þar er margt sem kemur ekki fram í þessum texta en í stuttu máli sagði hún: 

„Vilji er allt sem þarf, vilji stjórnvalda þarf að vera fyrir hendi að búa fötluðu fólki samfélag mannréttinda.“