Aðalfundur 2022
Fundargerð aðalfundar ÖBÍ réttindasamtaka
haldinn á Grand hóteli, Sigtúni 28, Reykjavík, 7. október 2022, kl. 16:00-19:00, og 8. október 2022, kl. 10:00-17:00.
Ávarp formanns, fundarsetning
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:07 og bauð fundargesti í sal sem og á Zoom hjartanlega velkomna. Flestir fundarmanna voru í sal. Fjarfundarkerfi og rafrænt kosningakerfi hafa gefist vel og því var ákveðið að nota þau áfram.
Formaður sagði að margt væri framundan eftir annasamt ár. Ásýnd ÖBÍ hefur tekið breytingum og var nýtt merki tekið í notkun í september 2022. Þessar breytingar voru ákveðnar í framhaldi af niðurstöðu stefnuþings ÖBÍ 2021 og 2022.
Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Margrét Kristmannsdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Helga Guðmundsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.
Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju væri fulltrúum málefnahópa, stjórnar og hreyfinga ÖBÍ boðið að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúar.
Almenn fundarstörf
Skýrsla stjórnar (1)
Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2021 til 2022. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-37) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:
Á árinu tók við ný ríkisstjórn og nýir ráðherrar, nýjar sveitarstjórnir og nýtt sveitarstjórnarfólk. Í félagsmálaráðuneytið kom nýr ráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem er annt um hag fatlaðs fólks. ÖBÍ hefur verið í góðu sambandi og stöðugu samráði við nýja ríkisstjórn sem hefur skilað góðum árangri. ÖBÍ vinnur stöðugt að réttlátara samfélagi fyrir fatlað fólk og á árinu gerðist heilmargt í þeim málum. Sem dæmi má nefna að ráðast á í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Formaður hvatti forystumenn og talsmenn aðildarfélaganna að láta í sér heyra, vera hugrakka og krefjast réttlætis.
Í nóvember 2021 hófust umræður ÖBÍ við UMFÍ um kaup á 25% hlut þeirra í Sigtúni 42 og var gengið frá kaupunum í febrúar 2022. Um er að ræða góða fjárfestingu og á sama tíma mikilvægt skref fyrir sambandið. Eftir kaupin á ÖBÍ 75% í fasteigninni. Nokkur aðildarfélög ÖBÍ munu koma inn í húsið með sína starfsemi. Með þessu má segja að Sigtúnið verður miðstöð mannréttinda fatlaðs fólks.
Á árinu hélt ÖBÍ áfram að vinna með nýja stefnu sem var samþykkt á aðalfundi árið 2021. Stefnan byggist á níu meginmarkmiðum sem öll eiga að stuðla að langtíma umbótum og jákvæðum breytingum. Áherslurnar eru leiðbeinandi í starfi málefnahópa og aðildarfélaga.
Nýtt merki ÖBÍ réttindasamtaka var hannað, ný ímynd og nýr vefur. Þetta var allt saman hluti af endurmörkun ÖBÍ. Nýtt merki ÖBÍ er sterkt, einfalt og nútímalegt og vísar til þess að 15% mannkyns er fatlað fólk auk þess sem fjólublái liturinn tengist alþjóðlegum lit fatlaðs fólks.
