ÁHERSLUMÁL ÖBÍ

Samfélag fyrir alla

Íslendingar ganga að kjörborðinu 29. október næstkomandi og kjósa til Alþingis. Öryrkjabandalag Íslands vill leggja sitt af mörkum til umræðunnar í aðdraganda þeirra kosninga og tala beint til kjósenda sem og frambjóðenda.

Á vettvangi ÖBÍ starfa fimm málefnahópar þar sem fjallað er um aðgengi, atvinnu og menntun, heilbrigði, kjaramál og sjálfstætt líf. Þessir hópar hafa sett neðangreind baráttumál á oddinn. ÖBÍ leggur áherslu á að sú ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum taki þessi mál upp á sína arma og tryggi að þau fái brautargengi.

 

Málefnahópur um aðgengismál 

 • Áhersla verði lögð á að byggt verði aðgengilega á Íslandi. Standa vörð um ákvæði um algilda hönnun í byggingarreglugerð. Aðgengiseftirlit verði komið á. Settar verði heimildir í lög fyrir slökkviliðin að sinna eftirlitinu samhliða brunaeftirliti.
 • Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk verði bætt. Þannig verði tryggt að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða en í dag eru brotalamir á þjónustunni og hún jafnvel bundin aldri, sem hefur verið úrskurðað að stangist á við lög.
 • Áhersla á meiri textasetningu á sjónvarpsefni, lögfest verði að allt íslenskt efni skuli vera textað. 

 

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál 

 • Hvatningakerfi (vottun eða skattaívilnun) verði tekið upp fyrir fyrirtæki og stofnanir sem hafa ákveðið hlutfall starfsmanna með skerta starfsgetu. Markmiðið er að auka framboð á hlutastörfum fyrir örorkulífeyrisþega sem margir hverjir geta unnið hlutastörf.
 • Stofnaður verði sérstakur lánasjóður til að stuðla að sjálfstæðum atvinnurekstri fólks með skerta starfsgetu. Afborganir verði greiddar samkvæmt innkomu. Eykur atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og gerir fólki kleift að nýta menntun sína og hæfileika.
 • Fylgt sé lögbundinni þjónustu gagnvart nemendum með sérþarfir og tryggð verði jöfn tækifæri til náms óháð tekjum og stöðu.

 

Málefnahópur um heilbrigðismál 

 • Heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls, fyrst fyrir börn, langveika og öryrkja sem hafa lítið til framfærslu.
 • Hafa í forgangi að viðgerðarþjónusta vegna hjálpartækja verði opin allan sólarhringinn allan ársins hring. Hægt verði að hringja í neyðarnúmer hvenær sem er.
 • Fé verði lagt í að styrkja heilsugæsluna enn frekar.

 

Málefnahópur um kjaramál

 • Hækkun örorkulífeyris almannatrygginga. Örorkulífeyrisþegar verði ekki með lægri tekjur en 390.250 krónur á mánuði í janúar 2017.
 • Dregið verði verulega úr tekjuskerðingum – forgangsatriði að taka út króna-á-móti-krónu skerðingu.
 • Persónuafsláttur á mánuði verði hækkaður í 115.000 krónur til að tryggja að tekjur undir 310.000 krónum á mánuði verði ekki skattlagðar.

  

Málefnahópur um sjálfstætt líf

 • Réttur til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, NPA, verði tryggður með lögum/lögfestur.
 • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði lögfestur.
 • Meira fjármagni verði varið til samskiptamála, þar á meðal til táknmálstúlkaþjónustu.

 

Jafnt aðgengi að samfélaginu Atvinnutækifæri fyrir alla Heilbrigðisþjónusta er mannréttindi Burt með fátækrargildrur Fólk ráði lífu sínu sjálft