Skip to main content
Frétt

Aðalfundur ÖBÍ 2019

By 22. janúar 2020No Comments
Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var á Grand hótel Reykjavík, Sigtúni 38, dagana 4. og 5. október 2019

Ávarp formanns – fundarsetning

 
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:12 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Kolbeinn Óttarsson Proppé og Heiða Björg Hilmisdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt með lófataki. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundinn og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.
 

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri óskaði samþykkis fundarins fyrir setu fulltrúa frá Ás, styrktarfélagi, Hugarfari, Nýrri rödd og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, en upplýsingar um þá bárust eftir tilskilinn frest. Var seta þeirra samþykkt.

Fundarstjóri óskaði þá samþykkis fyrir setu fulltrúa úr málefnahópum ÖBÍ. Var það samþykkt og tóku sæti á fundinum María Hauksdóttir fyrir málefnahóp um atvinnu- og menntamál, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir fyrir málefnahóp um heilbrigðismál, Jón Heiðar Jónsson fyrir málefnahóp um aðgengismál, Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín fyrir málefnahóp um sjálfstætt líf og Svavar Kjarrval úr stjórn ÖBÍ.

Óskað var samþykkis fyrir setu tveggja áheyrnarfulltrúa Kvennahreyfingar ÖBÍ, þær Margéti Lilju Aðalsteinsdóttur og Jenný Pétursdóttur, og eins áheyrnarfulltrúa Ungliðahreyfingar ÖBÍ, Andra Valgeirssonar. Var seta þeirra samþykkt.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2018-2019. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-29) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Barátta er orð ársins en þrátt fyrir að engir stórir sigrar hafi unnist þá varð ákveðin vitundarvakning meðal verkalýðsfélaga sem var sannarlega sigur. Baráttan heldur því áfram, ÖBÍ vill eiga samtal og samráð við stjórnvöld og hafa áhrif á mál sem varða fatlað og langveikt fólk.

Mikill tími starfsársins fór í kjarabaráttu. Lengi hefur verið unnið að því að fá stjórnvöld til þess að afnema krónu á móti krónu skerðinguna á sérstöku uppbótinni vegna atvinnutekna. Í júní 2019 lagði félags- og barnamálaráðherra fram frumvarp þar sem gefinn var afsláttur af skerðingunni um 35 aura. Í dag er því 65% skerðing í stað 100% áður. Það voru mikil vonbrigði að skerðingin skyldi ekki vera afnumin að fullu  og því ákvað ÖBÍ að höfða dómsmál á hendur stjórnvöldum vegna þessa máls.

Í ár urðu einnig þær ánægjulegu breytingar á lögum um almannatryggingar að TR skuli taka tillit til atvinnutekna mánaðarlega í stað þess að horfa heilt ár aftur í tímann. Ennfremur voru einnig samþykkt lög sem þýða að uppbætur á lífeyri vegna framfærslubyrðar og uppbót vegna reksturs bifreiðar er undanþegin skatti frá 1. janúar 2019. Þarna unnust nokkrir sigrar en svo kom að fjárlögum. Í lok desember 2018 voru fjárlög 2019 samþykkt. Í þessum fjárlögum voru engar hækkanir umfram lögbundnar. Í umræðum á Alþingi ákváðu stjórnvöld svo skyndilega að taka 1,1 milljarð af því sem fyrr hafði verið úthlutað til málaflokks örorku og fatlaðs fólks. ÖBÍ mótmælti þessum fyrirætlunum harðlega. Þegar endurskoðuð fjármálaáætlun var lögð fram, var tillaga um að skerða fyrri tillögu til málaflokksins um 8 milljarða vegna gjaldþrots WOW, loðnubrests og minnkandi ferðamannastraums. Enn á ný mótmælti ÖBÍ kröftuglega og fór það svo að í endanlegri fjármálaáætlun varð 4,5 milljarða lækkun í stað átta áður.

ÖBÍ sendi inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna útreiknings TR á skerðingum örorkulífeyris til þeirra sem búið hafa hluta úr ævi erlendis. ÖBÍ taldi að útreikningur TR bryti í bága við íslensk lög og samræmdist ekki EES reglugerð um almanna- tryggingar. Umboðsmaður Alþingis var sammála skilningi ÖBÍ og í desember 2018 viðurkenndi velferðarráðuneytið að TR bæri að fara eftir lögum og endurreikna og greiða upp á það sem vantaði. Um miðjan maí 2019 hóf TR endurreikning á búsetu til þeirra rúmlega 1000 manns sem áttu rétt á leiðréttingu. Stjórnvöld hafa gefið það út að leiðrétt verði fjögur ár aftur í tímann en ÖBÍ krefst þess að TR leiðrétti tíu ár aftur í tímann. Fyrirhugað er að höfða dómsmál í þeirri von um að ná fram leiðréttingu tíu ár aftur í tímann.

