Skip to main content

Styrkir til aðildarfélaga

ÖBÍ leggur árlega fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum lið með fjárframlagi. Bandalagið styður þannig rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks.

Styrkir til aðildarfélaga

Aðildarfélög ÖBÍ geta sótt árlega um styrki til grunnreksturs og sérgreindra verkefna. Styrkir til grunnreksturs eru háðir því að félagið uppfylli þrjú af fimm skilyrðum sem talin eru upp í reglum um úthlutun styrkja. Við úthlutun styrkja til sérgreindra verkefna er tekið tillit til mætingar á formannafund og aðalfund ÖBÍ.

Sjá nánari skilyrði í reglum um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ hér fyrir neðan.

Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur

Styrkir úr Námssjóði Sigríðar Jónsdóttur eru veittir árlega til fatlaðs fólks, sem nýta hann m.a. til háskólanáms, námskeiða eða annarrar menntunar. Sjóðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir þá sem geta ekki sótt um styrk til stéttarfélags. Stjórn námssjóðsins hefur að leiðarljósi lengd náms, námskostnað og fleira þegar styrkir eru veittir.

Sjá nánari upplýsingar um sjóðinn.

Reglur um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ

Reglur um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ

Til þess að félag geti sótt um styrk til starfsemi sinnar skal það halda félagaskrá.

Trúnaðarmaður sem skipaður er sameiginlega af viðkomandi félagi og stjórn ÖBÍ hefur heimild til að sannreyna félagaskrána.

Umsóknum um styrki til ÖBÍ skal skila á því umsóknareyðublaði sem ÖBÍ tilgreinir ásamt öllum þeim fylgigögnum sem þar eru tilgreind.

Styrkir ÖBÍ til aðildarfélaga eru eftirfarandi:

  1. Styrkir til grunnreksturs (sími, tölvukostnaður, heimasíða, ritföng, hefðbundin fundahöld með félagsmönnum o.fl.):

Félög geta sótt um rekstrarstyrki samkvæmt eftirfarandi:

a) Grunnupphæðir rekstrarstyrkja eru miðaðar við launavísitölu í desember 2021.

b) Eins og kemur fram í almennum ákvæðum um styrki þessa skal heildarupphæð rekstrarstyrkja þó vera að lágmarki 40% af því fé sem stjórn hefur ákveðið að fari í styrki til aðildarfélaga ÖBÍ í fjárhagsáætlun bandalagsins fyrir árið. Upphæð styrkja innan hvers flokks skulu hækka hlutfallslega svo heildarupphæðin nái 40% markinu.

Á árinu 2022 skulu þær upphæðir vera sem hér segir:
1) Félög með 500 félagsmenn eða færri     1.050.000
2) Félög með 501-1000 félagsmenn            1.400.000
3) Félög með 1001-2000 félagsmenn          2.100.000
4) Félög með 2001-4000 félagsmenn          2.800.000
5) Félög með yfir 4000 félagsmenn             3.500.000

Styrkir til grunnreksturs eru háðir því að félagið uppfylli þrjú af eftirfarandi skilyrðum:

  • Reki skrifstofu með auglýstan opnunartíma eða hafi opinn síma.
  • Hafi launaðan starfsmann í fullu eða hlutastarfi (verktaki). Getur verið starfsmaður sem er samnýttur af fleiri félögum.
  • Hafi virka heimasíðu.
  • Gefi út tímarit eða fræðsluefni, prentað eða á vefnum.
  • Haldi fundi og námskeið fyrir félagsmenn.
  1. Styrkir til sérgreindra verkefna eða vegna stórra verkefna tengdum rekstri:

Félög geta sótt um styrki fyrir sérstök verkefni, svo sem fundi og ráðstefnur bæði innanlands og utan; kaup áhalda og tækja; útgáfu afmælisrits eða annarra sérstakra ritverka; átaksverkefna ýmis konar o.fl. Ekki eru veittir styrkir vegna viðhalds eða byggingar húsnæðis né vegna reglulegrar starfsemi félagsins eða þjónustu sem opinberum aðilum er skylt að veita eða vegna verkefna sem bundin eru þjónustusamningum við opinbera aðila.

Hámarksstyrkur til sérgreindra verkefna er 4,4 milljónir króna. Félög geta einungis fengið hámarksstyrk tvö ár í röð.

Við úthlutun styrkja til sérgreindra verkefna skal taka tillit til eftirfarandi:

Mætingar fulltrúa félagsins á formannafundi ÖBÍ (50% mæting telst fullnægjandi) og mæting á aðalfund ÖBÍ (50% mæting telst fullnægjandi).

  1. Viðbótarstyrkir vegna góðrar afkomu ÖBÍ

Heildarupphæð og úthlutunardagur viðbótarstyrkja ÖBÍ er ákveðin af stjórn ÖBÍ hverju sinni og ekki er nauðsynlegt fyrir aðildarfélögin að skila inn sérstakri umsókn um þá.  Viðbótarstyrkjum ÖBÍ skal úthluta í réttu hlutfalli við fjölda mættra aðalfundarfulltrúa hvers aðildarfélags, að því gefnu að öll skilyrði styrkveitingar hafi verið uppfyllt.

Stjórn ÖBÍ getur haft eftirlit með því að styrk fyrra árs hafi verið varið í samræmi við umsókn og getur hafnað styrkveitingu eða lækkað styrki hafi svo ekki verið.

Almenn ákvæði:

Það fé sem kemur til úthlutunar skv. töluliðum 1 og 2 að ofan er ákveðið með fjárhagsáætlun ÖBÍ hverju sinni. Fyrst er úthlutað styrkjum til grunnreksturs sem skulu að lágmarki nema 40% af heildarfjárhæðinni en afgangur fjárhæðarinnar gengur til úthlutunar í styrki til sérgreindra verkefna.

Auglýst skal eftir styrkjum skv. ofangreindum töluliðum fyrir lok janúar ár hvert og skal umsóknum skilað í síðasta lagi 4 vikum síðar.

Framkvæmdaráð skal gera tillögu um úthlutun styrkja í samræmi við samþykktar verklagsreglur og kynna hana fyrir stjórn.

Þegar úthlutun styrkja er kynnt fyrir stjórn ÖBÍ skulu styrkfjárhæðir sundurliðaðar eins og í töluliðum 1 (styrkir til grunnreksturs) og 2 (styrkir til sérgreindra verkefna) fyrir hvert félag og greina skal frá tilefnum styrkja til sérgreindra verkefna.

Útborgun styrkja er ekki heimil fyrr en umsækjandi hefur skilað ársreikningi fyrra árs, undirrituðum af meirihluta stjórnar og skoðunarmönnum reikninga, ásamt ársskýrslu. Styrkir sem ekki eru sóttir innan þess almanaksárs sem þeim er úthlutað á falla niður, en stjórn ÖBÍ getur veitt undanþágu frá þessu skilyrði ef hún telur ríka ástæðu til.

Framkvæmdaráð skal setja skriflegar verklagsreglur um ákvörðun styrkja, s.s. lágmarkstíma sem meðlimir framkvæmdaráðs hafa til að kynna sér umsóknir, framlagningu tillagna hvers og eins á ákvörðunarfundum og úrvinnslu. Viðmið framkvæmdaráðs skal kynna fyrir stjórn á formlegum fundi og bera upp til samþykktar.

Reglur þessar skal endurskoða þegar stjórn telur tilefni til en upphæðir grunnstyrkja (sbr. lið 1. a.) hækki árlega í samræmi við  launavísitölu.

Samþykkt svo breytt á stjórnarfundi ÖBÍ 27. janúar 2022.