Það er samtökum eins og ÖBÍ afar mikilvægt að vel takist til að virkja stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög eða einstaka stofnanir til að viðhafa merkingarbært samráð. Það er einnig í anda samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Á starfsárinu fundaði ÖBÍ með fjölmörgum frambjóðendum til Alþingis, frambjóðendum til sveitarstjórna og átti fjölda samtala og funda með einstaka þingmönnum og ráðherrum um málefni sem kröfðust aðgerða til að fatlað fólk eigi líf til jafns við aðra. Kjaramálin báru þar hæst en einnig aðgengismál, atvinnumál, heilbrigðismál, húsnæðismál og málefni barna.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga stóð ÖBÍ fyrir fundaherferð um landið ásamt Þroskahjálp. Haldnir voru um 20 fundir í stærstu sveitarfélögunum í öllum landshlutum þar sem fulltrúum allra flokka ásamt almenningi var boðið að mæta og málefni fatlaðs fólks rædd. Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar sem ÖBÍ lét framkvæma um nærþjónustu sveitarfélaga 2022 voru kynntar. Afar áhugavert var að niðurstöður könnunarinnar voru þær að flestir svarendur vilja færa þjónustuna aftur til ríkisins. Svarendur töldu að sveitarfélögin leggðu of litla áherslu á málaflokkinn og að nauðsynlegt væri að samræma þjónustuna á milli sveitarfélaga. Á fundunum voru aðgengismál og húsnæðismál mikið rædd. Þessi áhersla endurspeglast í könnuninni þar sem svarendur vilja að sveitarfélögin auki framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði.
ÖBÍ þrýsti á eingreiðslu frá ríkinu til örorkulífeyrisþega sem var samþykkt og greidd út í desember 2021. Þessi eingreiðsla var fyrst greidd út í desember 2019 en það er áfangasigur að hafa náð henni fram undanfarin ár. Þar að auki var árleg hækkun örokulífeyris hærri en venjulega, í stað 3,5% var hækkun upp í 5,6% sem var framkvæmd í tveimur skrefum. Hækkunin er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar auk þess sem hún er merki um að málflutningur ÖBÍ nái eyrum stjórnvalda.
Reglugerð um heimilisuppbót var breytt þannig að nú getur barn búið í foreldrahúsum og verið í skóla til 26 ára aldurs án þess að foreldrar missi heimilisuppbót. Önnur kjarabót var hækkun SÍ í greiðsluþátttöku vegna almennra tannlækninga fatlaðs fólks og aldraðra úr 57% í 63%. Þar að auki fékk SÍ auknar heimildir til þess að styrkja kaup á hjálpartækum fyrir fötluð börn með tvö heimili þannig að þau geti átt vís hjálpartæki á báðum heimilum.
Undanfarin ár hafa örorkulífeyrisþegar þurft að prenta sjálfir út örorkuskírteini þar sem TR gerir það ekki lengur. Á árinu náðist samkomulag við nýjan forstjóra TR og ráðherra þess efnis að TR muni aftur gefa út örorkuskírteini í hefðbundinni kortastærð. Síðar á árinu er fyrirhugað að örorkuskírteinin verði einnig stafræn og til notkunar í snjallsímum. Þetta hefur verið mikið baráttumál hjá ÖBÍ og ánægjulegt að þetta hafi komist í gegn.
Á árinu unnust þrjú mál fyrir dómstólum og þó nokkur önnur eru í undirbúningi. Þessi dómsmál eru fordæmisgefandi og hafa mikla þýðingu fyrir fjölda fólks. Þau mál sem unnust í Hæstarétti voru m.a. búsetuskerðing á sérstakri uppbót og NPA.
Að lokum sagði formaður að bandalagið hefði barist af krafti í rúm 60 ár fyrir réttindum fatlaðs fólks. SRFF mun færa okkur nær því að eiga líf til jafns við aðra. Formaður þakkaði stjórn og aðildarfélögum kærlega fyrir samstarfið á árinu.
Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.
Formaður veitti formanni Blindravinafélags Íslands, Helgu Eysteinsdóttur, viðurkenningu fyrir einstakt ævistarf fyrir hönd ÖBÍ. Blindravinafélagið hefur eingöngu haft tvo formenn frá upphafi þess og hefur Helga, sem er nú komin yfir áttrætt, verið viðloðandi félagið frá því að hún var 14 ára gömul.
Ársreikningur ÖBÍ (2)
Íris Ólafsdóttir frá PwC fór yfir reikninga bandalagsins fyrir árið 2021 (fskj. nr. 3).