Á árinu endurgreiddi Reykjavíkurborg fólki sem leigði hjá Brynju hússjóði og öðrum hagsmunaaðilum sem leigja öryrkjum húsnæði, sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann. Þessar bætur lentu í vasa TR vegna þess að litið var á þær sem fjármagnstekjur og því ollu bæturnar skerðingu á lífeyrisgreiðslum. Að mati ÖBÍ er þetta óviðunandi staða og því hefur verið sent erindi til Félagsmálaráðuneytisins þar sem lögð er til lausn á málinu.

Þá kynnti formaður nýja auglýsingaherferð til þess að vekja athygli almennings á kjörum örorkulífeyrisþega. Slagorð herferðarinnar er „Bjóðum betur“. Fyrirhugað er að auglýsingaherferðin verði á öllum helstu samfélagsmiðlum auk sjónvarps, útvarps og blaða.

Formaður fjallaði einnig um greiningarskýrslu KPMG um þróun örorku til ársins 2030 sem var unnin að beiðni félagsmálaráðuneytisins. Þar kemur fram að öryrkjum muni fjölga mikið fram til ársins 2030. ÖBÍ taldi nauðsynlegt að fá álit sérfræðings á skýrslunni og var Kolbeinn Stefánsson hagfræðingur fenginn til þess að vinna greinargerð um fjölgun örorkulífeyrisþega frá árinu 2008 til ársins 2030. Skemmst er frá því að segja að niðurstöður hans eru allt aðrar en KPMG (sjá fskj. nr.2a).

Mikil aukning varð á umfjöllun um ÖBÍ í fjölmiðlum skv. talningu Creditinfo, sem gefur vísbendingu um að fréttaflutningur af málefnum bandalagsins sé markviss og nái athygli. Þá hefur fylgjendum ÖBÍ á Facebook fjölgað um tæp 20% á tímabilinu.

Málefnahópar bandalagsins eru afar mikilvægir og störf þeirra eru grundvöllur að málefnavinnu ÖBÍ. Valinn maður er í hverju rúmi og vinna þeirra er ómetanleg. Aðalfundur 2018 samþykkti að farið yrði í aðgengisátak. Tveir starfsmenn voru ráðnir til hálfs árs, Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir. Þær komu í pontu og kynntu átakið.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar. Tveir fundarmenn tóku til máls og þökkuðu fyrir góða skýrslu. Spurt var hvort að aðgengismálum yrði fylgt eftir þar sem úrbóta var þörf? Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir svaraði og sagði að málefnahópur um aðgengi myndi fylgja úrbótum eftir. Ennfremur var spurt hvernig hægt væri að beita sér fyrir hækkun á örorkulífeyri? Þuríður Harpa formaður svaraði og sagði að ÖBÍ vonaðist til þess að stjórnvöld myndu standa við þá leiðréttingu sem þau höfðu áður lofað. ÖBÍ hefur leitað liðsinnis verkalýðsfélaganna og vonast formaðurinn til þess að það muni bera árangur.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Guðmundur Snorrason, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2018 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur 2018). Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2018. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum. Endurskoðandi vakti athygli á breyttri framsetningu reikninganna, sem var gerð til að leiða fram með skýrari hætti hvað rekstur ÖBÍ tekur til sín án áhrifa frá framlögum frá Íslenskri getspá og styrkjum sem ÖBÍ veitir aðildarfélögum.

