Skip to main content
Frétt

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar ÖBÍ vegna dóms Hæstaréttar

By 22. desember 2009No Comments
Öryrkjabandalag Íslands furðar sig á dómi Hæstaréttar NR.665/2008, sem kveðinn var upp þann 17. desember sl. ÖBÍ íhugar alvarlega að leita með mál Margrétar til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Öryrkjabandalag Íslands furðar sig á dómi Hæstaréttar NR.665/2008, sem kveðinn var upp þann 17. desember sl., þar sem Gildi lífeyrissjóður er sýkn af kröfu stefnda, Margrétar Ingibjargar Marelsdóttur.

Hér er verið að staðfesta að réttur til örorku úr lífeyrissjóði sé veikari rétti til ellilífeyris, jafnvel þó um keypt réttindi sé að ræða. Áhersla er lögð á „það meginhlutverk að tryggja ellilífeyri sjóðsfélaga “ og talað um „veruleg aukin útgjöld vegna örorkulífeyristrygginga“ eins og það hafi komið óvænt upp. Er leyfilegt að skipta sjóðsfélögum upp í fyrsta- og annarsflokks félaga? Er réttur eins æðri öðrum? Er eignarréttur örorkulífeyrisþega minni virði en annarra?

Samræmist ekki réttarreglum um lífeyrisréttindi sem gilda í Evrópu

Í dómi Hæstaréttar er gerður greinarmunur á lífeyrissjóðum sem lúta sérlögum og lífeyrissjóðum sem lúta almennum lögum um lífeyrissjóði. Er á því byggt í dómnum að réttindi í hinum fyrrnefndu njóti verndar sem eignarréttindi skv. stjórnarskrá, en hinir siðarnefndu ekki. Þeir sem eiga réttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga geta treyst því, að réttindi þeirra verði nú sem fyrr ekki af þeim tekin nema með eignarnámi og gegn fullum bótum. Sjóðfélagar í öðrum lífeyrissjóðum geta hins vegar ekki treyst því að réttindi þeirra verði ekki hér eftir og með heimild í dómnum skert eða þau afnumin bótalaust. Hér eftir er félögum í lífeyrissjóðum mismunað þannig, að  brotið er gegn jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Þessi nýja réttarregla Hæstaréttar samræmist ekki þeim réttarreglum sem um lífeyrisréttindi gilda í Evrópu, en fullt lagasamræmi var milli Íslands og annarra Evrópulanda að þessu leyti þar til Hæstiréttur kvað upp dóm þennan. Óhjákvæmilegt er að áliti ÖBÍ að Alþingi láti þessi réttindi sjóðfélaga til sín taka og breyti lögum þannig að sú ólögmæta mismunun milli sjóðfélaga í hinum tveimur flokkum lífeyrissjóða sem leiðir af dómi Hæstaréttar,  í andstöðu við jafnréttisákvæði stjórnarskrár, verði leiðrétt og réttarstaða allra sjóðfélaga gerð hin sama og hún var fram að uppkvaðningu dóms þessa.

Vekur furðu að ráðuneytisstjóri beri ekki ábyrgð

ÖBÍ furðar sig á þeirri fullyrðingu dómsins að ráðuneytisstjóri beri ekki ábyrgð á gjörðum undirmanna ráðuneytisins, en að þeir heyri beint undir ráðherra í sumum embættisfærslum.

Ljóst er að með þeim reiknikúnstum* sem meintir lífeyrissjóðir nota eru þeir að láta Tryggingastofnun ríkisins greiða hluta af því sem sjóðsfélagar hafa keypt með iðgjöldum sínum.

Á þessum víxlverkunum milli lífeyrssjóðanna og TR hefði löggjafin getað verið búinn að taka og lagfæra fyrir löngu, en hefur ekki séð ástæðu til. Eða ekki lagt í að styggja lífeyrissjóðina sem sitja á stærstu fjárfúlgunum í landinu, en treyst á þá eins og gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Því hafi ekki mátt styggja þessar gullgæsir, heldur fá þeir að deila og drottna frítt og án eðlilegs aðhalds.

Öryrkjabandalag Íslands telur að hér sé verið að brjóta mannréttindi og íhugar alvarlega að leita með mál Margrétar til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Reykjavík 18. desember 2009
Öryrkjabandalag Íslands.
             

*Reiknikúnstir Lífeyrissjóðanna:
Miðað er við laun síðustu ára fyrir orkutap og þau uppreiknuð samkvæmt launa- eða framfærsluvísitölu (50/50 hjá sjóðunum), en ekki hvað sé greitt í dag fyrir sambærilegt starf. Þetta síðan borið saman við laun í dag og lífeyrir skertur um það sem er framyfir. Með því að telja bætur almannatrygginga sem laun verða, einkum láglaunafólk fyrir skerðingum og geta jafn vel misst líeyrissjóðsgreiðslur að fullu, án þess að hafa aðrar tekjur og festast þannig í fátækragildru lífeyrissjóðanna og stjórnvalda

Dómurinn í heild (opnast á vef Hæstaréttar)