Skip to main content
Frétt

Yfir 90% landsmanna telja sig ekki geta lifað af 172.000 króna ráðstöfunartekjum, samkvæmt Gallupkönnun

By 21. nóvember 2015No Comments
Góð stemmning var á fundi Öryrkjabandalags Íslands um mannsæmandi lífskjör fyrir alla sem haldinn var á Grand hóteli í dag, laugardag 21. nóvember.

Á fundinum var álitsgerð Ólafs Ísleifssonar um lífskjör í ljósi framfærsluviðmiða kynnt. Í kynningunni kom m.a. fram að barnlaus einstaklingur, sem býr einn í eigin húsnæði, þarf að hafa 348.537 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði (eða 482.846 kr. fyrir skatt) til að geta mætt eðlilegum útgjöldum. Á þeim tíma (2014) þegar álitsgerðin var unnin voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót, um 187.507 kr. á mánuði en 172.000 kr. hjá þeim sem bjó með öðrum, 18 ára eða eldri.

Greina Sigríðar Hönnu Ingólfsdóttir, félagsráðgjafa ÖBÍ sem er samantekt úr álitsgerðinni. „Hvaða ráðstöfunartekjur þarf til að geta staðið undir mannsæmandi framfærslu?“ 

Gallupkönnun

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, kynnti nýja könnun Gallup, þar sem spurt var hvort fólk gæti lifað af framfærslu upp á kr. 172.000 á mánuði. Ríflega 90% svarenda sögðust ekki geta lifað af svo lágri framfærslu. Einng töldu um 95% að lífeyrisþegar ættu að fá jafnháa eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar.

Ályktun fundarins

Í lok fundar var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

Ályktun – áskorun

Ágæti þingmaður viltu skapa samfélag fyrir alla, þar sem lífeyrisþegar og börn þeirra hafa tækifæri til virkar samfélagsþátttöku en ekki að þeim séu settar þær kjaraskorður sem þeir búa við nú? Þú hefur valdið til að breyta!

Opinn fundur Öryrkjabandalagsins – Mannsæmandi lífskjör fyrir alla sem haldinn er á Grand hóteli laugardaginn 21. nóvember 2015 skorar á þingmenn að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2016 með eftirfarandi hætti:

  • Lífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt um sömu krónutölu og lægstu laun hækkuðu 1. maí sl. (31.000 kr. fyrir skatt).
  • Lífeyrir almannatrygginga hækki um 15.000 kr. frá 1. maí 2016 (samhliða hækkun lágmarkslauna).

Þá er einnig farið fram á að krónu-á-móti-krónu skerðing sérstakrar framfærsluppbótar verði afnumin hið fyrsta.

Þingmenn gerið okkur kleift að vera með mannsæmandi framfærslu.

Ályktunin ásamt greinargerð. Ályktun fundar ÖBÍ 21.nóvember 2015 mannsæmandi- ifskjör.

Samanburður á hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa og lífeyrisþega

Á fundinum vor einnig sýndur útreikningu þar sem gerður er samanburður á hækkunum lífeyris almannatrygginga og launahækkun þjóðkjörinna fulltrúa (forsætisráðherra, ráðherra og þingmanna) á tímabilinu 2010-2015.

Sjá útreikninga í exelskjali