  • Heildartekjur ársins 2018 voru 2,2 % hærri en árið 2017, 13,2 milljónir í stað 12,5 árið áður.
  • Rekstrargjöld voru 281 milljón 2018 en 251 milljón 2017.
  • Laun og tengd gjöld hækkuðu á milli ára því laun hækkuðu vegna kjarasamninga, vegna leiðréttingar aftur í tímann og fjölgun starfsmanna um tvö stöðugildi.
  • Fundir, ráðstefnur, auglýsingar og kynningar voru 30 milljónir 2018 á móti rúmlega 33 milljónum árið á undan.
  • Fjármunatekjur ársins 2018 voru 11,5 milljónir, í stað tæplega 10 árið 2017.
  • Rekstrarafkoma fyrir fjármunatekjur var neikvæð upp á 256 milljónir árið 2018 á móti 228 milljónum árið á undan. Framlög frá Íslenskri getspá, sem hækkuðu um 11% á milli ára, komu til móts við neikvæða rekstrarafkomu.
  • Rekstrarafkoma 2018 var tæpar 39 milljónir, í stað ríflega 21,5 milljóna 2017.
  • Fastafjármunir lækkuðu um sjö milljónir á milli ára, að stærstum hluta vegna fasteignar. Aðrar langtímakröfur hækkuðu um átta milljónir og því stóðu fastafjármunir nánast óbreyttir á milli ára, fór úr tæpum 523 milljónum 2017 í tæplega 524 milljónir árið 2018.
  • Eigið fé jókst á milli ára, fór úr 574 milljónum árið 2017 í 613 milljónir árið 2018. Lífeyrisskuldbindingar stóðu nánast í stað á milli ára og skammtímaskuldir jukust úr tæpum 50 milljónum 2017 í tæplega 156 milljónir 2018, vegna ógreiddra framlaga til tengdra aðila um áramót.
  • Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var mjög góð um áramót, eignir, eigið fé og skuldir samtals 808,5 milljónir 2018, í stað 664 milljóna 2017.
  • Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ og framkvæmdastjóri.
  • Framkvæmdarstjóri, Lilja Þorgeirsdóttir, þakkaði yfirferð á ársreikningi. Sagði hún að þegar tekjur aukist eykst svigrúm til styrkja. Rekstrarafgangi 2018 var ráðstafað til Brynju hússjóðs ÖBÍ og í aukastyrki til aðildarfélaga.
  • Fimm fundarmenn tóku til máls. Spurt var hvers vegna starfsmönnum á skrifstofu ÖBÍ fjölgi ört og hvað gerist ef tekjur frá Íslenskri getspá falli niður. Spurt var um lífeyrisskuldbindingar og hvort þær séu ekki uppreiknaðar reglulega og spurt var hvort einhverjir starfsmenn þiggi laun skv. samningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Gerð var athugasemd við að formenn málefnahópa væru ekki taldir til starfsmanna ÖBÍ og spurt var um hvernig styrkir til félaga séu ákveðnir.
  • Framkvæmdastjóri sagði formenn málefnahópa og gjaldkera ÖBÍ fá þóknun og að þeir væru taldir með sem starfsmenn ÖBÍ. Hægt væri að reka ÖBÍ í eitt ár á þeim sjóðum sem til væru með því að skera niður alla styrki. Lífeyrisskuldbindingar ÖBÍ eru uppreiknaðar reglulega. Um úthlutun styrkja gilda ákveðnar reglur, sem aðildarfélögin geta nálgast hjá framkvæmdastjóra. Aukastyrkir til aðildarfélaga og fyrirtækja eru veittir samkvæmt ákvörðun stjórnar og eru reiknaðir miðað við rétt aðildarfélags til fjölda fulltrúa á aðalfundi ÖBÍ.
  • Gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, sagði að stærð varasjóðs væri ákvörðun stjórnar hverju sinni. Hann velti upp þeirri spurningu hversu miklum sjóðum ÖBÍ eigi að safna. Gjaldkeri minnti á að einkaleyfi Íslenskrar getspár til reksturs Lottó gildi til 2038 og því sé ekki tímabært að hafa áhyggjur af því að tekjur þaðan falli niður. Þá sagði hann stöðu ÖBÍ vera góða.
  • Varaformaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson, tók til máls og sagði að breytingar á starfsemi ÖBÍ sem aðalfundur hefur samþykkt kalli á fjölgun starfsmanna skrifstofunnar vegna aukinna verkefna.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Var ársreikningur ÖBÍ 2018 samþykktur samhljóða.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2018-2019 sem var dreift á fundinum, (fskj. nr. 2, bls. 32-37).

Málefnahópur um aðgengismál (a)

Ingveldur Jónsdóttir frá MS félagi Íslands, formaður hópsins, sagði frá starfi hópsins, þakkaði gott samstarf við þá sem sátu í hópnum og starfsmanni hópsins.

Ásamt Ingveldi voru í hópnum Birna Einarsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg lsh. Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh., Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu, Sara Birgisdóttir frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og Sigurjón Einarsson frá Fjólu, sem einnig var varaformaður. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)

Sævar Pálsson frá Hjartaheillum var formaður hópsins og með honum störfuðu Brynhildur Arthúrsdóttir frá Laufi, Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, María Hauksdóttir frá Blindrafélaginu, Sigríður Fossberg Thorlacius frá Málbjörg, Sigurður Jón Ólafsson frá Stómasamtökum Íslands og Sylviane Lecoultre frá Geðhjálp. Brandur Bjarnason Karlsson frá Sjálfsbjörg lsh., og Hrannar Björn Arnarsson frá ADHD samtökunum voru varamenn. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Hrönn Stefánsdóttir sagði frá starfi hópsins, í fjarveru formanns, og sýndi myndband sem hópurinn lét gera, um allskonar störf fyrir allskonar fólk. Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um heilbrigðismál (c)

Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands var formaður og ásamt honum voru í hópnum Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra, Stefanía G. Kristinsdóttir frá SÍBS og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Varamenn voru Fríða Björk Arnardóttir frá Hjartaheillum og Hannes Þórisson frá Félagi nýrnasjúkra. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.

Formaður gerði góða grein fyrir starfi hópsins sem hélt 18 fundi og tvö málþing á milli aðalfunda. Fundarstjóri bauð umræður enginn kvaddi sér hljóðs.