Rekstrartekjur ársins 2021 voru rúmlega 1.139 milljónir í stað rúmlega 921,5 milljónir árið 2020.
Rekstrargjöld ársins 2021 hækkuðu milli ára og námu tæplega 441 milljónum árið 2021 samanborið við 322,1 milljón árið áður.
Rekstrarafkoma ársins 2021 fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 698,9 milljónir, en var 599,4 milljónir árið 2020.
Rekstrarafkoma ársins 2021, að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum jukust töluvert milli ára, var jákvæð um 256,3 milljónir, en var jákvæð um 78 milljónir árið 2020.
Efnahagshluti reikningsins hækkaði töluvert á milli ára. Varanlegir fastafjármunir voru 303 milljónir árið 2021 samanborið við 309,6 milljónir árið áður og jukust langtímakröfur úr 214 milljónum árið 2020 í tæplega 223 milljónir árið 2021. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður.
Fastafjármunir samtals voru því 527 milljónir 2021 í stað 523 milljóna árið áður.
Veltufjármunir voru 0 kr. árið 2021 í stað 2,7 milljóna 2020 og voru eignir því samtals 1.130 milljónir árið 2021 í stað 798 milljóna 2020.
Eigið fé og skuldir voru samtals 1.130 milljónir árið 2021 í stað 798 milljóna árið áður. Það skiptist í óráðstafað eigið fé, sem var 942 milljónir 2021 í stað 686 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 188 milljónir 2021 í stað 112 milljónir árið 2020. Helsta skýring á hækkun skammtímaskulda milli ára er vegna ógreiddra framlaga og styrkja sem og skuldir við tengda aðila.
Handbært fé í árslok 2021 var því 394,7 milljónir, í stað 175,6 milljóna árið áður.
Vísaði endurskoðandi í greinargóðar skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 11-19 til frekari glöggvunar.
Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Jón Heiðar Jónsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Eva Þengilsdóttir.
Ein fyrirspurn barst varðandi hækkun á rekstrarkostnaði fasteigna og skrifstofu. Framkvæmdastjóri svaraði því að hækkun á rekstrarkostnaði fasteignar mætti rekja til framkvæmda í kjallara í Sigtúni og hækkun á rekstrarkostnaði skrifstofu væri vegna meiri starfsemi á árinu 2021 heldur en árið áður.
Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2021 var samþykktur samhljóða.
Skýrslur fastra málefnahópa (3)
Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2021-2022 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 40-45). Formenn málefnahópa komu upp og klöppuðu fundargestir fyrir þeim og starfi málefnahópanna.
Skýrslur fyrirtækja (4)
TMF- Tölvumiðstöð (a)
Rúnar Björn Herrera stjórnarformaður, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.
Örtækni (b)
Jónas Páll Jakobsson, framkvæmdastjóri ÖBÍ, forfallaðist því miður. Fulltrúar voru beðnir um að senda honum tölvupóst ef að einhverjar fyrirspurnir væru.
Fjölmennt (c)
Helga Gísladóttir, forstöðumaður ÖBÍ, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.
Íslensk getspá (d)
Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.
Hringsjá (e)
Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjár, flutti framsögu og kynnti m.a. stefnumótunarvinnu Hringsjár síðasta ár. Undir forystu Hrannar Pétursdóttur stefnumótunarsérfræðings var gerð úttekt á starfi Hringsjár. Hrönn safnaði gögnum og talaði við fyrrverandi og núverandi nemendur, þjónustukaupa, samstarfsaðila og fulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ. Skemmst er frá því að segja að allir voru mjög ánægðir með námið og þótti mjög vel að því staðið. Hringsjá mun halda áfram að sinna sínum helsta markhóp, sem er fólk 18 ára og eldra, sem hefur verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra örðugleika eða annarra áfalla. Vilji er til þess að halda í þá sérstöðu að ekki sé nauðsynlegt að klára ákveðna áfanga til að útskrifast úr náminu. Áhugi er á að bjóða upp á fleiri námsbrautir, en húsnæðið í Hátúni setur starfseminni ákveðnar skorður þar sem það er löngu sprungið. Því stendur yfir leit að hentugra húsnæði þar sem starfsemin rúmast öll á einum stað. Markmið starfsemi Hringsjár er að styðja nemendur til að láta drauma sína rætast og auka lífsgæði þeirra.
