Skip to main content
Frétt

Víxlverkanir stöðvaðar

By 8. desember 2010No Comments
Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu 3. desember sl., viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja.

Stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta og lífeyrissjóðstekna öryrkja. Fyrir hönd lífeyrissjóðanna er viljayfirlýsingin undirrituð með fyrirvara. Á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða er á það bent að hver og einn lífeyrissjóður eigi að sjálfsögðu síðasta orðið um aðild sína að samkomulaginu. Einnig segir að formsatriðum samkomulagsins skuli ljúka fyrir miðjan desember og að því búnu taki hver lífeyrissjóður afstöðu til málsins.

Víxlverkanirnar hafa ítrekað skert bætur öryrkja.

Á vef ráðuneytisins er viðurkennt að víxlverkanirnar hafa komið öryrkjum illa og staðið í vegi fyrir kjarabótum þeim til handa. Lífeyrissjóðirnir hafa síðustu misserin miðað greiðslur sínar til öryrkja við tekjur þeirra áður en þeir urðu fyrir örorku. Þetta hefur leitt til þess að þegar stjórnvöld hafa hækkað bætur til öryrkja hafa greiðslur lífeyrissjóðanna lækkað að sama skapi. Tekjutengingin milli almannatrygginga og lífeyrissjóða er gagnkvæm. Aðgerðir stjórnvalda til að bæta kjör öryrkja hafa því litlu skilað til þessa hóps og sömuleiðis hafa hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum leitt til lækkunar örorkubóta.

Aftenging víxlverkunarinnar mun gilda í 3 ár.

Viljayfirlýsingin felur í sér að víxlverkanir milli örorkubóta almannatrygginga og lífeyrissjóðstekna verða aftengdar í þrjú ár (árin 2011, 2012, 2013). Áhrif atvinnutekna öryrkja á bætur og greiðslur úr lífeyrissjóðum verða hins vegar óbreytt. Aðilar eru sammála um að nota þennan tíma til að finna lausn á fyrirkomulagi þessara mála til framtíðar. Samhliða mun fara fram endurskoðun á tekjutengingu ýmissa bótaflokka almannatrygginga.

Viljayfirlýsingin (opnast á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða)

Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnará heimasíðu Landssambands lífeyrisjóða 

Frétt um undirskrift viljayfirlýsingarinnar á heimasíðu félags og tryggingamálaráðuneytis