Málefnahópur um kjaramál (d)

Rósa María Hjörvar frá Blindrafélaginu var formaður og Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp varaformaður. Starfaði hann sem formaður frá því Rósa María fór í veikindaleyfi í maí 2019. Ásamt þeim störfuðu í hópnum Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Einar Björnsson frá Geðhjálp, Frímann Sigurnýasson frá SÍBS og Sævar Pálsson og Valgerður Hermannsdóttir frá Hjartaheillum. Varamenn hópsins voru Helga Elínborg Auðunsdóttir frá SÍBS og Snæbjörn Áki Friðriksson frá Málbjörg. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir var starfsmaður hópsins.

Hópurinn fundaði 24 sinnum og var starf starfshópa félagsmálaráðherra um breytt almannatryggingakerfi stór þáttur í vinnu hópsins. Fundarstjóri bauð umræður og spurt var hvort ekki þurfi að þrýsta á um að öryrkjar fái fulltrúa í kjarasamninga- nefndir. Bergþór svaraði því játandi.

Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)

Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum var formaður hópsins og með honum áttu sæti í hópnum Arna Sigríður Albertsdóttir frá SEM samtökunum, Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Elma Finnbogadóttir frá Blindrafélaginu, Freyja Haraldsdóttir frá Tabú, Guðmundur Magnússon frá SEM samtökunum, Snædís Rán Hjartardóttir frá Fjólu og varamenn voru Andri Valgeirsson frá Sjálfsbjörg lsh. og Ingibjörg Snorra Hagalín frá MS félagi Íslands. Starfsmaður hópsins var Sigurjón Unnar Sveinsson.

Rúnar Björn sagði frá starfi hópsins. Sagði hann meðal annars frá því að fjöldi NPA samninga hefur tvöfaldast frá aðalfundi 2018. Hópurinn hefur meðal annars veitt sveitafélögum aðhald við að framfylgja lögum og reglugerð um NPA. Engar fyrirspurnir bárust.

Málefnahópur um málefni barna (f)

Elín Hoe Hinríksdóttir frá ADHD samtökunum var formaður málefnahóps um málefni barna og í hópnum með henni sátu Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra / Laufi, Halldóra Inga Ingileifsdóttir frá Ás styrktarfélagi, Sif Hauksdóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfusamtökunum og Sunna Brá Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands. Varamenn voru Áslaug Inga Kristinsdóttir frá Geðhjálp og Ragnar Vignir frá ADHD samtökunum. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Formaður kynnti skýrslu hópsins, sagði frá ungmennaþingi sem hópurinn stóð fyrir og kynnti vinnu við réttindagátt um réttindi barna með fötlun og raskanir, sem verið er að taka saman fyrir hópinn. Elín þakkaði starfsmanni og nefndarmönnum fyrir mjög gott starf.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrsluna. Þrír tóku til máls. Spurt var um réttindi barna sem eiga fatlaða foreldra og hvort stefnt sé á að skoða það sérstaklega. Spurt var hvort erlendir foreldrar eigi fulltrúa í málefnahópnum og hvort einhver hópur sé starfandi á vegum Reykjavíkurborgar sem hugi að málefnum fatlaðra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra.

Elín sagði það vera á dagskrá vetrarins að huga að stöðu heilbrigðra barna fatlaðra foreldra. Ennfremur sagði hún að hugað yrði að réttindum erlendra foreldra fatlaðra barna og stefnt væri að því að þýða réttindabækling yfir á önnur tungumál til þess að auðvelda erlendum foreldrum að þekkja réttindi sín. 

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 40-45) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4a-4e. Fundarstjóri bauð umræður um skýrslurnar.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Garðar Sverrisson, formaður Brynju, var til svara. Spurt var um kaup og sölu íbúða, ástæður þess að engin íbúð hafi verið keypt/byggð 2018 og hvort standi til að bæta úr því 2019. Einnig var spurt hvort eitthvað gangi á biðlista.

Garðar sagði lítið ganga á biðlista. Hann sagði stofnframlög frá ríkisstjórn og styrki hafa verið engin á síðasta ári og þess vegna hafi engar íbúðir verið keyptar.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (c)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

TMF- Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Helga Gísladóttir, forstöðumaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun (5)

Formaður þakkaði málefnahópum og formönnum þeirra fyrir gríðargott starf frá síðasta stefnuþingi. Kynnti formaður fjórða Stefnuþing ÖBÍ, sem fram fer 27. og 28. mars 2020, á Grand Hóteli, þar sem m.a. heimsmarkmið SÞ verða tekin fyrir.