Ein fyrirspurn barst varðandi nemendafjölda á 1. önn og hversu marga nemendur væri hægt að taka inn. Helga svaraði því til að hægt væri að taka inn að hámarki 25 nemendur sem skýrist að mestu leyti vegna húsnæðisskorts.
Brynja leigufélag ses. (f)
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju, flutti framsögu og fjallaði m.a. um rekstur Brynju og þau verkefni sem Brynja sinnir. Brynja er sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri með sterkan efnahag og eignasafn upp á ríflega 850 íbúðir. Tilgangur félagsins er einfaldur, að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Lögð er áhersla á hagkvæmt leiguverð.
Fasteignasafnið er verðmætasti hluti eignasafns Brynju og nam það 31 milljarði króna í lok árs 2021. Eigið fé félagsins var 24 milljarðar í lok árs 2021, sem er góður vitnisburður um að haldið hafi verið vel á spöðunum.
Ný stjórn Brynju hefur skilgreint breyttar áherslur varðandi uppbyggingu á eignasafni félagsins og er stefnt á stækkun þess, það er kaup á um 320 íbúðum á næstu 5 árum og er áhersla lögð á að nýta stofnframlög ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingarinnar. Til að tryggja fyrirsjáanleika í rekstrinum hefur Brynja gert stefnumarkandi samkomulag við verktaka og óhagnaðardrifin leigufélög og langtímaleigusamninga við sveitarfélög. Það skilar meiri fyrirsjáanleika varðandi kaup og afhendingu íbúða auk þess að tryggja félagslega blöndun.
Helstu áskoranir í rekstri Brynju eru:
- Opnun biðlista, gera ráð fyrir miklum fjölda fólks sem mun skrá sig á biðlista fyrir leiguíbúðum.
- Miklar hækkanir á fasteignamarkaði, sem er drifinn áfram af lágum vöxtum og mikilli umframeftirspurn.
- Aukin verðbólga.
- Verðtryggðir vextir.
Fundarstjóri bauð umræður. Þó nokkrar fyrirspurnir bárust, flestar varðandi fjölgun íbúða á komandi árum, fjármögnun á þeim og leiguverð. Áhyggjur voru hvort leiguverð hækki samhliða fjölgun íbúða á lánum. Framkvæmdastjóri svaraði því til að leigusamningar og leiguverð hefur ekki hækkað samhliða kaupum á nýjum íbúðum og því þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hækkun leiguverðs. Einnig var spurt út í hvort kæmi til greina að frysta leiguverð hjá Brynju og sýna fordæmi fyrir önnur leigufélög. Framkvæmdastjóri svaraði því til að það hefði komið til umræðu og þyrfti að skoða betur og gera á mjög hóflegan hátt. Loks var spurt hvort það verði stuðningur til breytinga hjá núverandi leigjendum Brynju ef þeir lenda í óvæntum aðstæðum. Framkvæmdastjóri svaraði því til að notast er við svokallað bráðaúrræði, þ.e. tímabundið húsnæðisúrræði á meðan fólk vinnur úr sínum málum.
Stefna og starfsáætlun stefnuþings (5)
Vegna covid náðist ekki að halda stefnuþing árið 2020. Stefnuþing var því haldið 2021 og til að ná aftur réttum takti var eins dags stefnuþing haldið 1. apríl 2022. Næsta stefnuþing verður haldið árið 2024. Lögð var fram tillaga stefnuþings til aðalfundar (fskj. nr. 15) og hljóðar hún svo:
Gildistími framtíðarsýnar og meginmarkmiða verði til ársins 2030.
