Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

 • Hvað er Samningurinn?

  Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Í samningnum segir:

  „Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“

  Réttindi eru nánar afmörkuð í einstökum greinum samningsins.

  Ítarlega er fjallað um Samninginn hér á vef ÖBÍ.

 • Hvers vegna var gerður sérstakur alþjóðasamningur um réttindi fatlaðs fólks?

  Allir einstaklingar eru jafnir fyrir lögum og eiga sama tilkall til allra mannréttinda. Með samningnum er viðurkennt að fatlað fólk hefur ekki haft sömu tækifæri og aðrir í gegnum tíðina. Aðildarríkin viðurkenna þessa staðreynd og heita því að vinna að bættum hag og bættum rétti fatlaðs fólks.

  Eins og segir í samningnum sjálfum:

  „Aðildarríkin viðurkenna að öll erum við jöfn fyrir lögum og eigum rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

  Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.“

  Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur. Með honum er leitast við að ná jöfnum rétti og jöfnum tækifærum allra óháð fötlun. Samningurinn hefur nú þegar haft víðtæk áhrif á rétt fatlaðs fólks í aðildarríkjum samningsins.

 • Hvert er markmiðið með samningnum?

  Í fyrstu grein samningsins segir að markmiðið með SRFF sé:

  „Að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.“

  Orðin efla, verja og tryggja fela í sér skyldur ríkjanna. Þessi orð fela að sama skapi í sér ákveðinn greiningarlykil til þess að meta hvort ríki standi við skuldbindingar sínar.

 • Hver eru grundvallaratriði samningsins?

  Við lestur á ákveðnum greinum samningsins er mikilvægt að hafa í huga ákveðin grundvallaratriði og meginreglur samningsins. Þar er kveðið á um:

  a. virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga.

  b. bann við mismunun.

  c. fulla samfélagsþátttöku allra í einu samfélagi fyrir alla.

  d. virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og mannlegum margbreytileika.

  e. jöfn tækifæri.

  f. aðgengi.

  g. jafnrétti á milli karla og kvenna.

  h. virðingu fyrir getu fatlaðra barna og virðingu fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

  Þegar reynir á skýringu á samningnum skal litið til þessara grundvallarreglna.

 • Hvað er viðeigandi aðlögun?

  Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur. Allir eru jafnir fyrir lögum og bannað er að mismuna á grundvelli fötlunar. Eitt af grundvallarhugtökum samningsins er „viðeigandi aðlögun“. Í samningnum segir:

  „„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.“

  Í samningnum segir einnig að það teljist til mismununar að neita fötluðu fólki um viðeigandi aðlögun.