Skip to main content
Frétt

Vortíska fatlaðra í Kringlunni laugardaginn 14. apríl klukkan 14:15

By 13. apríl 2007No Comments
Fólk úr ungliðahreyfingum aðildarfélaga Öryrkjabandalags Íslands sýndu síðastliðinn laugardag vortískuna í Kringlunni á nýstárlegan hátt.

Á sýningarpalli líkum þeim er þekkjast úr tískusýningum gekk fólkið um. Hins vegar skiptu föt þeirra engu máli heldur var kynnt hvaða fötlun þau ættu við að stríða og hvernig hún kæmi í veg fyrir að þau nytu réttinda á við ófatlaða. Sýningin bar yfirskriftina Íslenskur veruleiki – samfélag sem mismunar fólki.

Tískusýningin vakti mikla athygli gesta í Kringlunni. Hópurinn dreifði bæklingum til gesta Kringlunnar. Í bæklingnum er fólk hvatt til að kynna sér aðstöðu fatlaðra. Þar kemur meðal annars fram að þúsundir fatlaðra lifi við fátækt en hafa beri í huga að líf og dagleg tilvera fatlaðra sé að mörgu leyti dýrari en ófatlaðra, aðeins fjórðungur öryrkja á íslandi stundar vinnu og grunnlífeyrir fatlaðra sé tæpar 25 þúsund krónur. Tengill á bækling pdf-skjal.

Sigursteinn Másson, formaður ÖBÍ, vonast til að sá veruleiki sem þarna var sýndur verði ekki í tísku mikið lengur. Mismunun vegna húsnæðismála kæmi í veg fyrir að fatlaðir gætu stofnað fjölskyldu, aðgengismál væru alls ekki í lagi og túlkaþjónusta heyrnarlausar langt frá því í lagi. Ísland stæðist engan samjöfnuð við önnur norræn lönd í þessum efnum.

Í kjölfar tískusýningarinnar hófst sýning auglýsinga með yfirskriftinni Íslenskur veruleiki í ljósvakamiðlum, sem standa mun um nokkra hríð.