Fundarstjóri bauð upp á umræður um tillöguna. Engar urðu þannig að gengið var til kosninga. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Ákvörðun aðildargjalda (6)
Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt fyrir árið 2023, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).
Fundarstjóri tilkynnti jafnframt að ef engin mótmæli væru liti fundarstjóri svo á að tillagan væri samþykkt. Engin mótmæli voru og telst því tillagan samþykkt samhljóða.
Þóknun fyrir stjórnarsetu (7)
Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):
Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári:
- Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.
- Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
- Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins.
Fundarstjóri boðaði til kosninga. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Kl. 18:45 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 8. október 2022.
Laugardagur 8. október 2022 – fundi framhaldið
Kosningar í stjórn
Fundarstjóri bauð Alberti Ingasyni, fulltrúa kjörnefndar, að koma upp og segja frá starfi nefndarinnar.
Yfirlit yfir aðalfundarfulltrúa var sent út í fundargögnum og liggur á borðum fundarmanna í sal (fskj. nr. 7) ásamt yfirliti yfir framboð (fskj. nr. 8).
Formaður (8)
Kosið verður 2023.
Varaformaður (9)
Bergþór Heimi Þórðarson, ADHD samtökunum gaf kost á sér í embættið (fskj. nr. 9). Ekki bárust fleiri framboð og því var Bergþór sjálfkjörinn varaformaður ÖBÍ.
Gjaldkeri (10)
Jón Heiðar Jónsson, Sjálfsbjörg lsh. gaf kost á sér í embættið (fskj. nr. 10). Ekki bárust fleiri framboð og því var Jón Heiðar sjálfkjörinn gjaldkeri ÖBÍ.
Formenn fastra málefnahópa (11)
Kosið verður 2023.
Stjórnarmenn (12)
Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna til tveggja ára. Átta höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 11 a-h).
Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:
- Eiður Welding, CP félaginu (79%)
- Fríða Bragadóttir, Samtök sykursjúkra (74,2%)
- Guðni Sigmundsson, Sjálfsbjörg lsh. (44,4%)
- Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Nýrnafélaginu (77,4%)
- Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín, MS félagi Íslands (62,9%)
- María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg lsh. (42,7%)
- Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson, Blindrafélaginu (77,4%)
- Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra á Íslandi (69,4%)
Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2022-2024:
Eiður Welding, Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Sigþór Hallfreðsson, Fríða Bragadóttir, Snævar Ívarsson, Ingibjörg Hagalín og Guðni Sigmundsson.
Varamenn (13)
Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna til tveggja ára. Þrír höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 12 a-c). Eitt framboð til viðbótar barst á fundinum og samþykkti fundurinn framboðið samhljóða.
Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:
- Erla Hlynsdóttir, Tourette-samtökunum (28,31%)
- María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg Ish. (18,15%)
- Óskar Guðmundsson, Einhverfusamtökunum (20,92%)
- Sigríður Halla Magnúsdóttir, Samtökum um endómetríósu (32,31%)
Þessi hlutu kosningu til setu sem varamenn í stjórn ÖBÍ 2022-2024:
- Sigríður Halla Magnúsdóttir, Erla Hlynsdóttir og Óskar Guðmundsson.
Aðrar kosningar til tveggja ára (kosið 2023)
Kjörnefnd (14)
Laganefnd (15)
Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)
Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál
Lagabreytingar (17)
Teknar voru til afgreiðslu tillögur laganefndar til breytinga á lögum ÖBÍ (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 13 og lagabreytingar í fskj. nr. 14 a-d).
Formaður laganefndar, Herbert Snorrason, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar. Tilgangur lagabreytinga í ár var að koma í veg fyrir misskilning og samræma lög ÖBÍ lögum um félög til almannaheilla.