Aðildargjöld, ákvörðun (6)

Fundarstjóri kynnti fram komna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5). Rúnar Björn Herrera kvaddi sér hljóðs fyrir hönd stjórnar SEM samtakanna og lagði fram eftirfarandi tillögu (sjá fskj. nr. 5a):

„Á stjórnarfundi SEM haldin 1. Október 2019 ákvað Stjórn SEM að gera tillögu til aðalfundar ÖBÍ þess efnis að ÖBÍ taki félagsgjöld af félögum innan ÖBÍ og leggur stjórn SEM fram að félagsgjal pr. félaga verði 100 krónur á félagsmann.“

Fundarstjóri bauð umræður um báðar tillögurnar. Ellefu fundarmenn tóku til máls. Í máli þeirra kom fram áminning til aðildarfélaga um að hafa sína félagaskrá í lagi. Fram kom að tillagan væri til að sporna gegn því að aðildarfélögin bólgni út.

Fundarstjóri tók tillögu SEM samtakanna til afgreiðslu. Tillagan var felld með þorra atkvæða gegn fjórum.

Þá var tekin til atkvæða tillaga stjórnar ÖBÍ. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur og tveir sátu hjá.

Stjórnarseta, þóknun (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári sem er eftirfarandi:

  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 6 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er
  • 2.308 kr. á hverja einingu, miðað við júní 2019.

Fundarstjóri bauð umræður. Spurt var hvort ekki væri um lága þóknun að ræða. Framkvæmdastjóri útskýrði fyrirkomulag greiðslna.

Greidd voru atkvæði um tillöguna sem var samþykkt með þorra atkvæða, en 10 sátu hjá.

Kl. 19:50 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 5. október 2019.

 Laugardagur 5. október 2019 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:07.

Kosningar í stjórn

 
Fram fór nafnakall. Mættir voru 119 fulltrúar fyrir 43 aðildarfélög ÖBÍ (sjá fskj. nr. 7). Yfirlit yfir framboð til stjórnar var í fundargögnum (sjá fskj. nr. 8). Kynningar á frambjóðendum lágu frammi og má sjá þær í fylgiskjölum (sjá fskj. nr. 9-17b).
 

Fundarstjóri lagði til að Páll Hilmarsson, Dóra Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson yrðu talningamenn á fundinum. Var það samþykkt samhljóða.

Albert Ingason kvaddi sér hljóðs og sagði frá starfi kjörnefndar í fjarveru formanns hennar, Jóns Þorkelssonar. Þakkaði Albert starfsmanni nefndarinnar fyrir vel unnin störf. Sagði Albert störf nefndarinnar hafa verið meira krefjandi að þessu sinni en oft áður og þess vegna telur kjörnefnd sig knúna til að velta því upp hvort tilefni sé til að stækka þann hóp sem hún hefur úr að velja. Albert kynnti framboð tveggja aðila sem bárust eftir að framboðslisti var prentaður. Það voru framboð Gísla Helgasonar til setu í laganefnd og Ingveldar Jónsdóttur sem varamann við endurskoðun reikninga.

Formaður (8)

Þuríður Harpa Sigurðardóttir var ein í framboði til formanns ÖBÍ (fskj. nr. 9) og því var hún sjálfkjörin í embætti formanns ÖBÍ 2019-2021.

Þuríður Harpa tók til máls og þakkaði fyrir traustið. Hún taldi sitt helsta verkefni vera að berjast gegn kjaragliðnun undanfarinna ára. Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður kvaddi sér hljóðs og sagði Þuríði Hörpu hafa komið fullskapaða inn í embætti formanns fyrir tveimur árum og leitt stjórn og skrifstofu áfram af röggsemi og hugmyndaauðgi.

Varaformaður (9)

Kosið verður í embætti varaformanns 2020.

Gjaldkeri (10)

Kosið verður í embætti gjaldkera 2020.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Fundarstjóri kynnti að 120 atkvæðabærir fulltrúar væru í salnum.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um aðgengismál. Ein var í framboði, Ingveldur Jónsdóttir frá MS félaginu (fskj. nr. 10).

Engin framboð bárust úr sal og því var Ingveldur Jónsdóttir sjálfkjörin formaður málefnahóps um aðgengismál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál. Einn var í framboði, Sævar Pálsson frá Hjartaheillum (fskj. nr. 11).

Engin framboð bárust úr sal og var Sævar Pálsson því sjálfkjörinn formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um heilbrigðismál. Einn var í framboði, Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands (fskj. nr. 12).

Engin framboð bárust úr sal og því var Emil Thóroddsen sjálfkjörinn formaður málefnahóps um heilbrigðismál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um kjaramál. Einn var í framboði, Bergþór H. Þórðarson frá Geðhjálp (fskj. nr. 13).

Engin framboð bárust úr sal og því var Bergþór H. Þórðarson sjálfkjörinn formaður málefnahóps um kjaramál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um sjálfstætt líf. Einn var í framboði, Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum (fskj. nr. 14).

