Skip to main content
Frétt

Yfirlýsing frá Hlutverki – samtökum um vinnu og verkþjálfun og Alþýðusambandi Íslands

By 8. maí 2006No Comments
Yfirlýsing frá Alþýðusambandi Íslands og Hlutverki – samtökum um vinnu og verkþjálfun um kjör og réttindi fatlaðra starfsmanna á vinnustöðum fatlaðra.

Alþjóðsamband frjálsra verkalýðsfélaga (ICFTU) ákvað á heimsráðstefnu sinni í Miyazaki í Japan, dagana 5-10. desember 2004, að vinna að fullri samlögun fatlaðra „að samfélaginu og vinnustöðum með því að stuðla að menntun, starfsþjálfun og endurhæfingu, berjast gegn öllum tegundum mismununar, aðlögun vinnustaða og umhverfis og samvinnu við stjórnvöld og atvinnurekendur.

“Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Hlutverk – samtök um vinnu og verkþjálfun, sem eru heildarsamtök vinnu- og hæfingarstaða fatlaðra, deila þessu viðhorfi og hafa átt samvinnu vegna réttarstöðu fatlaðra starfsmanna á vinnustöðum fatlaðra. Í niðurstöðum könnunar sem ASÍ og Hlutverk gerðu fyrir skömmu kemur fram, að á meirihluta vinnustaða fatlaðra njóta starfsmenn lágmarksréttinda skv. kjarasamningum og að þar eru laun greidd í hlutfalli við umsamda kauptaxta miðað við metna vinnugetu starfsmanna.

Samtökin eru sammála um að það sé mannréttindamál að allir sem geta og vilja vinna eigi kost á atvinnu. Tryggja þarf að í samfélaginu séu til staðar úrræði fyrir þá sem þurfa stuðning við að komast í atvinnu og til að halda henni til frambúðar.

Samtökin telja mikilvægt að íslenskt samfélag geri sér grein fyrir þeim verðmætum sem fólgin eru í virkri þátttöku fatlaðra í atvinnulífinu. Fjöldi fatlaðra starfar á almennum vinnumarkaði, nýtur sömu kjara og annað launafólk og á aðild að verkalýðsfélögum og stofnunum þeirra, þ.m.t. lífeyrissjóðum. Verkefni sambandsaðila Hlutverks er að þjálfa fólk til starfa á almennum vinnumarkaði og veita þeim atvinnu sem ekki eiga þess kost að starfa á almennum vinnumarkaði, eða eiga ekki afturkvæmt þangað.
Samtökin skora jafnframt á íslensk stjórnvöld að hrinda í framkvæmd tilskipunum Evrópusambandsins um bann við mismunun á vinnumarkaði hér á landi.

Alþýðusamband Íslands og Hlutverk eru sammála um að stuðla að því, að á öllum vinnustöðum fatlaðra séu réttindi skv. kjarasamningum virt. Meðal þessara réttinda eru:

  • Að gerðir séu skriflegir ráðningar- og/eða þjónustusamningar við fatlaða starfsmenn.
  • Að vinnugeta fatlaðra starfsmanna sé metin á hlutlægan og samræmdan hátt og laun skv. kjarasamningum greidd eftir því.
  • Að réttur sé til sumarorlofs á launum.
  • Að greiddar séu desember- og orlofsuppbætur í sama hlutfalli og laun.
  • Að yfirvinnuálag sé greitt þegar yfirvinna er unnin að loknum dagvinnutíma.
  • Að réttur til greiðslu launa í forföllum vegna veikinda og slysa sem ekki er tengd fötlun viðkomandi sé virtur.
  • Að allir fatlaðir starfsmenn njóti slysatryggingar eins og annað starfsfólk við störf sín, á leið til og frá vinnu og í frítíma.
  • Að fatlaðir starfsmenn njóti samningsbundins uppsagnarfrests frá störfum.
  • Að fatlaðir starfsmenn eigi aðild að viðeigandi stéttarfélögum og sjóðum á grundvelli gildandi kjarasamninga og laga

Samtökin beina því jafnframt til allra sem ekki hafa nú þegar í gildi samninga um kjör sem samræmast ofanrituðu, að gera nauðsynlegar breytingar og hrinda þeim í framkvæmd eigi síðar en 1. september 2006.

Rangárþingi 4. maí 2006
Alþýðusambands Íslands         
Hlutverk – samtök um vinnu- og verkþjálfun