Skip to main content
Skoðun

Vilt þú verða einn af þeim?

By 22. nóvember 2021október 4th, 2022No Comments
Sumt er þess eðlis að það þarf að end­ur­taka og end­ur­taka, og taka áhætt­una á að það verði leiðigjörn sí­bylja, en veru­leik­inn kall­ar á þess­ar end­ur­tekn­ing­ar. Sumt er svo satt að það kall­ar á sí­bylj­una, því hún er sann­leik­ur­inn og hann verður að síast inn, bæði hjá al­menn­ingi og ráðamönn­um. Al­menn­ingi, því við þurf­um breiðfylk­ingu stuðnings­kvenna og -manna, og ráðamanna, því þeir hafa valdið. 

Átta af hverj­um tíu eiga erfitt eða frek­ar erfitt með að ná end­um sam­an

Sex af hverj­um tíu geta ekki mætt óvænt­um út­gjöld­um

Fjór­ir af hverj­um tíu búa við skort á efn­is­leg­um gæðum

Viltu ekki verða einn af þeim? Höld­um áfram…

Níu af hverj­um tíu ein­hleyp­um og ein­stæðum for­eldr­um eiga erfitt eða frek­ar erfitt með að ná end­um sam­an

Helm­ing­ur ein­stæðra for­eldra og ein­hleypra býr við skort á efn­is­leg­um gæðum

Fjór­ir af hverj­um tíu ein­stæðum for­eldr­um geta ekki veitt börn­um sín­um eins nær­ing­ar­rík­an mat og þeir vilja eða greitt kostnað vegna skipu­lagðra tóm­stunda

Viltu enn ekki verða einn af þeim? Höld­um þá áfram…

Átta af hverj­um tíu hafa neitað sér um heil­brigðisþjón­ustu

Marg­ir finna fyr­ir fé­lags­legri ein­angr­un og meiri­hluti finn­ur fyr­ir for­dóm­um

Tals­verður vilji er meðal þeirra að vera á vinnu­markaði en heils­an er helsta fyr­ir­staðan

Eruð þið ein­hverju nær um um hverja ég er að tala? Gef ykk­ur eina vís­bend­ingu í viðbót …

Sex af hverj­um tíu segja mik­il­væg­ast að hækka ör­orku­líf­eyri og tengd­ar greiðslur spurðir um breyt­ing­ar á al­manna­trygg­inga­kerf­inu. *

Já, ég er að tala um fatlað fólk á Íslandi, ör­yrkja. Vilt þú verða einn af þeim? Finnst þér þetta eft­ir­sókn­ar­verð lífs­gæði? Ef ekki slástu þá með og styddu okk­ur í bar­átt­unni fyr­ir mann­sæm­andi lífi. Það veit eng­inn hver verður næst­ur. Nú hill­ir und­ir nýj­an stjórn­arsátt­mála og það verður for­vitni­legt að sjá hvað verðandi rík­is­stjórn hef­ur fram að færa í mál­efn­um ör­yrkja. Hver v erða framtíðarlífs­kjör ör­yrkja? Nú­ver­andi kjör, m.a. þessi sem ég taldi upp hér að ofan, eru óviðun­andi, svo vægt sé til orða tekið. Við vilj­um rétt­læti, við vilj­um lífs­gæði. Svo ein­falt er það.

* Niður­stöður Vörðu, rann­sókna­stofn­un­ar vinnu­markaðar­ins. Staða fatlaðs fólk á Íslandi. Rann­sókn­in var unn­in fyr­ir Öryrkja­banda­lag Íslands. Sept­em­ber 2021.

 Höfundur er kennari, blaðamaður og öryrki.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2021