Fundarstjóri útskýrði fyrirkomulag kosninga. Hver liður yrði borinn upp til kosninga og í framhaldinu yrði tillagan í heild borin upp til samþykktar. Einfaldur meirihluti réði úrslitum.
Formaður laganefndar kynnti 1. tillögu, sem er breyting á orðalagi í tengslum við lög um félög til almannaheilla (fskj. nr. 14a).
Breyting á 9. grein um aðalfund:
a) Í stað heitisins „Almennt ákvæði“ mun greinin heita „Fundarboðun og aðalfundur“.
b) Orðin „að lágmarki“ bætast inn í 3. málslið.
c) 3. og síðasti málsliður færast framar og verða að 1. og 2. málslið.
d) Við greinina bætist nýr 3. málsliður „Fari fundur fram að hluta eða alfarið um fjarfundarbúnað skal þess getið í fundarboði. Þá skal þess einnig getið ef aðrar reglur gilda um þátttakendur á fjarfundi en um þá sem eru á staðnum.“
e) Setningin „Stjórn boðar til fundarins og skal hann boðaður með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með bréfi til allra aðildarfélaga.“ verður „Stjórn boðar til fundarins með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með sannanlegum hætti.“
Fundarstjóri bauð upp á umræður um lagabreytingartillögu. Ein fyrirspurn barst varðandi þátttakendur á fjarfundi og nokkrar umræður urðu um hana. Í kjölfarið lagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður Alzheimersamtakanna fram skriflega breytingartillögu á 4. málslið (fskj. 18). Setningin „Þá skal þess einnig getið ef aðrar reglur gilda um þátttakendur á fjarfundi en um þá sem eru á staðnum.“ verði:
„Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.“
Fundarstjóri bauð umræður um breytingatillöguna en engar urðu. Gengið var til atkvæða. Breytingartillagan var samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri bauð umræður um lagabreytinguna með áorðnum breytingum. Einn fundargesta lýsti yfir óánægju sinni með tillöguna og kvað hana ýta undir mismunun. Gengið var til kosninga og var tillagan samþykkt með þorra atkvæða.
9. gr. hljóðar svo eftir samþykktina:
- gr. Fundarboðun og aðalfundur
Fundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og að lágmarki helmingur boðaðra fundargesta viðstaddur. Fundarstað og fundartíma skal tilgreina í fundarboði. Fari fundur fram að hluta eða alfarið um fjarfundarbúnað skal þess getið í fundarboði. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Fundinn skal halda í október ár hvert. Stjórn boðar til fundarins með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með sannanlegum hætti.
Formaður laganefndar kynnti 2. tillögu í 3 liðum sem ætlað er að lagfæra orðalag í tengslum við lög um félög til almannaheilla (fskj. nr. 14b)
1. liður. Breyting á 2. málsgrein 14. greinar um lagabreytingar.
Hlutfallið „⅔“ breytist í „¾“.
2. liður. Breyting á 1. málsgrein 17. greinar um aukaaðalfund.
Orðið „þriðjungur“ í 2.málslið verður „tíundi hluti“.
1. liður. Breyting á 28. grein um slit bandalagsins.
Hlutfallið „⅔“ breytist í „¾“.
Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en engar urðu. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Formaður laganefndar kynnti 3. tillögu, í 3 liðum, sem ætlað er að lagfæra orðalag í tengslum við lög um félög til almannaheilla.
1. liður. Breyting á 2. málsgrein 6. greinar um réttindi og skyldur aðildarfélaga.
Orðið „sbr. 25. gr.“ fellur niður.