Engin framboð bárust úr sal og því var Rúnar Björn Herrera sjálfkjörinn formaður málefnahóps um sjálfstætt líf 2019-2021.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu fjögurra stjórnarmanna til tveggja ára. Fjögur höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests, þau Elín Hoe Hinriksdóttir frá ADHD samtökunum, Frímann Sigurnýasson frá Vífli, María Óskarsdóttir frá Sjálfsbjörg lsh. og Sylviane Lecoultre frá Geðhjálp (sjá fskj. nr.15a-d). Fundurinn samþykkti að leyfa framboð Gísla Helgasonar frá Blindravinafélaginu. Farið var yfir fyrirkomulag kosninganna. Frambjóðendur kynntu sig.

Greidd voru 120 atkvæði og voru þrír seðlar ógildir. Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2019-2021:

  • Elín Hoe Hinriksdóttir með 110 atkvæði.
  • Sylviane Lecoultre með 105 atkvæði.
  • María Óskarsdóttir með 98 atkvæði.
  • Frímann Sigurnýasson með 97 atkvæði.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Fundarstjóri kynnti að 122 atkvæðabærir fulltrúar væru í salnum og tók fyrir kosningu fimm fulltrúa í kjörnefnd. Í framboði voru Albert Ingason frá SPOEX, Dagný Erna Lárusdóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Jón Þorkelsson frá Stóma- samtökum Íslands, Sigurbjörg Ármannsdóttir frá MS félagi Íslands og Sigurður Rúnar Sigurjónsson frá SÍBS (sjá fskj. nr.16a-e). Engin framboð komu fram á fundinum og því var kjörnefnd sjálfkjörin.

Í framboði tveggja varamanna í kjörnefnd voru Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfu- samtökunum og Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands. Engin framboð bárust úr sal og voru þær því sjálfkjörnar.

Laganefnd (15)

Fundarstjóri kynnti kosningu fimm fulltrúa í laganefnd. Innan tilskilins tíma höfðu boðið sig fram Frímann Sigurnýasson frá Vífli, Hrannar Björn Arnarsson frá ADHD samtökunum, Jóhann Guðvarðarson frá Gigtarfélagi Íslands, Sveinn Guðmundsson frá SÍBS og Þorsteinn Fr. Sigurðsson frá Sjálfsbjörg lsf. Þorsteinn dró framboð sitt til baka fyrir fundinn. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins fyrir framboði Helgu Hallgríms- dóttur frá Nýrnafélaginu, Bergþórs H. Þórðarsonar frá Geðhjálp, Maríu Óskarsdóttur frá Sjálfsbjörg lsh. og Gísla Helgasonar frá Blindravinafélagi Íslands. Var það samþykkt. Frambjóðendur kynntu sig.

Fundarstjóri kynnti að 124 fulltrúar væru í salnum með atkvæðisrétt. Gengið var til kosninga fimm fulltrúa í laganefnd og þessi hlutu kosningu:

  • Helga Hallgrímsdóttir með 114 atkvæði.
  • María Óskarsdóttir með 101 atkvæði.
  • Bergþór H. Þórðarson með 97 atkvæði.
  • Hrannar B. Arnarsson með 93 atkvæði.
  • Jóhann Guðvarðarson með 69 atkvæði.

Fundarstjóri kynnti kosningu tveggja varafulltrúa. Edda Svavarsdóttir frá CCU samtökunum og Ragnar Davíðsson frá Nýrri rödd höfðu kynnt framboð sín fyrir aðalfundinn en Ragnar dró framboð sitt til baka. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins fyrir framboðum Rúnars Björns Herrera frá SEM samtökunum, Fjólu Guðmunds- dóttur frá HIV – Íslandi, Gísla Helgasonar frá Blindravinafélaginu og Eyþórs Kamban Þrastarsonar frá Blindrafélagi Íslands. Var það samþykkt. Frambjóðendur kynntu sig og dró Gísli framboð sitt til baka.

Fundarstjóri kynnti fyrirkomulag kosninganna og fundarmenn gengu til atkvæða. Greidd voru 121 atkvæði, einn seðill var auður. Þessi hlutu kosningu sem varafulltrúar í laganefnd:

  • Edda Svavarsdóttir með 64 atkvæði.
  • Rúnar Björn Herrera með 61 atkvæði.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Fundarstjóri kynnti kosningu tveggja skoðunarmanna reikninga og varafulltrúa þeirra. Í framboði voru Árni Sverrisson frá Alzheimersamtökunum á Íslandi og Guðrún Bergmann Franzdóttir frá Hjartaheillum. Fleiri gáfu ekki kost á sér og því voru þau sjálfkjörin.

Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg lsh. var í framboði sem varamaður. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins fyrir framboði Guðmundar Rafns Bjarnasonar frá Blindrafélaginu og Ingveldar Jónsdóttur frá MS félagi Íslands og var það samþykkt. Ingveldur dró framboð sitt til baka og því voru Grétar Pétur og Guðmundur Rafn sjálfkjörnir.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 18).

