Búsetuskerðingar

Hér má finna grunnupplýsingar um búsetuskerðingarmálið ásamt spurningum og svörum við ýmsum álitaefnum og fyrirspurnum sem borist hafa Öryrkjabandalagi Íslands. Álit umboðsmanns Alþingis varðar útreikningsreglu hjá TR fyrir búsetuhlutfall þeirra sem voru búsettir í landi innan EES áður en þeir fengu örorkumat. Það er önnur útreikningsregla fyrir öryrkja sem bjuggu í landi utan EES fyrir fyrsta örorkumat. Niðurstaðan úr þeirri útreikningsreglu er mun hærri miðað við sömu forsendur. Grundvöllur málsins er sá að fullar greiðslur miðast við 40 ára búsetu hér á landi þegar einstaklingar eru á milli 16-67 ára. Regla laga um almannatryggingar segir að þegar einstaklingar hafa ekki náð 67 ára aldri, þá skuli bæta öllum árum við eins og búsetan hafi verið hér á landi. Þessari reglu hefur ekki verið framfylgt hér á landi, nema í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa verið búsettir innan ríkis sem er utan EES. Nánari upplýsingar hér á vef ÖBÍ.

 • Ég bjó í Danmörku áður en ég fékk örorkumat hérna heima, á þetta við um mig?

  Álitið nær til örorkulífeyrisþega sem fá hlutfallslegar greiðslur vegna fyrri búsetu í löndum innan EES. Það nær því ekki til þeirra sem hafa verið búsettir í löndum utan EES fyrir örorkumat.

 • Hvað er "búsetuskerðingarmálið"?

  Álit umboðsmanns Alþingis varðar útreikningsreglu hjá TR fyrir búsetuhlutfall þeirra sem voru búsettir í landi innan EES áður en þeir fengu örorkumat. Það er önnur útreikningsregla fyrir öryrkja sem bjuggu í landi utan EES fyrir fyrsta örorkumat. Niðurstaðan úr þeirri útreikningsreglu er mun hærri miðað við sömu forsendur. Grundvöllur málsins er sá að fullar greiðslur miðast við 40 ára búsetu hér á landi þegar einstaklingar eru á milli 16-67 ára. Regla laga um almannatryggingar segir að þegar einstaklingar hafa ekki náð 67 ára aldri, þá skuli bæta öllum árum við eins og búsetan hafi verið hér á landi. Þessari reglu hefur ekki verið framfylgt hér á landi, nema í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa verið búsettir innan ríkis sem er utan EES. Nánari upplýsingar hér á vef ÖBÍ.

 • Er þetta bara fyrir þá sem búa á Íslandi?

  Hluti hópsins sem álitið nær til býr erlendis, en þessir einstaklingar fengu örorkumat hjá TR þegar þeir bjuggu á Íslandi.

 • Ég var á örorku og lenti í búsetuskerðingum en er núna á ellilífeyri. Á þetta við um mig?

  Já. Sá tími sem þú varst á örorku og lentir í búsetuskerðingum er eitthvað sem ætti að leiðrétta.

 • Ættingi minn varð fyrir búsetuskerðingu en er látinn. Hvað á að gera í þessu tilviki?

  Dánarbúið á kröfu á leiðréttingu vegna búsetuskerðinganna.

 • Hvert á ég að snúa mér með að sækja leiðréttinguna?

  Fólk þarf að snúa sér til Tryggingastofnunar ríkisins, sem ber ábyrgð á málinu og endurgreiðslum.

 • Á þetta bara við um Íslendinga sem búið hafa erlendis?

  Leiðréttingin er óháð ríkisborgararétti, réttindaávinnslan er í gegnum búsetu (lögheimili) á Íslandi.

 • Ef ég bý erlendis?

  Greiðslur skv. lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 eru greiddar úr landi til þeirra sem búa í löndum innan EES. Þessar greiðslur eru: örorkulífeyrir (grunnlífeyrir), aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging og barnalífeyrir. Greiðslur skv. lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 eru ekki greiddar úr landi.

 • Hvenær get ég búist við því að þetta verði leiðrétt?

  TR segir að útreikningar eigi að liggja fyrir um næstu mánaðamót (jan/feb) 2019. Annað er óvíst.