2. liður. Breyting á heiti og viðbót við 25. grein um tekjur bandalagsins.
a) Við bætast orðin „“og ráðstöfun þeirra“.
b) Eftirfarandi texti kemur nýr inn sem 1. málsgrein „Reglulegar tekjur bandalagsins koma frá tengdum atvinnurekstri sem stuðlar að markmiðum bandalagsins, Íslenskri getspá, útleigu húsnæðis og aðildargjöldum.“
c) Orðið „og“ fellur út í 1. málslið og kemur „.“ í staðinn.
d) Síðasta setning núgildandi málsgreinar fellur út „Aðalfundur ákveður aðildargjöld félaganna.“
Fundarstjóri opnaði fyrir spurningar og umræður varðandi tillögu 3. Nokkrar fyrirspurnir bárust sem formaður laganefndar svaraði. Gengið var til kosninga og tillagan samþykkt samhljóða.
Formaður laganefndar kynnti 4. tillögu, í 3 liðum, sem unnin var að beiðni stjórnar ÖBÍ.
1. liður. Breyting á 1. málslið 1. og 3. málsgreinar 18. greinar A um kosningu og hlutverk stjórnar.
a) Orðið „fimm“ í 1. málslið 1. málsgreinar breytist í „sex“.
b) Orðið „ellefu“ í 1. málslið 1. málsgreinar breytist í „tíu“.
c) Orðið „fjóra“ í 1. málslið 3. málsgreinar breytist í „þrjá“.
2. liður.Breyting á 1. málslið 1. málsgreinar 23. greinar um málefnahópa.
-
- Orðið „fimm“ í 1. málslið 1. málsgreinar breytist í „sex“.
3. liður.Tímabundið ákvæði bætist við 23. grein um málefnahópa.
-
- Ákvæðið hljóðar svo: „Þar til formaður sjötta málefnahópsins hefur verið kosinn á aðalfundi eftir almennum ákvæðum laganna skal hann hafa sömu stöðu í stjórn ÖBÍ og starfandi formaður fasts málefnahóps.“
Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en engar urðu. Gengið var til kosninga og lagabreytingin var samþykkt samhljóða.
Gengið var til kosninga um lögin í heild sinni með áorðnum breytingum. Lögin voru samþykkt samhljóða.
Aðildarumsóknir (18)
Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.
Ályktanir aðalfundar (19)
Ein ályktun barst fyrir fundinn og kynnti formaður ÖBÍ hana (fskj. nr. 16). Ályktunin er svohljóðandi:
Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2022
Aðalfundur ÖBÍ lýsir þungum áhyggjum af vaxandi framfærsluvanda fatlaðs fólks og skorar á stjórnvöld að hækka örorkulífeyri, draga úr skerðingum vegna atvinnuþátttöku og hækka tekju- og eignamörk.
Lágtekjuvandi fatlaðs fólks hefur lengi verið ærinn, en í verðbólgu sem nú geisar er staðan orðin grafalvarleg. Lífeyrir er allt of lágur og hvati til atvinnuþátttöku lítill. Brotið er á mannréttindum fatlaðs fólks, sem býr við algjöran framfærsluvanda. Það sést meðal annars á því að fatlað fólk er nú 42% þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara og hefur fjölgað hratt í þeim hópi frá 2019.
Við krefjumst þess að það sem út af hefur borið síðustu áratugi verði leiðrétt. Ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmálanum að endurskoða eigi málefni fatlaðs fólks með það að markmiði að bæta lífskjör þess og lífsgæði, afkomu og möguleika til atvinnuþátttöku. Þetta eru falleg orð en nú þarf aðgerðir sem bæta stöðuna strax
– fatlað fólk getur ekki beðið lengur!
ÖRLÖGIN eru í ykkar höndum stjórnvöld
Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Ein ábending barst þess efnis að inn í tillöguna vantaði einstæða foreldra á örorkulífeyri.
Gengið var til kosninga og ályktunin samþykkt samhljóða.
Önnur mál (20)
A
Bergþór Heimir Þórðarson varaformaður lagði fram tillögu um nýjan fastan málefnahóp ÖBÍ (fskj. nr. 17).