Formaður laganefndar, Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Í nefndinni sátu, auk formanns, Ingi Hans Ágústsson frá HIV Íslandi, Svavar Kjarrval Lúthersson frá Einhverfusamtökunum, Vilborg Gunnarsdóttir frá Alzheimersamtökunum og Þórir Steingrímsson frá Heilaheillum. Nefndinni höfðu borist þrjár lagabreytingartillögur fyrir aðalfund (sjá fskj. nr. 19-21).

Svavar Kjarrval frá Einhverfusamtökunum kvaddi sér hljóðs og dró áður kynnta breytingartillögu sína til baka (sjá fskj. nr. 20).

Tillaga Guðjóns Sigurðssonar frá MND félagi Íslands var ekki tekin til afgreiðslu, heldur vísað í önnur mál (sjá fskj. nr. 21).

Þá tók fundarstjóri breytingartillögu frá MS félagi Íslands til afgreiðslu. Ingveldur Jónsdóttir kynnti tillöguna um breytingu á 1. mgr. 12. gr. laga ÖBÍ (sjá fskj. nr. 19):

„Aðalfulltrúar aðildarfélaga hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir á aðalfundi. Varafulltrúar aðildarfélaga eru kjörgengir í eftirfarandi embætti: laganefnd, kjörnefnd og skoðunarmenn reikninga.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Átján tóku til máls. Voru fundarmenn almennt hlynntir breytingartillögunni en töldu hana ekki nægilega skýra, bæði varðandi seturétt varafulltrúa á aðalfundi, atkvæðarétt og framboðsrétt aðalfulltrúa sem forfallast og rétt þeirra þegar varamenn eru kallaðir inn. Hörgull hefur verið á frambjóðendum í þau embætti sem talin eru upp í tillögunni og taka þarf af allan vafa varðandi seturétt og kjörgengi fulltrúa.

Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum lagði fram tvær breytingartillögur, en hvorug var tekin til afgreiðslu.

Gísli Helgason frá Blindravinafélaginu lagði til að tillögu MS félags Íslands yrði vísað frá (sjá fskj. nr. 21a). Var tillagan felld með 42 atkvæðum gegn 32 og 35 sátu hjá.

Dóra Ingvadóttir, formaður laganefndar, lagði til að vísa málinu til laganefndar. Var það samþykkt með þorra atkvæða gegn einu og tveir sátu hjá.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust innan tilskilins frests, en fjórar ályktanir höfðu borist fyrir fundinn og fundarstjóri óskaði leyfis fundarins til að taka ályktanirnar fyrir. Var það samþykkt samhljóða.

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti aðalályktun fundarins um kjör örorkulífeyrisþega, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 22):

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 4. og 5. október 2019 um kjör örorkulífeyrisþega.

Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Einn tók til máls og hvatti til samþykktar.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Formaður kynnti ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (sjá fskj. nr. 23).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hvetur Alþingi til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en á haustþingi 2020.

Fundarstjóri bauð umræður. Tveir tóku til máls. Var formaður og stjórn hvött til að eiga samtal við nýkjörinn dómsmálaráðherra. Spurt var hvers vegna tímafrestur væri ekki skemmri.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða. Var hún samþykkt samhljóða.

Formaður kynnti ályktun um atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega (sjá fskj. nr. 24).

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á ríkisstjórnina að láta af núverandi tekjuskerðingum gagnvart atvinnutekjum öryrkja, sem gera ekkert nema letja til þátttöku á vinnumarkaði, og taka frekar upp jákvæða hvata til að afla tekna. Þannig vinna allir.

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina, en engar urðu.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

Formaður kynnti ályktun um mikilvægi mótunar stefnu í endurhæfingarmálum (sjá fskj. nr. 25 ):

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 4. og 5. október 2019 ályktar um að mikilvægt sé að fólk hafi gott aðgengi að læknisfræðilegri endurhæfingu. Aðalfundurinn krefst þess að heilbrigðisráðherra flýti boðuðu starfi varðandi mótun stefnu í endurhæfingu, án þess þó að gæði þeirrar vinnu skerðist. Skýr stefna í endurhæfingu á að vera það leiðarljós sem notað er við innkaup slíkrar þjónustu. Fundurinn varar við gerræðislegum vinnubrögðum sem nú virðast uppi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara. Mikilvægar kerfisbreytingar verða að vera unnar í samráði við hagsmunaaðila, kröfur og útboðsgögn vel unnin og tími til þess að vinna verkefnið fyrir hendi. Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að móta stefnuna fyrst og skoða svo kerfisbreytingu í innkaupum og/eða mótun nýrra samskipta þjónustuveitenda og innkaupa á þjónustunni.

