Skip to main content
Frétt

Vistmaður dvalarheimilis rukkaður um útvarpsgjald!

By 5. ágúst 2009No Comments
Nokkrar undanþágur gilda um greiðslu útvarpsgjalds þar á meðal vegna þeirra sem dvelja á dvalarheimilum.

Um síðustu áramót lagðist af innheimta afnotagjalds fyrir afnot útvarps og sjónvarps. Þess í stað var tekið upp útvarpsgjald kr. 17.200 á hvern skattskyldan einstakling á aldrinum 16- 70 ára. Skattstjórar leggja gjaldið á samhliða álagningu opinberra gjalda ár hvert.

Undanþegnir útvarpsgjaldi

ÖBÍ hefur fregnir að einstaklingi sem dvelur á stofnun sem hefur verið rukkaður um gjaldið. Því er vert að vekja athygli á að eftir taldir hópar eru undanþegnir útvarpsgjaldinu, samanber lög 125/1999 um Framkvæmdasjóð aldraðra, en það eru:

  • börn innan 16 ára aldurs,
  • þeir sem eru 70 ára og eldri í lok þess árs sem næst er á undan álagningarárinu,
  • þeir sem hafa tekjuskattsstofn samtals lægri en 1.143.352 kr á því ári sem næst er á undan álagningarárinu (þ.e. viðmiðunartekjur vegna 2007 -aths. BS). Þegar um er að ræða hjón eða samskattað fólk er sameiginlegum fjármagnstekjum skipt jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðunin er fundin. Tekjuviðmiðunin breytist árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti og innheimtuhlutfalli.
  • aldraðir og öryrkjar undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Þrír gjalddagar í stað eins

Lög 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. segja til um að gjalddagi útvarpsgjaldsins hjá einstaklingum sé einn eða 1. ágúst ár hvert. Samkvæmt upplýsingum sem ÖBÍ fékk hjá RSK hefur gjalddögum verið breytt úr einum í þrjá og eru 1. ágúst, 1. september og 1. október. Útvarpsgjaldið dreyfist því á þessa 3 gjalddaga. Þá er við það miðað að gjalddagi gjaldsins hjá lögaðilum verði 1. nóvember.