Tillaga um nýjan fastan málefnahóp ÖBÍ fyrir aðalfund 2022:
Á þessum aðalfundi var tillaga til lagabreytingar um að fjölga föstum málefnahópum ÖBÍ úr fimm hópum í sex samþykkt.
Af því tilefni er hér með lagt til að málefnahópur um málefni barna sem skipaður var sem tímabundinn málefnahópur af stjórn verði gerður að föstum málefnahópi.
Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Fyrirspurnir bárust varðandi mönnun hópsins og hvort að breyta þyrfti ályktun stefnuþings í kjölfarið á samþykkt tillögunnar. Bergþór svaraði því til að málefnahópurinn væri fullmannaður og kæmi skýrt fram í ályktun stefnuþings.
Tillagan var borin upp og samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.
B
Jóhann Guðvarðarson frá Gigtarfélaginu bað um orðið og óskaði nýkjörnum stjórnarmönnum til hamingju með kjörið. Benti hann á að ræða þyrfti lyfjaskort í landinu innan stjórnar ÖBÍ.
C
Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélaginu greindi frá því að ekki væri skýrt fyrir aðildarfélögin hverjir gætu átt aðild að ÖBÍ og hvernig hægt væri að ganga í ÖBÍ. Nauðsynlegt væri að setja skýran ramma um hvernig eigi að afgreiða aðildarumsóknir.
D
Áslaug Ýr Hjartardóttir frá Fjólu vildi vekja athygli á því að sumir fundarmenn væru blindir, heyrnarlausir eða með aðra fötlun sem gerði það að verkum að þeir þyrftu meiri tíma til að ná því sem fram færi. Mikilvægt væri að flýta sér ekki á aðalfundi.
E
Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra benti á mikilvægi almennilegs háborðs þannig að það sæist vel hver væri í púlti. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður svaraði og sagði að á þessum fundi hefði verið ákveðið að hafa ekki háborð á palli. Á næsta aðalfundi verður pallur.
Fundarstjórar þökkuðu fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.
Fundarlok
Formaður þakkaði aðalfundarfulltrúum fyrir fundarsetuna og bauð nýtt fólk hjartanlega velkomið til starfa. Um leið þakkaði hún fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf og óskaði þeim velfarnaðar og kvaðst hlakka til að sjá þau áfram í baráttunni. Þá þakkaði formaður fundarstjórum og fundarriturum fyrir góð störf sem og starfsfólki ÖBÍ. Að lokum hvatti hún félaga til þess að vera stórhuga, leiða breytingar, vera breytingin og halda áfram góðum störfum.
Formaður sleit fundi kl. 12:47.
Fylgiskjöl:
1. Dagskrá aðalfundar ÖBÍ 7. og 8. október 2022
2. Ársskýrsla ÖBÍ 2021 til 2022
3. Ársreikningur ÖBÍ 2021
4. Ársreikningur fyrirtækja 2021
a) Brynja Hússjóður Öryrkjabandalagsins
b) Örtækni
c) Hringsjá
d) Fjölmennt
5. Ákvörðun aðildargjalda
6. Þóknun fyrir stjórnarsetu
7. Listi yfir aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ
8. Yfirlit yfir framboð til embætta 2022
9. Kynning frambjóðanda til varaformanns (1)
10. Kynning frambjóðanda til gjaldkera (1)
11. a) til h) Kynningar frambjóðenda til stjórnar (8)
12. a) til c) Kynningar frambjóðenda til varamanna stjórnar (3)
13. Lög Öryrkjabandalags Íslands samþykkt 16. október 2021
14. a) til d) Lagabreytingatillögur laganefndar (4)
15. Tillaga stefnuþings til aðalfundar ÖBÍ 2022
16. Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2022
17. Tillaga um 6. fasta málefnahóp ÖBÍ
18. Tillaga Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um breytingu á 9. gr. laga ÖBÍ
(Kynningum frambjóðenda er raðað eftir stafrófsröð ef framboð eru fleiri en eitt)