Fundarstjóri bauð umræður. Fimm tóku til máls og höfðu athugasemdir við orðalag greinargerðar sem fylgdi með ályktuninni.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt með þorra atkvæða, tveir sátu hjá.

Önnur mál (20)

A
Fundarstjóri tók til umræðu kynnta tillögu um mat á lögum ÖBÍ frá Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND félagsins (sjá fskj. nr. 21 ):

Aðalfundur leggur til að stjórn, í samvinnu við laganefnd bandalagsins, verði falið að meta hvort lög Öryrkjabandalags Íslands standist kröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. álit nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nr. 7, kröfur Evrópusamtaka fatlaðs fólks (EDF) og kröfur Evrópusamtaka um sjálfstætt líf ) um meirihlutaþátttöku fatlaðs fólks í stjórnum og ráðum.

Telji stjórn eða laganefnd þörf á því að leggja til breytingar á lögum Öryrkjabandalags Íslands skal hún leggja breytingartillögur sínar fram eigi síðar en í maí 2020 og verða þær síðan lagðar fyrir aðalfund 2020

Ægir fylgdi tillögunni úr hlaði. Hann sagði ekkert í lögum ÖBÍ sem taki á þessu máli og tillagan sé hvatning til laganefndar og stjórnar ÖBÍ að skoða vel sjöunda almenna álit nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (sjá http://bit.ly/7-alit-sþ) og sýn ENIL á það álit (sjá http://bit.ly/ENIL-um-7-alit-SÞ). Sagði Ægir tillöguflytjendur óska svars við tillögunni.

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Sjö tóku til máls. Voru menn almennt fylgjandi tillögunni. Spurt var hvort ekki væri ástæða til að láta þýða álitið til að forðast mistúlkun og ræddu menn ólíkan skilning hugtakanna fötlun og skerðing og nauðsyn þess að skoða málið vel. Jafnframt var þess óskað að laganefnd kannaði umfang skyldunnar sem álitið fjallar um, hvort hún nái umfram stjórnir félaga- samtaka. Rætt var um mikilvægi þess að tryggja meirihluta fatlaðs fólks í stjórnum og spurt hvort lög ÖBÍ endurspegli alþjóðlegar reglur.

Fundarstjóri tók tillöguna til afgreiðslu. Var hún samþykkt með þorra atkvæða og sex sátu hjá.

B

Fundarmenn vöktu athygli á þjónustu Sjúkratrygginga við þá sem þurfa penna fyrir insúlíngjafir og vörur vegna stóma og þvagleggja. Hvatti stjórn aðildarfélögin til að hyggja að þessum málum fyrir sína félagsmenn.

C
Bergþór H. Þórðarson frá Geðhjálp vakti athygli á aðgengi að sálfræðiþjónustu og hvatti fundarmenn til að vera virka í að vekja máls á málefninu hjá þingmönnum.

Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður ÖBÍ þakkaði góðan fund og hvatti fundarmenn til að halda baráttunni áfram og krefjast verulegrar hækkunar á grunnbótum. Hann hvatti jafnframt hvert og eitt aðildarfélag til að senda inn umsögn um fjárlagafrumvarpið.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður hvatti félögin til að tilnefna fulltrúa inn í málefnahópa ÖBÍ. Þakkaði hún fundarstjórum skelegga og góða fundarstjórn og þakkaði traustið sem henni hefur verið sýnt. Baráttan heldur áfram!

Formaður sleit fundi kl.16:02.

Fylgiskjöl:

1) Dagskrá aðalfundar 4. og 5. október 2019
2) Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2018-2019
a) Fjöldaþróun örorkulífeyrisþega eftir Kolbein H. Stefánsson
3) Ársreikningur ÖBÍ 2018
4) Ársreikningar fyrirtækja
a) BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins
b) Örtækni
c) Hringsjá
d) Fjölmennt
5) Tillaga að aðildargjaldi 2019
a) Breytingartillaga frá SEM samtökunum
6) Tillaga að þóknun fyrir stjórnarsetu ÖBÍ
7) Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi 2019
8) Yfirlit yfir framboð til embætta 2019
9) Kynning frambjóðanda til formanns ÖBÍ
10) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um aðgengismál
11) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál
12) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um heilbrigðismál
13) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um kjaramál
14) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um sjálfstætt líf
15) Kynning frambjóðenda til stjórnar a-d
16) Kynning frambjóðenda til kjörnefndar a-e
17) Kynning frambjóðenda til laganefndar a-b
18) Lög Öryrkjabandalags Íslands
19) Tillaga stjórnar MS félags Íslands að lagabreytingu
20) Lagabreytingartillaga Svarvars Kjarrval
21) Tillaga Guðjóns Sigurðssonar, MND félagi Íslands
22) Ályktun aðalfundar um kjör örorkulífeyrisþega
23) Ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
24) Ályktun um atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega
25) Ályktun um mikilvægi mótunar stefnu í endurhæfingarmálum