Skip to main content
Frétt

Áfellisdómur yfir TR

By 17. september 2018No Comments
Umboðsmaður Alþingis telur að túlkun Tryggingastofnunar á búsetuskerðingu standist ekki. Umboðsmaður segir í nýju áliti að stofnunin og úrskurðarnefnd velferðarmála verði að fara yfir öll mál af þessu tagi. Þau skipta hundruðum á síðustu árum, en þúsundir verða samt sem áður fyrir skerðingunni.

Haft er eftir Daníel Isebarn Ágústssyni, lögmanni ÖBÍ í Fréttablaðinu, að Tryggingastofnun eigi að hafa frumkvæði að því að þessi mál verði endurskoðuð. Hann segir gríðarlega vinnu liggja að baki málinu hjá ÖBÍ. „Þetta mál var rekið af miklum krafti fyrir umboðsmanni. Álitið er áfellisdómur yfir lagatúlkun og framkvæmd Tryggingastofnunar á þessum málum.“ Ítarleg grein er gerð fyrir úrskurði Umboðsmanns hér að neðan.

Kom alls staðar að lokuðum dyrum

Það var Jóhanna Þorsteinsdóttir sem fór með málið til Umboðsmanns. „Það er rosalega gott að þetta mál hafi unnist en ég glími samt við áfallastreituröskun vegna þessa máls. Þetta er búið að vera langt ferli og hefur staðið í rauninni alveg frá 2013,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. Hún gagnrýnir jafnframt framkomu Tryggingastofnunar í málinu harðlega.

„Tryggingastofnun hefur ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni á neinu stigi málsins. Ég kom alls staðar að lokuðum dyrum eða í besta falli hálfopnum. Ég væri fyrir löngu komin aftur á vinnumarkað ef samskiptin við Tryggingastofnun hefðu verið betri. Þetta hefur hamlað bata mínum rosalega mikið,“ segir Jóhanna Þorsteinsdóttir

Um hvað snýst málið?

Samkvæmt lögum um almannatryggingar miðast full réttindi til örorkulífeyris og tengdra bóta við það að einstaklingur hafi haft búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Þar sem einstaklingar sem metnir eru til örorku hafa oftar en ekki búið (og jafnvel lifað) skemur en 40 ár þarf að áætla búsetuna þegar örorkan er ákveðin.

Í lögunum segir að þegar um skemmri búsetutíma en 40 ár sé að ræða reiknist rétturinn í hlutfalli við búsetutímann. Þá segir einnig í lögunum að við ákvörðun búsetutíma örorkulífeyrisþega, skuli reikna með tímann frá og með örorkumati fram til 67 ára aldurs.

ÖBÍ hefur viljað túlka þetta með þeim hætti að öll ár fram að örorkumati skuli meta sem búsetu einstaklings hér á landi. Hafi einstaklingur t.d. búið 10 ár í Danmörku en 10 ár á Íslandi þegar hann er metin til örorku 36 ára þá beri að taka árin til 67 ára (31 ár) með sem búsetu á Íslandi. Samtals búseta væri þannig 41 ár hjá einstaklingnum og fullur réttur til örorkulífeyris.

TR hefur túlkað ákvæðið þannig að taka skuli búsetuna eins og hún var við örorkumat og líta svo á að hún hefði skipst með sama hætti það sem eftir er til 67 ára aldurs. Í sama dæmi og að framan hefði þannig einstaklingur sem hefði búið 10 ár í Danmörku en 10 ár á Íslandi, á tímabilinu frá 16 ára fram að örorkumati, verið metin með 50% búsetu á Íslandi til framtíðar. Þessi 36 ára einstaklingur væri þannig einungis með 50% rétt til örorkulífeyris til frambúðar.

Um niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis

Umboðsmaður taldi að framangreind túlkun TR hefði hvorki stoð í lögum né viðeigandi reglum Evrópuréttar. Raunar taldi hann að íslensk lagaákvæði, með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum rétti fólks til aðstoðar, og Evrópureglur bentu allar til öndverðrar niðurstöðu eins og ÖBÍ hefur bent á í mörg ár. Umboðsmaður taldi að ekki yrði önnur ályktun dregin af viðeigandi lagareglum en að reikna bæri öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka mál einstaklingsins, sem kvartaði með aðstoð ÖBÍ til nýrrar meðferðar. Þá beindi hann einnig þeim tilmælum til úrskurðarnefndar velferðarmála og Tryggingastofnunarleysa með sama hætti úr öðrum málum sem lokið hefði verið með hliðstæðum hætti. Þau mál skipta hundruðum á síðustu árum.

Forsaga og samhengi

Eftir efnahagshrunið virðist sem Tryggingastofnun hafi breytt framkvæmd sinni á útreikningi búsetu, þ.e. hvernig eigi að reikna búsetutíma hjá fólki sem hefur búið erlendis. Eftir hrunið virðist sem stofnunin hafi breytt framkvæmd reglna með íþyngjandi hætti þannig að bætur skertust, í mörgum tilvikum verulega mikið. Hefur TR m.a. vísað til Evrópureglna í þessu sambandi og túlkað þær m.a. með þeim hætti að einstaklingar sem hafa búið á EES svæðinu hafa haft minni rétt en einstaklingar sem hafa búið utan svæðisins.

Í mörg ár hefur ÖBÍ barist gegn þessari breyttu framkvæmd Tryggingastofnunar og hefur m.a. rekið nokkur mál fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, höfðað tvö dómsmál og kvartað til Umboðsmanns Alþingis.

Hinn 20. júní sl. skilaði Umboðsmaður Alþingis áliti  þar sem hann fjallar ítarlega um túlkun Tryggingastofnunar (og einnig úrskurðarnefndar velferðarmála) á þeim lagareglum sem koma til álita við ákvörðun á búsetutíma. Í stuttu máli má segja að Umboðsmaður hafi tekið undir öll sjónarmið ÖBÍ en hafnað öllum sjónarmiðum Tryggingastofnunar.