Skip to main content
Frétt

Yfirlýsing frá Öryrkjabandalagi Íslands

By 3. janúar 2006No Comments

Öryrkjabandalag Íslands óskar aðilum vinnumarkaðarins til hamingju með samkomulag við ríkisstjórn Íslands sem staðfest var 15. þessa mánaðar og bæta mun kjör launþega og atvinnulausra.

Bandalagið fagnar tekjutengingu atvinnuleysisbóta en minnir á að bætur almannatrygginga eru tengdar tekjum með öfugum formerkjum sem veldur því að flestir öryrkjar lenda í fátæktargildru.

Öryrkjabandalag Íslands telur eftirtektarvert að ríkisstjórnin ætli á næstunni að verja allt að 1,8 milljörðum króna til þess að létta örorkubyrði af lífeyrissjóðunum. Á sama tíma treysta stjórnvöld sér ekki til að efna samkomulagið við Öryrkjabandalag Íslands frá 25. mars 2003.

Öryrkjabandalag Íslands skorar á ríkisstjórn Íslands að efna nú þegar það sem upp á vantar að samkomulagið hafi verið efnt og komast þannig hjá yfirvofandi málssókn sem mun hafa í för með sér álitshnekki fyrir stjórnvöld.

Reykjavík, 16. nóvember 2005,

Öryrkjabandalag Íslands