Lestur SRFF - 11. til 20. gr.

11. gr.

Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum
vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.

12. gr.

Réttarstaða til jafns við aðra.

1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi alls staðar rétt á viðurkenningu sem aðilar að lögum.

2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.

3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að þeim stuðningi sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að allar aðferðir og stuðningur, sem tengist beitingu gerhæfis, feli í sér viðeigandi og árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun samanber ákvæði í alþjóðlegum mannréttindalögum. Slíkar verndarráðstafanir skulu tryggja að aðferðir og aðstoð tengd beitingu gerhæfis virði réttindi, vilja og óskir viðkomandi einstaklings, að slíkar aðferðir og aðstoð leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi í för með sér ótilhlýðileg áhrif, þær séu í samræmi við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála. Verndarráðstafanirnar skulu vera í samræmi við þau áhrif sem slíkar aðferðir og aðstoð hafa á réttindi og hagsmuni viðkomandi einstaklings.

5. Í samræmi við ákvæði þessarar greinar skulu aðildarríkin gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annarri fjárhagslegri fyrirgreiðslu, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum að geðþótta.

13. gr.

Aðgangur að réttarkerfinu.

1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.
 
2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.

14. gr.

Frelsi og mannhelgi.

1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk til jafns við aðra:

a) njóti réttar til frelsis og mannhelgi,

b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða að geðþótta og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.

2. Sé fatlað fólk svipt frelsi með einhverjum hætti skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og það hljóti meðferð sem samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

15. gr.

Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.

1. Enginn skal sæta pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræðilegar eða vísindalegar tilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar.

2. Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og innan réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að koma í veg fyrir að fatlað fólk, jafnt og aðrir, sæti pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu.

16. gr.

Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsog menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, meðal annars með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.

2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, meðal annars með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun.

3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með öllum úrræðum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.

4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri aðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og aðlögun skal fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, mannlegri reisn og sjálfræði fólksins, þar sem tillit er tekið til sérþarfa þeirra miðað við kyn og aldur.

5. Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, þar með talið löggjöf og stefnu þar sem tilllit er tekið til sérstakra þarfa kvenna og barna til þess að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, sem beinast gegn fötluðu fólki, og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

17. gr.

Verndun friðhelgi einstaklingsins.

Allt fatlað fólk á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi þess sé virt.

18. gr.

Umferðarfrelsi og ríkisfang.

1. Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til umferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og rétt til ríkisfangs, meðal annars með því að ábyrgjast að fatlað fólk:

a) hafi rétt til að öðlast ríkisfang og breyta því og sé ekki svipt ríkisfangi sínu að geðþótta eða vegna fötlunar,

b) sé ekki, vegna fötlunar, svipt rétti sínum til að fá, hafa umráð yfir og nýta sér skjöl um ríkisfang sitt eða önnur auðkenningarskjöl eða til að hagnýta viðeigandi verklag, t.d. málsmeðferð vegna innflytjendamála, sem kann að vera nauðsynlegt til þess að gera því auðveldar um vik að nýta sér réttinn til umferðafrelsis,

c) hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið,

d) sé ekki, af geðþótta eða vegna fötlunar, svipt réttinum til að koma til síns eigin lands.

2. Fötluð börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og eiga frá fæðingu rétt til nafngiftar, rétt til þess að öðlast ríkisfang og, eftir því sem unnt er, rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.

19. gr.

Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og með sömu valkosti og aðrir og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks og til fullrar þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:

a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,

b) að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar félagsþjónustu, s.s. aðstoð inni á heimili og í búsetuúrræðum og öðrum stuðningi til samfélagsþátttöku, meðal annars persónulegan stuðning sem er nauðsynlegur til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,

c) að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þeirra.

20. gr.

Ferlimál einstaklinga.

Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því:

a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi,

b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að hjálpartækjum í háum gæðaflokki og annarri persónulegri þjónustu, meðal annars með því að hafa þau tiltæk á viðráðanlegu verði,

c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlað fólk og sérhæft starfslið sem vinnur með fötluðu fólki,

d) að hvetja framleiðendur hjálpartækja til þess að horfa til allra möguleika fatlaðs fólks til að fara sinna ferða.

 Hlé á lestri. Til að hlusta áfram smelltu hér