Skip to main content
Frétt

Yfirlýsing frá Öryrkjabandalagi Íslands

By 30. ágúst 2011No Comments
Varðandi greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði.

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp til laga sem er breyting á lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, nánar til tekið um greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Um er að ræða heimildarákvæði til breytinga í greiðsluþátttökunni. Með frumvarpinu fylgja drög að nýrri reglugerð sem útfærir breytingarnar.

Öryrkjabandalag Íslands er hlynnt þeirri kerfisbreytingu sem boðuð hefur verið og kynnt var af starfshópi í október 2010 og á fundi með ráðherra velferðarmála sl. vor. Hér er um mikið réttlætismál að ræða. Ný útfærsla byggir á jafnræði milli fólks með sjúkdóma.

Í því frumvarpi sem fyrir alþingi liggur felst breyting á núverandi lögum á þeim heimildarákvæðum sem þar eru sett fram. Ákvæðin eru mjög opin og vald ráðherra nær ótakmarkað.

ÖBÍ vill að sú grunnhugsun sem kynnt var og kemur fram í skýrslu starfshópsins frá október 2010 verði bundin í lögum, þannig verði öryggi sjúklinga einungis tryggt. Eftirfarandi þarf að binda í lögunum:

  1. Að gjald fyrir lyf verði hlutfallslegt og þrepaskipt eftir uppsöfnuðum lyfjakostnaði. 
  2. Að gjald fyrir lyf skal vera lægra hjá örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþegum, börnum, fólki í atvinnuleit og þeim er verða að reiða sig á framfærslu félagsþjónustu sveitarfélaga. 
  3. Ákvæði verði sett um hámarksþak á árlegum kostnaði sjúkratryggðra og þar eftir 100% greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. 
  4. Tilgreina þarf þrepaskiptingu á kostnaði í reglugerð og hámarksþak sem skal auglýsa með góðum fyrirvara.
  5. Að breytingar á greiðsluþátttöku skulu unnar og kynntar í samráði við hagsmunasamtök sjúklinga.

Varðandi drög að reglugerð sem frumvarpinu fylgir hefur ÖBÍ margt við þau að athuga og fer sérstaklega fram á að eftirfarandi atriðum verði breytt:

  1. Krafist er hámarksþaks á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra.
  2. Fyrirkomulag S-merktra lyfja verði áfram eins og það er í dag.
  3. Félagslega stuðningskerfið verði uppfært í samræmi við raunveruleikann.

Sjá umsögn ÖBÍ við frumvarpinu

Ekkert um okkur, án okkar!