Hér getur þú leitað að einhverju á síðu obi.is,
sláðu inn leitarorðið og leitaðu
Gjaldþrot felur í sér að andvirði eigna þrotamanns er ráðstafað til að greiða skuldir. Ef engar eignir eru til staðar, getur gjaldþrotaskiptum lokið án þess að nokkuð fáist greitt upp í skuldir. Skuldari getur sjálfur krafist skipta á búi sínu eða kröfuhafar.
Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara. Upphæð gjaldþrotaskipta er 250.000 kr. Uppfylla þarf ákveðin lagaleg skilyrði til að fá umsókn samþykkta.
Þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota verður til sérstakur lögaðili, þ.e. þrotabú, sem tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara. Allar eignir og skuldir umsækjanda tilheyra þannig þrotabúinu á meðan gjaldþrotaskiptum stendur. Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar skipar héraðsdómari skiptastjóra sem fer með forræði búsins og tekur skiptameðferð alla jafna nokkra mánuði.
Skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast (falla niður) þegar 2 ár eru liðin frá lokum skiptanna. Kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsnanna nr. 60/2020 undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.
Úrskurður um gjaldþrotaskipti er skráður á vanskilaskrá Creditinfo og hefur áhrif á lánshæfismat um tíma. Viðskiptabanki getur skráð gjaldþrotið í viðskiptasögu viðkomandi sem hefur áhrif á lánshæfni. Erfiðara getur því verið að fá lán, yfirdrátt eða kreditkort eftir gjaldþrot. Kröfuhafar geta hafið innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum og gera það að alla jafna áður en tveggja ára fyrningarfrestur er liðinn.